Það sem týnist, finnst fyrir rest.

Þann 27. desember týndi ég peningaveskinu mínu. Í því var gula og bláa kortið, greiðslukortið, ökuskírteinið, kaffikortið, 200 norskar krónur, 170 danskar krónur og 47 evrur. Eða ég týndi því ekkert, ég bara fann það ekki þegar ég ætlaði að nota það daginn eftir. En það skipti engu, ég var á hjóli og borgaði bara með símanum. 29. desember lét ég Fúsa keyra þegar við fórum í kaupfélagið og hann borgaði. Þann þrítugasta þegar við fórum til Tønder, þurfti ég heldur ekki á því að halda, því að Fúsi keyrði bara og mamma borgaði. Á gamlársdag þurftum við ekki í búð og planað var að Fúsi keyrði í gamlárspartýið og heim úr því líka. Eins og fram hefur komið, þurfti ég ekkert á veskinu að halda og var því alveg róleg en kíkti samt eftir því endrum og eins, aðallega því að mér þykir vænt um sjálft veskið sem er einn af þessum hlutum sem teknir hafa verið upp úr skúffunni og endurnýttir. Svala átti veskið og Aldís notaði það þegar þær voru ungir unglingar.

Fúsi var aftur á móti ekki rólegur né aðrir í kringum mig. Fúsi ofandaði reglulega eins og manneskja sem hlaupið hefur tugi kílómetra á nó tæm, mamma leitaði og leitaði og vinkona mín reyndi að hræða mig með sannri sögu þegar hún fór veskislaus í skíðaferðalag til Austurríkis. Það var víst ekki auðveldasta ferð sem hún hefur farið í, skiljanlega, enda myndi ég ekki treysta mér mikið lengra en til Tønder án veskisins. (Tønder er lítill bær vestan meginn á Suður Jótlandi, við erum austan meginn.)
En ég var ekki að fara neitt langt og vissi innst inni að veskið væri einhversstaðar. Bara hvar?

Á gamlársdag, þegar við vorum að fara í skóginn með Vask, fannst veskið í einu hólfinu í hurðinni í bílnum. Ég hafði sett það þar og eins og ég sagði, ég vissi alltaf að það væri einhversstaðar. Það er víst best að taka það fram að Fúsi fann það, annars fæ ég að heyra það ef hann les þetta. Og það besta var, að hann hætti að ofanda.

 

Þarna sést peningaveskið mitt og lyklakippan ofan á greniskreytingu í innkaupakerrunni minni. 

Á mánudagsmorguninn síðasta, þegar ég ætlaði að grípa lyklana mína klukkan 06:35 og hjóla í vinnuna, greip ég í tómt. Ég leitaði í vösunum á nærhangandi jökkum og í skúffunum í forstofunni. Ég fann hvorki tangur né tetur af lyklunum og Fúsi byrjaði að ofanda því að húslyklarnir eru á sömu kippu.
„Það líður yfir mig einn daginn,“ sagði hann og koltvísýringsmagnið í blóðinu hans fór snarminnkandi. Ég sótti brúna bréfpokann sem er alltaf tiltækur þegar ég tíni hlutum sem Fúsa finnst mikilvægir og lét hann anda í hann. Koltvísýringsmagnið hækkaði jafnt og þétt.
Fúsi fór svo út með Vask í hina daglegu morgungöngu og ég hélt leitinni áfram. Fannst ómögulegt að vera án hjólalyklanna yfir daginn. En leitin bar ekki árangur og ég hjólaði því af stað (ég læsi ekki hjólinu heima) í súldarsudda, orðin alltof sein í vinnuna. Ég bagsaði síðan hjólinu inn á sjúkrahúsið, niður í kjallarann og laumaði því inn á milli sjúkrahúshjólanna því ekki ætlaði ég að láta stela því ólæstu fyrir utan. Þetta var held ég í þriðja eða fjórða skiptið sem ég fer með hjólið niður í kjallara á sjúkrahúsinu síðan ég byrjaði í nóvember, því að ég finn ekki lyklana eða hef tekið vitlausa lykla með mér.
Við Fúsi komum svo heim á sama tíma á mánudaginn og þannig komst ég inn heima hjá mér. Sem segir að það er ekkert alltaf nauðsynlegt að vera með lykla. Fúsi er reyndar á öðru máli og hefur ekki nokkra trú á að slíkt bara reddist og byrjaði því að ofanda enn einu sinni. Ég sagði: „Fúsi, anda inn, anda út … á eðlilegum hraða en ekki eins og rakki í nálægð við tík á lóðaríi … “ og strauk honum blítt upp og niður bakið. „Þú virkar á mig eins og tík á lóðaríi, klædd í brók, þegar þú tínir öllum sköpuðum hlut með nokkurra daga millibili allt árið um kring,“ svaraði hann öskugrár í framan.
Ég horfði annað slagið eftir lyklunum því að það er svo fjári dýrt að þurfa að skipta um lás á hjólinu og svo finnst mér lyklakippan svo sæt en Svala gaf mér hana þegar hún kom heim frá Filipseyjum fyrir tveimur árum síðan. Rétt fyrir háttatíma, datt mér í hug að leita í bílnum og viti menn, þar voru lyklarnir í hólfinu á milli sætanna. Ég hafði sett þá þar þegar ég fór eitthvað á bílnum á laugardaginn. Það finnst allt í þessum bíl, ég get svo svarið það.

Hver er svo boðskapurinn í þessari færslu? Enginn nema kannski sá að það er alveg óþarft að eyða orkunni í að panikka útaf svona atriðum, því að ef leitað er nógu vel á mínu heimili, þá finnast hlutirnir fyrir rest.

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *