Skellur á skell ofan.

Það var ekki komið hádegi þegar þriðji skellurinn skall á mér í dag. Við skulum fara yfir þá í sameiningu á yfirferðar tölti því ég má ekkert vera að því að blogga; garðurinn er í órækt og mig langar í bakkelsi. Það verður víst ekki til af sjálfu sér.

Fyrsti skellurinn var þegar Sjálfstæðismaðurinn í litla landsbyggðarsjálfstæðisflokkunum tjáði mér það að hætt hefði verið við að nota nektarmyndina af mér og vinkonu minni í bækling tengdum sveitastjórnarkosningunum. Hún hefði verið einum of… En tók það samt fram að hún væri falleg. Takk fyrir það. En samt skellur og viss vonbrigði. Og fullur skilningur hérna megin.

Næsti skellur varð þegar ég ætlaði að sækja grassláttuskóna mína niður í þvottahús og fara inn að utanverðu. Það er þannig að hægt er að ganga inn um kjallarann, framhjá þvottavélinni og inn á baðherbergi. Einnig er hægt að ganga inn á baðherbergi innan úr húsinu. Ég vissi að tengdasonurinn var í sturtu en það sem ég vissi ekki var að það var allt galopið að utanverðu. Ég get svo svarið það, þetta unga fólk, það hugsar ekki. Ég átti þarna í mesta basli við að sækja skóna því svo náin erum við ekki að við viljum sjá hvort annað nakið, nema náttúrulega líf liggi við. Þarna sem ég stóð fékk ég tengdamóðirin siðgæðislegt sjokk.

Þriðji skellurinn varð þegar ég var að slá grasið í garðinum og ætlaði að sveifla rafmagsleiðslunni yfir sláttuvélina en sveiflaði henni í andlitið á mér. Vá hvað það var sárt. Samt nýtti ég ekki alla kraftana í þessa sveiflu en snúningsátakið hefur væntanlega verið talsvert því ég er með talsvert lengri handleggi en meðalmanneskja. Ég hafði 20 mínútum áður lokið við að lesa Birting eftir Voltaire, sem er ein af mínum 50 uppáhaldsbókum, en í Birtingi er ofbeldið allsráðandi. Þannig að mitt í sársaukakastinu mínu, mundi ég eftir að það er alltaf einhver sem hefur verri sögu að segja en ég. Alltaf einhver sem hefur gengið í gegnum meira. Eins og t.d. kellíngin og háspekisguðfræðisalheimsviskufræðingurinn Altúnga sem lentu í því að vera nauðgað af blámanni hundrað sinnum, annar þjóhnappurinn var skorinn af, gengu svipugöngin hjá Búlgurum, voru húðstrýkt og hengd, krufin og sýkt af sýfillis og síðan látin róa galeiðu. Svo það segir sig sjálft að það er mikið betra að sveifla rauðri rafmagnsleiðslu í andlitið á sér heldur en það sem Kellíngin og  Altúnga gengu í gegnum á þannig séð stuttum tíma. Talandi um sýfillis. Við fórum í heimsókn til fjölskyldu okkar í Odense á mánudaginn og þar barst talið að íslenskum skáldum í gamla daga. Við reyndum að rifja upp hvert þeirra hafði fengið sýfillis og dáið í stiga í Kaupmannahöfn. Og við gátum ómögulega munað það. Við hölluðumst að Hallgrími Péturssyni eða Jónasi Hallgrímssyni. En það var hvorugur. Hallgrímur dó úr holdsveiki á Íslandi, Jónas datt í stiga í Kaupmannahöfn, fékk blóðeitrun og dó daginn eftir. Það hefur kannski verið einhver annar. Svona er maður ílla að sér í sögunni. En samt finnst mér ég hafa heyrt þetta. Það er líka grunsamlegt að Jónas deyi daginn eftir fallið, aðeins 37 ára gamall. Megas segir í laginu Um skáldið Jónas að hann hafi verið með sýfillis. Megas hefur líka haft sínar efasemdir.

Já þetta voru þrír skellir fyrir hádegi og ég eiginlega bara svolítið sjokkeruð. Til að bæta og kæta, ákvað ég að fá mér einn einfaldan romm.

 

4 Responses to “Skellur á skell ofan.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt.