Heiðaharmur

Bergþóra var fædd á neyðar og náðþrota tímum, náðþrota og ráðþrota. 

Svona hefst bókin Heiðaharmur eftir Gunnar Gunnarsson. Ég hugsaði með mér að þetta yrði eitthvað. Bókin var gefin út árið 1940 og mig grunar að hún hafi slæðst ofan í töskuna mína á Eiðum fyrir ekki svo löngu síðan. Allavega fann ég hana allt í einu um daginn og fór að lesa. Hún er merkt Stefáni Baldvinssyni langafa, er orðin slitin og verður því að lesast mjög varlega.

Frá fyrstu setningu bókarinnar var ég seld. Íslenskan og rithátturinn í henni er meiriháttar, ef svo má að orði komast þegar um slíkt ritverk er að ræða. Þetta er í fyrsta sinn sem ég les eitthvað eftir Gunnar og víst kominn tími til.

Í morgun, á milli 8 og 9 sat ég úti í sólinni með kaffibollann og las:

Hann kom þrammandi í lausum snjó, fannbarinn, en kófsveittur, blár og bólginn í framan af veðurofsanum. Hann þumbaldaðist þetta á þreyttum fótum yfir fjandsamlega jörð undir himni, sem tók á allri sinni orku til þess eins, að því virtist, at útrýma marghrjáðum manni af þessari þelköldu jörð. 

Það þarf nú bara að standa upp eftir slíkan texta og aðeins að ganga um og fylla á kaffibollann. Hvernig er hægt að skrifa svona? Hvernig er hægt að hafa svona mikið vald á einu tungumáli? Þegar Gunnar skrifaði þessa bók, hafði hann búið lengi í Danmörku og nánast eingöngu skrifað á dönsku. Maðurinn hefur verið snillingur. Ég hafði svo sem heyrt það en ekki sjálf séð það.

Seinna í morgun skellti ég svo upp úr…

Því að þótt hún héti skrýtnu nafni, þessi tilvonandi prestkona, héti Vilhjálma og væri kölluð Hjálma, sem er venjulegra nafn á kúm en á frúm, þá gat sú litla borið það nafn. 

Það er svipað að lesa þessa bók eins og að borða upp úr fínasta súkkulaðikonfektkassa veraldar. Hver molinn á fætur öðrum bráðnar á tungunni og lætur manni líða vel.

Ég er rúmlega hálfnuð með bókina. Með þessa gersemi.

 

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *