Það sem á dagana drífur / Hrossabjúgun

Í dag tókst mér að hella nýlagaða hádegiskaffinu mínu yfir borðstofuborðið, utan í tvær góðar bækur, önnur eftir Hella Joof, hin eftir Kim Leine, undir tölvuna og niður á gólf. Þar fór gott kaffi ofan í raufarnar á trégólfinu og undir það. Litlu munaði að það hefði farið í hundskjaft þar sem Vaskur spratt upp, fór að pollinum og íhugaði að lepja það upp en það hefur líklega verið of heitt og ristað fyrir hans smekk.
Rétt áður en þetta gerðist var ég að virða fyrir mér nágrannann þaðan sem ég sat því ég sé út um eldhúsgluggann minn og inn í stofuna hans. Hann stóð fyrir framan bókahilluna og skoðaði bækurnar sínar. Bókahillan hans minnir á okkar, það er að segja, þær fylla báðar heilan vegg nema hvað í okkar er hurð, í hans er sjónvarp. Ég veit því miður ekki hvað hans bókahilla inniheldur en grunar að þar séu margar bækur á þýsku, þess vegna hef ég ekki sóst í hilluna hans. Hann myndi heldur ekki hleypa mér inn held ég, þetta er sá sami og hefur verið svolítið stúrinn út í mig eftir að ég fagnaði fertugsafmælinu mínu fram eftir morgni. Reyndar held ég að hann sé að mildast gagnvart mér, hann fór að brosa til mín í haust þegar við mættumst. Kannski brosti hann bara því að hann þekkti mig ekki vegna hárleysisins, hélt að ég væri frænka mín.

Hann stóð sem sagt og virti fyrir sér bækurnar, tók loks eina, las aftan á hana, settist niður í sófann og snéri bakinu í gluggann sem vísar til suðurs og lét sólina verma á sér axlirnar. Kannski er hann með vöðvabólgu. Held samt ekki því að göngulagið bendir ekki til þess þar sem hann er með mjög afslappað göngulag, ekkert ólíkt göngulaginu hans Skarphéðins Þórissonar – alltaf með aðra hendi í vasanum á flauelsbuxunum. Svoleiðis göngulög bera ekki merki um vöðvabólgu. Kannski misminnir mig með hendina á Skarphéðni en Gerald er allavega með sína í vasanum.
Þetta er nágranninn sem er tónlistarkennari, ég er nokkuð viss um að ég hef sagt frá honum áður, og auk þess að kenna, spilar hann mikið heima fyrir, mest á saxófón en líka á gítar og eitthvað fleira. Saxófónninn er í uppáhaldi hjá mér og þegar það er þannig veður úti að allir heimsins gluggar eru opnir, berst hljóðið svo vel inn til okkar. En núna eru flestir gluggar lokaðir en ég heyri stundum í honum á kvöldin þegar ég fer út með ruslið og þá stoppa ég oft og hími við limgerðið til að hlusta á hann. Það er oft ískalt því fæstir klæða sig vel til að fara út með ruslið. Ég hef oft íhugað að setja miða í póstkassann hans: Guten Tag Gerald, þarftu ekki að æfa þig meira á saxófóninn, það er í lagi mín vegna og opna um leið betur gluggana hjá þér? Æ nei, hann myndi misskilja þetta og taka þessu eins og hann sé ekki nógu góður á hljóðfærið og velta fyrir sér hvernig ég vissi að það að sé þungt loft heima hjá honum. Kannski ætti ég heldur að skrifa: Guten Tag liebe Gerald, viltu vera svo góður að muna að opna gluggann upp á gátt þegar þú spilar á saxófóninn, því það hríslast alltaf afar góð tilfinning niður eftir bakinu á mér og ég fæ smá tár í augun, því mér finnst þetta fallegasta hljóðið í götunni og líður eins og ég búi á besta stað í heimi þegar þú spilar. Svo plííís. Og já, mundu að opna allt upp á gátt svo að ég heyri betur. Líklega væri þessi orðsending áhrifameiri.

En áður en ég virti fyrir mér nágrannann og áður en ég hellti niður hádegiskaffinu, hljóp ég fullri ferð á brókinni út um þvottahúsdyrnar með hundinn á hælunum og handklæði um hárið (?), því að ég hélt að það væri komin mígandi rigning. Ég sá risastóra og þunga vatnsdropa skella á glugganum í gestaherberginu og brá íllilega vegna þess að skömmu áður var glaða sólskin og ég hafði hengt sex handklæði út á snúru. Í andlegu áfallinu yfir rigningunni reykspólaði ég nánast á inniskónum á stéttinni á leiðinni út á snúru, á naríunum með tilheyrandi udstyr tengt við líkamann og beint í fangið á sólskininu sem var þá þarna þrátt fyrir dropana sem lent höfðu á rúðunni. Hver þremillinn, hvaða rugl var á veðrinu? En þá rak Vaskur upp bofs og ég snéri mér við og sá hvar Herra Gluggi (gluggaþvottamaðurinn) stóð og þreif gluggana á vesturhlið hússins. Handklæðin fengu að hanga og ég hljóp jafnhratt inn aftur.

Annars leið dagurinn bara svona eins og dagarnir líða, ég las nokkra kafla í núverandi bók, prjónaði nokkrar umferðar í tuskunni, hreyfði mig í tilefni dagsins og sótti síðan bjúgu niður í frysti fyrir Fúsa. Hann ætlaði að hafa bjúgu í kvöldmatinn fyrir sig og hundinn. Ég ætlaði að borða afganga frá því í gær. Ég greindi frá bjúgnaástandinu á heimilinu í færslu í desember (hér) og ýkti víst örlítið, ég hef ekki alveg bannað Fúsa að sjóða bjúgu inni í húsi, allavega ekki eftir að ég greindist með krabbamein og fór í lyfjameðferð, en þá verður allt lífið aðeins væmnara og ég fann að ég varð mikið eftirgefanlegri í fjöldamörgum aðstæðum. Fólk tók tillit til mín, ég sýndi tillit á móti. Allir voru vinir. Stundum leið mér eins og ég myndi mögulega ekki upplifa að verða árinu eldri og því var óþarfi að stofna til vesenis og vandræða, tíminn var dýrmætur og allra best að segja bara já og amen – sjóddu bara þín bjúgu í mínu eldhúsi. Svo að Fúsi hefur fengið að sjóða eitt og eitt bjúga innanhúss, þó að mér finnist ekkert sjálfsagðara en að hann sjóði þennan íslenska ítroðning á grillinu út undir húsvegg í réttri vindátt og íklæddur úlpu.


Nú þegar það er sagt, eða skrifað, finn ég að það er að koma öðruvísi hljóð í strokkinn. Eftir alla þessa hreyfingu undanfarna mánuði og sætu kartöfluát (sætar kartöflur eiga að vera allra meina bót segja þeir,) er ég orðin stálslegin. Ég finn að ég er orðin sjálfstæð og stjórnsöm aftur, svona eins og ég á mér að vera. Því segi ég sem húsfreyja og heimilishaldari þessum andskotans sperðlum (sjá ljósmynd) stríð á hendur og læt mína potta ekki í té fyrir þesskonar eldamennsku. Ef vinir, vandamenn og velunnarar Fúsa hafa minnsta grun um að hann langi í þetta stórfurðulega, íllalyktandi og fituklumpakjötmeti, þá er það eina í stöðunni að bjóða honum í mat. Hingað inn koma allavega ekki fleiri gróf hrossabjúg á meðan ég er með fúlle femm.

Til gamans má geta að klukkan 21:43, næstum þremur tímum eftir að færslan birtist, kveikti ég á RÚV og var þá rithöfurinn Kim Leine á skjánum en hann var gestur í þætti Egils Helgasonar. Þetta er ósköp svipað atvik og gerðist um daginn í þar síðustu færslu um prjónaskapinn.

6 Responses to “Það sem á dagana drífur / Hrossabjúgun

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *