Þrennt sem veitti þakklætistilfinningu í dag.

Þegar ég var klínískur kennari á Gjörinu gafst stundum ekki tími til að setjast niður með nemenum í lok vaktarinnar til að fara yfir daginn. Þá notaðist ég oft við þriggja atriðaregluna í staðinn en hún gekk út á það að nemarnir áttu að nefna þrjú atriði tengdum þeim sjálfum og þeirra vinnu sem þeir voru ánægðir með þann daginn. Þessi atriði voru ekkert rædd frekar, heldur var þetta bara það síðasta sem nemarnir gerðu áður en þeir fóru heim.

Á núvitundarnámskeiðinu sem ég fór á í vetur á vegum Krabbameinsfélagsins var okkur bent á, sérstaklega þegar himinninn er þungbúinn, að hugsa um þrennt jákvætt. Það getur t.d. verið eitthvað þrennt fallegt sem að ég sá í dag, eða þrennt skemmtilegt sem að ég upplifði í dag, eða þrennt sem að ég er þakklát fyrir í dag, o.s.frv., og viti menn, þetta virkar. Það virkar að einblína á það jákvæða og jafnvel færa það í orð, í stað þess að láta það fljóta þokukennt fram hjá. Það virkar á þann hátt að meðvitundin um það jákvæða verður sterkari og sýnilegri.

Í gær sá ég þrennt fallegt; fimm blesandarunga, mig í speglinum í nýjum kjól og gamlar myndir af Aldísi og Svölu sem voru teknar í skólamyndatöku þegar þær voru mjög ungar.

Í dag er ég þakklát fyrir:

  1. hvursu frábærri heimilislæknastöð ég er hjá og hvursu frábær „aðal“ læknirinn minn er og ég met hana ótrúlega mikils. Ég er líka þakklát vegna þess að ég var sett í hóp þeirra sem á að fá tíma mjög fljótt; samdægurs ef ég vil þó að það sé ekki aðkallandi vandamál.
  2. hvursu ofboðslega þægilegt sogæðanudd er. Ég fer tvisvar til þrisvar í viku til sjúkraþjálfara sem vefur á mér löppina frá tám og upp í nára og þessi vafningur er mjög óþægilegur og að vera með sogæðabólgu er mjög pirrandi en áður en hún gerir það, nuddar hún í hálftíma. Ég á mögulega eftir að andast úr velllíðan í þessu nuddi…
  3. plötuna Milda hjartað. Áðan þegar ég var að finna þrjú atriði sem veita mér þakklætistilfinningu í dag, datt mér eiginlega fyrst í hug brauð vikunnar úr bakaríinu en það er gróft speltbrauð, alveg rosalega bragðgott. En svo póstaði Jónas Sig. laginu Að lokum á Facebook og skrifaði eftirfarandi texta við færsluna:

„Sum lög fæðast sterkari en önnur. Ég man vel þegar lagið „Hafið er svart“ fæddist þá langaði mig að vinna með myrkrið innra með mönnum og hvernig það getur gert mann einangraðan og vanmáttugan gagnvart tilverunni. Þá fann ég strax eftir að lagið kom saman að það hafði einhvern galdur í sér varðandi þessa tilfinningu. Svipaða tilfinningu fann ég þegar þetta lag fæddist. Að lokum. Mig langaði í raun að fjalla um dauðann sem er ekki vinsælasta umfjöllunarefnið í dægurtónlist enda frekar óþægilegur hluti tilverunnar sem við reynum oft að ýta frá okkur. Mig langaði að reyna að fanga þá tilfinningu að kannski væri dauðinn ekki þessi endanlegu, ótrúlega sorglegu endalok sem við upplifum heldur hugsanlega umbreyting yfir í eitthvað nýtt. Eins og byrjun á nýjum kafla. Falleg heimkoma jafnvel. Það er kjarninn í laginu og mér líður eins og okkur hafi tekist að koma tilfinningunni í lagið, einhverskonar von. Ég fyllist allavega þeirri tilfinningu þegar ég hlusta á það í dag.“

Ég sjálf spái stundum í dauðann og fyrir mér er til tvenns konar dauði, gróft sagt. Annarsvegar er það hinn skyndilegi dauði, sem getur komið algjörlega aftan að manni, eins og strætó sem myndi strauja mig niður úti á miðri götu. Svoleiðis þætti mér spælandi að deyja. Hinsvegar er það dauðinn sem kemur í kjölfar þreytu og eða þjáninga. Svoleiðis vil ég deyja, hægt og skipulega. Ég vil þrá dauðann vegna þess að hann væri langbesta lausnin þegar sá tími kæmi. Bæði kærkominn og frelsandi. Eins og ótal margt gamalt eða veikt fólk gerir af því að það nennir hreinlega ekki að lifa lengur, ekki vegna þess að það er endilega þunglynt, heldur þreytt eða þjakað. Mínir nánustu myndu segja: „loksins fékk hún frið“ og ganga á vissan hátt sáttir frá dánarbeðinu. Ég vil geta undirbúið minn lokasprett og farið yfir móðuna miklu tiltölulega örugg og sátt. Ég ímynda mér að hinum meginn við móðuna sé staður svipuðum Nangijala (Úr bókinni Bróðir minn Ljónshjarta) sem er sá fegursti, bæði sjón- og hugrænt, sem að nokkur lífvera hefur upplifað.

Platan Milda hjartað sem rataði inn á þakklætislista dagsins er núna á þriðja snúningi í dag. Ég er þakklát fyrir að það sé til fólk, listafólk, sem að semur tónlist, skrifar bækur, býr til kvikmyndir, leikrit og listaverk sem veitir öðrum ómælda gleði.

 

One Response to “Þrennt sem veitti þakklætistilfinningu í dag.

  • Svava Bjarnadóttir
    5 ár ago

    Takk fyrir ábendinguna, alltaf þörf á svona sólskinsmolum. Ég reyni alltaf að þakka fyrir það góða á hverju kvöldi og bara þó ekki nema eitthvað eitt sem ég get látið mig hlakka til að gera að morgni. Þá líður manni bara betur <3
    Bestu kveðjur í Sólarborgina

Skildu eftir svar við Svava Bjarnadóttir Hætta við svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *