17 dagar!

Í gær setti ég sex sinnum í þvottavél, hengdi upp úr einni þeirra – fjölskyldan sá um restina, bjó til vöfflur og fór í eins og hálfs kílómeters langan göngutúr.

Myndin er tekin í maí. 

Dagurinn í gær var sá besti síðan 29. maí. Eða sá hressasti. Besti dagurinn var á föstudaginn síðasta, daginn sem ég fór heim af OUH (Háskólasjúkrahúsinu í Óðinsvéum) eftir 17 daga innlögn. Svala og Fúsi sóttu mig og Fúsi fór beint á klóið þegar hann kom inn á deildina. Svala sagði að hann hefði verið alveg í spreng. Þegar Svala gekk inn á stofuna mína, skælbrosandi, fallega „Bali-brún“ og íklædd síðum bláköflóttum kjól, var hún það langfallegasta sem ég hafði séð í svo langan tíma. Ég fór bara að gráta þegar ég sá hana. Hún kom með heimferðarföt og ég flýtti mér eins og ég gat að skifta og koma mér út. Í kvöldmat þann daginn, borðuðum við sushi úti í garði á Möllegade. Ég gat borðað án þess þess að heyja innri baráttu við meltingarfærin mín og ruglingslegan heilann í mér.

Þetta átti aldrei að verða 17 daga innlögn heldur átti ég að fara heim 2. júní. Því að það var svo sallagott að skera í mig (læknirinn sagði það í alvörunni og ég veit að það var vegna magaæfinganna sem ég gerði sjö sinnum í maí) og ég var svo feikilega fljót á fætur. Sem sagt, fljót að jafna mig.

Upplifarnir frá OUH eru óteljandi og langflestar miður góðar. Læknar og hjúkrunarfræðingar ítrekuðu aftur og aftur við mig að ég yrði að vinna úr þessu með því t.d. að tala um þetta en ég hef aldrei verið góð í að tala. Ég er þögla manngerðin skal ég segja ykkur… Finnst auðveldara að skrifa. Þess vegna fáið þið bloggfærslu í staðinn fyrir símhringingu. Mér leiðist líka að tala mikið í síma.

Við skulum stikla á stóru:

 • Hér er færsla frá 18. maí sem segir frá fyrstu aðgerðinni minni í Aabenraa þann 8. maí. Þarna var ég búin að fá skilaboð frá OUH um að meinið væri staðbundið í eða við eggjastokkinn og að meira væri ekki hægt að segja fyrr en í komandi aðgerð 30. maí. Tvennir möguleikar væru í aðgerðinni. Annar möguleikinn var að þetta væri meinlaust og aðgerðin yrði því minni. Hinn að þetta væri illkynja krabbamein sem þýddi stærri aðgerð þar sem eitlar yrðu líka fjarlægðir og möguleiki á lyfjameðferð.
 • 30. maí fer ég í aðgerð á OUH og vakna upp við að þetta var illkynja krabbamein, búið að fjarlægja allt móðurlífið, slatta af eitlum og meinvörp á ýmsum stöðum. Þó ekki þessa tvo utanáliggjandi fitukeppi fyrir ofan mjaðmirnar sem ég hafði beðið læknana um að sjúga í burtu ef hvort eð er kæmi til stærri aðgerðarinnar. Þeir neituðu líka að taka tvö rifbein sitthvoru megin. Svar um lyfjameðferð kæmi eftir 10-14 daga.
 • 1. júní var talað um að ég færi heim daginn eftir. Upp úr miðjum degi fer ég að fá verki og undir kvöld er ég orðin fárveik og það hvarflaði að mér, hvort þetta væri mitt síðasta. Það hafði komið leki úr öðrum líffærum og þar af leiðandi sýking og loft í kviðarholið. Ég var skorin upp í snatri og gisti á Gjörinu fram eftir degi daginn eftir.
 • 7. júní uppgötvaðist aftur að það var leki, en ég varð ekki eins veik. Aðgerðin var gerð klukkan þrjú um nóttina þann 8. júní og kostaði mig ansi mikið á margan hátt.
 • 12. júní fengum við svar um að þetta hafi verið 3. stigs eggjastokkakrabbamein og að ég eigi að fara í lyfjameðferð. Sex sinnum á þriggja vikna fresti. Já, hárið fer, sem og augnhár og brúnir.
 • 15. júní fór ég loksins heim.

17 dagar!

Á meðan ég lá inni, var ég oft spurð að því hvort mér leiddist ekki. Hvort ég hefði eitthvað að gera, hefði sjónvarp, bók, tölvuna…? Hvort það væri ekki erfitt að vera langt að heiman upp á að fá ekki mikið af heimsóknum? Nei, manni leiðist ekki í þessu ástandi. Það er brjálað að gera. Sem sjúklingur er maður vakin klukkan sex á morgnana og ef maður sofnar aftur, eru teknar blóðprufur rétt fyrir hálf átta. Þau stungu oftast í vetrarbrautina mína og það varð verra og verra með hverjum deginum. Ég fékk nefnilega hrikalegan marblett í vinstri olnbogabót sem Aldís mín skírði strax „the Galaxy“. Síðan var morgunmatur klukkan átta og eftir það varð dagskráin á við akkorðsvinnu á síldarplani. Hvort sem ég þurfti að gera eitthvað eða bara vera. Það var líka erfitt að vera.

17. dagar!

Leiddist þér virkilega ekki? Fyrir mér voru þetta ekki 17 dagar, þó að það hafi risið hús á gömlum bensínstöðvargrunni í Sönderborg á þessum 17 dögum. Fyrir mér eru þetta þrjú tímabil. Eitt eftir hverja aðgerð. Fyrir mér voru þetta alls ekki 17 dagar. Þegar ég hugsa um þetta sé ég alltaf fyrir mér stórt brauðdeig sem er búið er að deila í þrennt. Minnið er líka gloppótt.

17. dagar!

Það gerðist svo margt. Mér var skellt á breytingarskeiðið á einni nóttu. Þau fylltu mig af vatni aftur og aftur og létu mig vinda úr mér aftur og aftur. Á tímabili fékk ég mikið hrós fyrir að pissa eins og hross. Ég þekkti orðið leiðina séða úr lofti niður í tölvusneiðmyndaskannann og á skurðstofurnar. Ég vandist svæfingu. Ég lærði að hata hefðbundinn danskan mat útaf lífinu. Ég lá mig í gegnum dýnuna í rúminu og endaði á grindinni. Ég fékk ókeypis Guns n’ roses tónleika inn um gluggann minn og lærði að plokka mig blindandi því að Fúsi sá alls ekkert búkonuhárið þó að ég lægi með andlitið beint upp í dagsbirtuna.

Núna!

Það er heimahjúkrunarfræðingsbíll í innkeyrslunni minni um ellefuleytið á hverjum degi. Ég er enn í stuðningssokkum og ég finn ekki mun á sokkunum og sængurverinu á nóttunum. Ef ég fer úr þeim, verður mér kalt. Ég þarf að sprauta mig í lærið í þrjár vikur í viðbót. Ég set rjóma og prótínduft í hollustudrykkina mína. Ég þarf að „taka til“ lyfin mín og má engu gleyma. Ég labba erindislaust upp á aðra hæð í húsinu okkar nokkrum sinnum á dag. Ég er að drukkna í blómum, bæði þeim sem ég fæ og þeim sem ég stel úr garði nágrannans því Jasmínin ilmar svo vel. Og ég á bara tvo vasa sem leka ekki.

Framundan!

Fer á OUH á föstudaginn og á miðvikudaginn og fimmtudaginn í næstu viku. Endurhæfing hjá bænum á mánudaginn. Aabenraa sjúkrahús í byrjun júlí. Aldís mín er að koma. Veikindaleyfi í ca. hálft ár.

Já, það má með sanni segja að aðstæður séu breyttar. Og hér var einungis stiklað á stóru.

Þar til síðar.

 

 

40 Responses to “17 dagar!

 • Kristín
  5 ár ago

  Takk fyrir að skrifa svona hreinskilnislega og einlægt. Vona þetta gangi eins vel og mögulegt er.
  Þekki þig bara héðan af blogginu en finnst þú frábær ????

 • Batakveðjur til þín gott að heyra frá þér. Áfram þú kveðja til Fúsa.

 • Sigríður Þórstína Sigurðardóttir
  5 ár ago

  Skítt með hárin þú verður alltaf fallega Dagný okkar, eða „Dagga dúlla“ eins og móðurbróðir þinn kallar þig <3

 • Guðbjörg Valdórs
  5 ár ago

  Gangi þér vel elsku frænka þú massar þetta!!!

 • Helena
  5 ár ago

  Baráttukveðjur elsku Dagný. Sum verkefni krefjast mikils ??

 • Hrafnhildur
  5 ár ago

  Baráttukveðjur frá Lyngby. Þekki þig bara online, en vá hvað mér er brugðið.

 • Styrkekramar frá Svíþjóð ??

 • Guðrún Benediktsdóttir
  5 ár ago

  Já sumir fá fangið fullt af verkefnum að leysa. Bestu bataóskir til þín og baráttu kveðjur. Þú massa þetta

 • Sigríður Pálmadóttir
  5 ár ago

  Batakveðjur <3

 • Elsku frænka, búin að vera hugsa til þín. Hef fengið fréttir í gegnum mömmu frá pabba þínum. Þú ert alger nagli. Kæmpe Knus frá klakanum elsku frænka. Batakveðjur ?

 • Hrund Gudmundsdottir
  5 ár ago

  Sendi þér batakveðjur og góða strauma.
  Kveðja gamall snap aðdáandi
  xoxoxo

 • María Huld Pétursdóttir
  5 ár ago

  Elsku besta Dagný mín. Takk fyrir að deila þessu með okkur. Ég sendi þér mína bestu batastrauma yfir hafið.
  Kveðja
  María

 • Lovísa Herborg Ragnarsdóttir
  5 ár ago

  Batakveðjur frá gamla góða Íslandi elsku Dagný mín, knús í hús. kv. Lovísa Herborg

 • Steinunn
  5 ár ago

  Jàhà eitthvað hefur þú verið busy. En þú átt eftir að tækla þetta verkefni og verður betri sem ný ? gangi þér vel elsku frænka ??

 • Guðlaug Björnsdóttir
  5 ár ago

  Baráttukveðjur til þín Dagný. Ég fylgdi þér á snappinu og fylgdi þér yfir á Instagram. Sendi þér góða strauma frá Íslandi.

 • Hólmfríður Jóhannsdóttir
  5 ár ago

  Bestu bataóskir til þín kæra Dagný… Og takk fyrir fá að fylgjast með þér ??

 • Ég sem kom sérstaklega hingað inn til að segja að ég saknaði þín á snappinu og til að tékka hvort þú ætlaðir ekki að koma aftur.
  En sé svo að þú ert búin að vera í stóru verkefni og ég er bara í sjokki!
  Baráttukveðjur til þín og gangi þér sem allra best í því verkefni sem er framundan.
  Takk fyrir að deila þessu með okkur og ég sendi góða strauma til Danmerkur.

  • Takk fyrir falleg skilaboð kæra Ester.
   Já það hefur mikið vatn runnið til sjávar síðan ég hætti á snappinu… viltu kannski svar við spurningunni sem þú ætlaðir að spyrja? 😉 Ég veit ekki hvort ég kem aftur. Stundum langar mig, stundum ekki.
   Kær kveðja Dagný

 • Þorgerður Stefánsdóttir
  5 ár ago

  Batakveðjur frá frænku í Esbjerg.

 • Gudrun Jonina Gudjonsdottir
  5 ár ago

  vá hvað ég er glöð að þú skrifir og deilir..Ég er búin að hugsa til þín á hverjum einasta degi síðan ég frétti af þessu RISA..verkefni sem þú fékkst í fangið elsku Dagný…Þú ert nú enginn venjulegur nagli elsku Dagný mín <3…því sterkari einstaklingur sem maður er því stærri verkefni þarf maður að glíma við það er víst bara þannig…það er greinilega verið að sníða úr þér snilling….Þú tæklar þetta eins og allt af mikilli einlægni og dugnaði krafti og þínum einstaka húmor…vonandi fæ ég að kíkja í heimsókn fljótlega …ekki samt sem heimahjúkrunarfræðingur 🙂 …lofa að koma EKKI með blóm BARA SALGÆTI….RISA knús á þig….kv. Jónína

  • Elsku Jónína.
   Vá! heldurðu að ég verði snillingur eftir þetta? Þá er þetta ok 😉 Ég vil alveg vera snillingur!
   Komdu endilega í heimsókn… hlakka mikið til <3

 • Þuríður Guðrún Aradóttir
  5 ár ago

  Sæl kæra Dagný

  Hef hugsað mikið til þín þar sem ég fylgdist með snappinu þínu sem hætti svo skyndilega. Kom hingað inn núna og ætlaði að pota í þig hvort þú værir alveg hætt.
  Varð mjög brugðið þegar ég las um stóra verkefnið þitt??

  Sérstök tilfinning kæra Dagný að lesa um sjúkravist þína í Odense, ókeypis tónleikana. Tengdasonur minn fór á þessa tónleika. Þau búa þar og ég var allan júní í Odense.
  Hugsa til þess að þú hafir verið þar að kljást við svona stórt verkefni?
  Já lífið er eintóm verkefni bara mismunandi hvað er lagt á okkur.
  Þetta fer vel?? Það hjálpar þér griðarlega mikið að vera svona jákvæð. Ert ótrúlega lífsglöð, einlæg, algjör nagli og mikill prakkari, púki í þér? Snöppin voru þannig?

  Hjartans þakkir að deila þessu með okkur??

  Vertu dugleg að reyna skrifa þar sem þú opnar þig meira þannig ( að þinni sögn )
  Svo gott að láta tilfinningarnar flæða??
  Gangi þér og þinni fjölskyldu sem allra best.
  Hugsa til þín og hef þig í bænum mínum?
  Kærleiksknús af klakanum? Þurý

  • Sæl kæra Þurý systir Unnar…
   Takk kærlega fyrir æðisleg skilaboð <3 Já við tengdasonur þinn höfum verið þarna sitthvoru megin við sviðið þegar Guns n roses spiluðu 😉
   Jú ég hætti á snappinu í nóvember og hef ekki byrjað aftur. Samt gaman að fá hrós svona löngu seinna, greinilega ekki gleymd.
   Ég mun halda áfram að skrifa hérna inni, finnst það alltaf best.
   Kær kveðja
   Dagný

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *