Lyfjameðferð lokið.

Í gær, 6. nóvember, fór ég í síðustu lyfjagjöfina. Ég fékk fullan skammt því ég virðist þola lyfin vel eftir því sem þau á deildinni segja. Ég veit sjálf ekki hvort ég þoli lyfin vel eða illa því að ég hef ekkert til að miða við, af því að ég veit ekki hvernig þau fara í aðra. Eitt er að tala, annað er að upplifa. Í krabbameinsleikfiminni eiga hin það til að barma sér vegna þreytu, svima, munnþurrks ásamt mörgu öðru og þó að ég segi ekki orð þá er ekki þar með sagt að ég finni ekki líka fyrir þreytu. Eða öfugt, ég barma mér og hin ekki. Reyndar geri ég það ekki en segjum samt svo. Eftir síðustu lyfjagjöf var ég búin að ákveða að ýkja aukaverkanirnar þegar hringt yrði í mig frá OUH til að athuga hvernig lyfin fóru í mig. Það er hringt og athugað til að finna út hvort ég fái fullan skammt eða hvort þurfi að minnka hann og þar af leiðandi minni aukaverkanir. Ég nennti þessu ekki enn einu sinni. Þ.e.a.s. nennti ekki aukaverkunum. En svo þegar hjúkrunarfræðingurinn hringdi, þá ýkti ég ekki neitt því ég hugsaði með mér að þetta væri í síðasta skipti og að ég myndi lifa þetta af. Þetta er bara tæplega vika … Vika með líkamann fullan af eitri og hver fruma virðist vera að springa.

Vinkona mín var búin að segja mér að verðlauna sjálfa mig með –búin í lyfjameðferð- gjöf þegar þetta væri yfirstaðið. Eða halda upp á það með einhverjum hætti. Í gær var ég þvoglumælt og veltandi um eins og dauðadrukkin kona á fimmtugsaldri, þannig að ég fór í göngutúr með Vask til að „láta renna af mér“. Og það rann af mér en ég hélt ekkert upp á að vera búin. Ég bjóst líka við að þetta væri æðisleg tilfinning; að vera búin! Jú vissulega er hún ágæt en langt frá að vera æðisleg. Eiginlega bara svona la la. Og skrítin. Og blendin.
Í dag, eftir fjögurratíma krabbameinsleikfimi með tilheyrandi fræðslu og brauðáti, nennti ég ómögulega niður í bæ til að kaupa mér eitthvað til að verðlauna sjálfa mig, svo að við Vaskur fórum bara á ströndina.
Ég ætla samt að verðlauna mig því að þegar ég hugsa til baka og rifja upp, þá er ekki nóg með að ég hafi ætlað að ýkja aukaverkanirnar um daginn til að fá minni skammt, heldur hef ég tvisvar ætlað að hætta í lyfjameðferð og verið töluð ofan af því. Reyndar ekki útaf aukaverkununum, heldur út af öllu hinu sem mig langaði bara til að yrði lagað nánast á stundinni. Það koma dagar þar sem mér finnst ofboðslega erfitt að vera með tvo nýrnarleggi, einn þvaglegg í gegnum magann og einn stóma. Sem sagt þrjá þvagpoka á lærunum og einn stóma. Sem sagt fjóra poka í allt!
Ég er búin að ákveða að verðlaunin verði japanskt andlitsnudd og hreinsun úti í sveit því ég veit að ég stend mig djöfull vel.

Aukaverkanirnar bönkuðu upp á í dag og ég hleypti þeim inn, gat ekki annað. Þær verða síðan verri á morgun, hinn og hinn … Þær rústa samt ekki lífinu mínu. Það er hægt að láta sér líða bærilega þrátt fyrir þær. Gott dæmi er í dag þegar ég sat úti í garði með rauðkálsdjús í glasi og naut sólarinnar og horfði á Gingkó Bilópa tréð mitt verða gulara og gulara. Eða þegar ég fór í sturtu og söng allan tímann. Það er nefnilega ekki séns að hugsa um beinverki og aðra eiturverki á meðan sungið er. Eða þegar ég fór niður á strönd með Vask og ég horfði á hann busla í sjónum á meðan sólin gyllti hafið. Þá er ekki heldur hægt að hugsa um aukaverkanir. Summa summarum; mín aðferð er að hunsa aukaverkanirnar eins og hægt er. Gera eitthvað annað og hugsa um eitthvað annað sem að veitir mér ánægju – þá verður allt í allra besta lagi.

Ferlið mitt er kaflaskipt. Núna var 2. kaflanum að ljúka. Og þá tekur sá þriðji við. Það eru held ég 4 eða 5 kaflar í allt. Þessu lýkur væntanlega og vonandi þegar ég fer aftur að vinna. Ég hef samt ekki hugmynd um hvenær ég fer að vinna. Einu sinni, í upphafi 2. kafla, var talað um strax eftir áramót. En það var þá.

Þegar ég kom heim frá OUH í gær, var Fúsi búinn að baka vöfflur og leggja borgfirska eystri bláberjasultu á borðið. Á meðan ég bókstaflega hámaði í mig vöfflurnar, sagði hann: „Hey ég keypti búin í lyfjameðferð gjöf handa þér.“
Ég varð náttúrulega rosalega glöð og spennt þangað til hann rétti mér sjampóbrúsa… Einmitt, sjampó í allt hárið…

Það var þá eða augnabliki seinna sem ég fór út með Vask.

 

Ljósmynd: Smári Sverrir Smárason

 

11 Responses to “Lyfjameðferð lokið.

  • Ólafía Herborg Jóhannsdóttir
    5 ár ago

    Stolt af þér Dagný mín, alveg eins og Ásta frænka amma þín hefði verið

  • Steinunn Arna
    5 ár ago

    Þú ert snillingur, áður en maður veit af les maður um 5. kaflann ??

  • Steinunn
    5 ár ago

    spurningamerkin voru semsagt einhver svona karl í fíling 🙂

  • Hólmfríður Jóhannsdóttir
    5 ár ago

    Æjjj þú ert svo yndisleg… innilega til hamingju að vera búin með þennan kafla frænka mín ? ( nýbúin að komast að því að við erum meira skyldar en ég hélt ?) elska pistlana þína. Þú átt eftir að massa þetta ?

  • Arna Hafsteinsdóttir
    5 ár ago

    Elsku Dagný mín þú ert alveg ótrúleg hvernig þú kemst í gegnum þetta allt.
    Maður er bara orðlaus, og þessir pistlar þínir þeir segja bara hvað þú ert sterk manneskja?og alltaf er húmorinn til staðar hjá þér.
    Knús til þín mín kæra????

  • Pistlarnir þinir eeu æði, fylgst með þér af og til, humorinn kemur þér langa leið. GO GIRL??

  • Ég dáist af styrk þínum Dagný. Þú ert til fyrirmyndar. Til hamingju með þennan áfanga. ?

  • Þórdís Þórhallsdóttir
    5 ár ago

    til hamingju með þennan áfanga, gangi þér vel í framhaldinu

  • Svava Bjarnadóttir
    5 ár ago

    Við sem fylgjumst með þér trúum því að þú farir að vinna sem allra fyrst. Það er líka hægt að dást að Fúsa fyrir að vera með húmorinn í lagi og ekki langt undan þó svo að þetta sé nú ekkert auðvelt hjá ykkur. Áfram þið öll og njótið eins og hægt er
    Risa faðmlag frá klakanum <3

  • Ásdís frænka
    5 ár ago

    Til hamingju með lokaafangann, þú ert kjarnakelling eins og von var á, áfram Dagný, pistlarnir þínir eru æði

  • Sæl Dagný.
    Fylgdist með þér á Snappinu…var að sjá þig hér eftir langan tíma og búin að lesa bloggfærslur síðustu mánuða í dag og í gær. Hef bæði hlegið upphátt og grátið en þú ert yndisleg og frábær penni.
    Fór strax að elska Vask og fjölskyldu þegar ég sá þig fyrst á snappinu.
    Gangi þér vel og frábært að öðrum kafla sé lokið.
    Áfram þú. Kærleiks-og batakveðjur og rafrænt knús til þín og þinna.
    Eva

Skildu eftir svar við Svava Bjarnadóttir Hætta við svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *