Allt svart

Kæra RÚV.

Ég næ vart andanum. Ég ríf mig úr að ofan, samt er ekki auðveldara að anda. Brjóstkassinn er stífur eins og stál og fullur af grjóti. Hálsinn þurr og kokið lokað. Slímhimnan í augunum er eins og sandpappír númer 250 og ég heyri í mínum eiginn hjartslætti. Slátturinn er yfirgnæfandi og alltof hraður. Ef það hægist ekki fljótlega á honum, gefst hjartað upp og stoppar. Þá þarf Fúsi að hnoða í mig lífi. Mig langar til að leggjast í gólfið, hnipra mig saman og standa aldrei upp aftur. Bara hverfa á niður milli gólffjalanna, ofan í tugi ára gamlan skítinn sem er þar. Hann er þurr. Mig langar til að breytast í rykmaur sem hugsar aðeins um að borða ryk og ekki neitt annað.
Komandi vikur eru yfirþyrmandi og ég sé ekki fram á að ég komist í gegnum þær. Mig langar til að gráta og grýta öllum fjarstýringunum á heimilinu í sjónvarpið svo að það springi í loft upp. Eða hringja í ykkur og öskra í símann að þið getið ekki leyft ykkur að seinka fréttatímanum útaf einhverjum handboltaleik! Þetta er keðjuverkandi… ef fréttatímanum er seinkað, seinkast öll dagskráin og Ófærð líka. Það eru takmörk fyrir því hversu lengi sé ætlast til að ég vaki. Og allt kvöldsvæfa fólkið á Íslandi. Ég sem hélt að það RÚV væri með tvær stöðvar, afhverju er ekki hægt að hafa þetta á „auka“ stöðinni? Það er svo mikið af fólki sem veit ekki hvort markið tilheyrir liðinu til hægri á vellinum. Þar á meðal ég.
Þið (á RÚV) eruð alltaf að gera þetta – að breyta dagskránni fyrir einhverja boltaleiki. Það er ekki nema hálft ár síðan síðast og ég gleymi því aldrei. Ég var nýkomin heim af sjúkrahúsi og hlakkaði til að liggja bara í sófanum og horfa á fréttatímann og svo á Kastljós. En nei, allt var á skjön. Þetta braut mig alveg.

Og nú ætla þið að endurtaka leikinn, brjóta mig í þúsund mola svo að erfitt verður að líma mig saman aftur.
Í alvörunni RÚV?

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *