Á biðstofunni.

Biðstofur. Uppáhald okkar allra. Við höfum setið á þeim nokkrum síðastliðna tvo mánuði. Á flestum eru fáir að bíða og ekkert skemmtilegt að gerast og biðin örstutt. En á kvensjúkdómagöngudeildinni á OUH eru öðruvísi bollur í súpunni (er þetta kannski danskt máltæki?) Sú biðstofa er oftast full af konum og fylgifiskum sem oftast eru karlmenn og þá líklega makar. Flestir eru á efri árum og því meirihlutinn gráhærður með gleraugu. Ég hef oft verið langyngst. Biðin og setan er oft löng, því margar þurfa að tala við mismundandi fagfólk (hjúkrunarfræðing, skurðlækni, svæfingarlækni, lyfjafræðing og láta taka blóðprufu) og því er rennirí á báðum kynjum á klósettið. Og það er skondið að fylgjast með þegar karlmennirnir koma til baka af klósettinu því mjög oft stoppa þeir í dyrunum, horfa yfir hópinn og leita að konunni sinni. Ég skil það vel, þær eru allar eins, séðar úr smá fjarlægð. Á þessari biðstofu er oft setið þröngt. Þetta er líka sú biðstofa þar sem við höfum beðið mest. Og takmarkað hægt að gera sér til dundurs. Það tekur sjö mínútur að renna í gegnum það sem er að gerast í símanum og ég var fljót að blaða í gegnum öll blöðin á biðstofunni. Það var einmitt í einu þeirra sem ég fékk hugmyndina af að safna steinum með gati. Í blaði um innan- og utanhústísku. Ég fann einn stein í dag. Einn á þremur dögum… Þessi söfnun á eftir að ganga hægt. Á einhver í Sönderborg steinbor til að lána mér?

Allavega, þegar bæði síminn og blöðin hafa verið skoðuð, þá er næst á dagskrá að skoða og ekki síst hlusta á fólkið í kring. Samt eins laumulega og hægt er. Síðast þegar við vorum þarna, var heitt úti og því hitamolla inni. Glugginn var lokaður og við hann sat kona í stærra lagi á þverveginn. Eiginlega mjög stór á þverveginn. Sem skiptir ekki máli að öllu jöfnu en í þessu samhengi gerir það það. Inn á biðstofuna kemur kona, sest og tekur síðan andköf og segir að það sé mjög heitt hérna. Um leið og hún stendur aftur upp, spyr hún yfir hópinn hvort það sé ekki í lagi að opna glugga. Allir muldra jú jú og já já. Síðan beinir hún orðum sínum að konunni við gluggann og segir: „það kemur kannski trekkur á þig?“

Þá hreytti sú þvervaxna út úr sér: „Já, það mun gera það og ég verð víst bara að láta það yfir mig ganga!“

Hin hikaði en lét samt ekki hreytinginn stoppa sig og benti henni hálfbrosandi á að það væri laus stóll fjær glugganum.

Fórnarlambið reis upp úr stólnum með þjósti, rigsaði yfir að hinum stólnum og hlammaði sér svona svakalega niður á hann að hann skall í veggnum svo að allt nötraði og konunum tveimur sitthvoru megin við, dauðbrá. ALLIR á biðstofunni hrukku í kút og horfðu á hana. Sú var fúl. Eða ein af þeim sem er með ofnæmi fyrir trekki.

En í fyrsta skipti sem við vorum að bíða á þessari biðstofu, en það var 29. maí, gerðist annað athyglisverðara.

Biðstofan er aflöng og eftir henni miðri er langt borð með öllum blöðunum á. Við sátum nálægt endanum. Ská á móti okkur sat ein af þessum gráhærðu og skoðaði nýjustu tískublað, nánar tiltekið ELLE ásamt því að fylgjast gaumgæfilega með öllu í kringum sig. Ein af þeim sem getur gert margt í einu eða múltitaskari eins og maður segir stundum. Fljótlega kom inn eldri maður með ævagamla konu í hjólastól. Ef hún var ekki að nálgast hundraðasta aldursárið, má ég hundur heita. Það var engan veginn hægt að átta sig á hvort sú ævagamla hefði náð sér í einn ungan eða hvort þetta væri sonur hennar, frændi eða stuðningsfulltrúi einhversskonar. Allavega, maðurinn lagði hjólastólnum við endan á borðinu og settist svo við hlið þeirrar sem las nýjustu tískublaðið.

Það leið varla mínúta þangað til múltítaskarinn býður þeirri gömlu blað að lesa í. Sú gamla sagði: „Ha?“

Múltitaskarinn: „Ertu ekki með heyrnatæki?“

Gamla: „Ha?“

Múltitaskarinn snéri sér eldsnöggt og forviða að manninum: „Er hún ekki með heyrnatæki?“

Maðurinn sagði nei og virtist verulega upptekinn í símanum, svona eins og eldra fólk oft er.

Múltitaskarinn hélt áfram að skoða blaðið til að fá faglega vitneskju um hvernig skó, kjól og veski hún ætti að kaupa sér fyrir sumarið. Og hvaða naglalakkslitur væri inn og hvursslags klipping væri smart. Ég hefði nú getað sparað henni þessar blaðaflettingar og sagt henni að flott tískumerki eins og MAI SVANHVIT, Ganni og Stine Goya blinka við hliðina á Coloplast og Christine Headwear sem eru algjörlega málið þetta sumarið. En á meðan hún sogaði þessar upplýsingar upp úr blaðinu til sín, gretti hún sig og iðaði öll í stólnum. Ég hugsaði með mér að hún væri ekki búin með þetta heyrnatækjamál. Ég hnippti í Fúsa og mælti með að hann fylgdist með. Þetta gat orðið spennandi svona í biðinni.

Hún stóðst ekki mátið, snéri sér aftur að manninum og spurði hátt og snjallt: „Afhverju?“

Maðurinn leit hissa á hana og svaraði: „Afþví að hún vill það ekki.“

Múltitaskarinn fór að fletta blaðinu hraðar og hváði: „Ha? Afhverju ekki?“

Maðurinn yppti öxlunum og svaraði þurrlega: „Ég veit það ekki, kannski finnst henni hún vera orðin of gömul“ og hélt áfram í símanum… hægri, hægri, hægri, vinstri, hægri, vinstri.

Múltitaskarinn snéri sér að þeirri gömlu og spurði hana hrópandi: „AFHVERJU VILTU EKKI VERA MEÐ HEYRNATÆKI?“

Gamla með afar veiklulegri röddu: „Ég vil bara ekki fá mér heyrnatæki, það er of seint.“

Múltitaskarinn: „ÞAÐ ER ALDREI OF SEINT.“

Gamla: „Ég þarf þau ekki…“

Múltitaskarinn: „EN ÞÚ HEYRIR ÍLLA.“

Gamla: „Nei, ég heyri vel ef fólk talar hátt.“

Múltitaskarinn: „HVAÐA FÓLK?“

Þarna var ég farin að hlæja inn í mér… Og alltaf var maðurinn jafn upptekinn í símanum, pottþétt á Tinder.

Sú gamla: „Fjölskyldan mín.“

Múltitaskarinn: „EN EF ÞÚ FÆRÐ ÞÉR HEYRNATÆKI ÞÁ ÞARF FJÖSLKYLDAN ÞÍN EKKI AÐ TALA HÁTT.“

Gamla: „Ooo þau lifa það alveg af, ég dey hvort eð er bráðum.“

Þá þangaði loksins spurningaflóðið, fékk sér nýtt ELLE blað og komst að því að í sumar eru engar reglur í munstrum né litum, allt er leyfilegt innan tískunnar.

6 Responses to “Á biðstofunni.

Trackbacks & Pings

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *