Árið 2020

Gleðilegt ár kæru lesendur. 

Þá er komið að hinum árlega annál.

Í annálnum fyrir ári síðan stefndi ég á flott ár 2020. Ég veit eiginlega ekki hvað ég á að segja, þetta er þriðja skrítna árið í röð hjá okkur. Hjá mér var 2020 var alls ekki slæmt ár, bara svo ólýsanlega absúrd og einkennilegt. Það varð aldrei ekki útgöngubann í Danmörku, við Fúsi vorum heppin að geta mætt í vinnuna og að þurfa hvorki að vera leikskólakennarar né kennarar. Fyrir okkur voru það forréttindi. En það absúrda var að vera hluti af „innsta hring“. Þannig leið okkur á Gjörinu. Við horfðum með hryllingi á fréttirnar frá Ítalíu og undirbjuggum okkur eins vel og við gátum. Ég meina, ég fór til dyra til að taka á móti öndunarvél frá hernum! Mér fannst það svo klikkað. Það var ausið yfir okkur konfekti, kökum, pizzum, blómum, kaffi og fleiru af fyrirtækjum útí bæ sem vildu þakka okkur fyrir að standa vaktina og í erfiðleikum upp fyrir haus – eins og ítölsku kollegarnir. Og við sátum og biðum eftir högginu frá komandi flóðbylgju. En það kom aldrei til Suður-Jótlands – hvorki höggið né flóðbylgjan. Sáralítið var um Covidsmit og sama gilti um flensuna og lungaþemburnar því allir héldu sig heima eða úti í náttúrunni. Hér er nefnilega hátt til lofts og vítt til veggja. Aðgerðum sem gátu beðið hafði verið frestað og því ekki verið svona rólegt á Gjörinu í manna minnum. Það var skrítið og eiginlega óþægilegt þegar við vissum af kollegum okkar úti um allan heim, standandi í ströngu.
Í haust höfum við verið að fá reyting af Covid inn á Gjörið og er búið að stækka deildirnar aftur, en alls ekki á sama hátt og í vor. 

Árið hefur breytt svo miklu. Mér finnst við vera orðinn svo aðlöguð að grímunotkun, hæfilegri fjarlægð og olnbogakveðju. Þetta er allt saman hætt að vera asnalegt og orðin hluti af lífinu. Ég hef ekki faðmað annað fólk en stelpurnar og Fúsa síðan í mars – þó með þremur undantekningum og hugsið ykkur, ég veit hvenær ég faðmaði þrjár aðrar manneskjur og hverjar þær eru. 

Ég var bólusett þann 29. desember. Góður endir á árinu! Stemmingin á Gjörinu var spes og flestir vildu mynd af sér með sprautuna á kafi í handleggnum. Þetta þurfti að skrásetja. Mér finnst gott að vera komin í bólusetningarferlið og sé fram á að geta farið til Stokkhólms og Íslands án teljandi vandræða. Á þessu ári hef ég lært að einu ferðalögin sem skipta mig raunverulega máli eru ferðalögin til fjölskyldu og vina. 
Það er mikið af fólki sem bindur miklar vonir við bólusetninguna – um að allt verði eins og áður. Ég er bjartsýn að eðlisfari en í þessum efnum örlar á efasemd. Á meðan við breytum ekki hegðunarmynstrinu okkar, þá hljóta veirur að skjóta upp kollinum aftur og aftur. Eins og þær hafa gert á þessari öld. Ég á erfitt með að trúa að gríman og ákveðin fjarlægð við fólk utan nánasta hring eigi ekki eftir að fylgja okkur um ókomna tíð. Heimurinn er að breytast með aukinni hlýnun jarðar, dýr og fólk þurfa að færa sig um set og það er eitthvað sem hefur miklar afleiðingar nú þegar og mun hafa enn meiri afleiðingar i framtíðinni. Við þurfum að aðlagast og að axla ábyrgð. Hvert og eitt okkar. 

Ég ætla að halda uppteknum hætti og gera eins og undanfarin ár; hafa upprifjunarannálinn í yfirskriftum og í stafrófsröð.

AFREK

Vinnan. Hún er vissulega persónulegt afrek. Ég fór aftur að vinna 85% vinnu á Gjörinu í Sønderborg í apríl eftir að hafa verið í markvissri starfsþjálfun frá nóvember til apríl.
Það var einnig mikið afrek að taka þá ákvörðun að segja upp vinnunni rétt fyrir jól. Það tók á skal ég segja ykkur. Gjörið hefur verið stór hluti af mér. Það hefur krafist blóðs, svita og tára, en líka mikils lærdóms, þroska, gleði, vináttu, væntumþykju og margs fleira. Í gærkvöldi var ég á kvöldvakt og mér var gert ljóst að líklega væri ég að ganga sem starfsmaður út af sjúkrahúsinu í Sønderborg 31. janúar – alfarin!
Ég sótti um og fékk fasta stöðu á vöku- og kvennadeild (Neonatal og Barsel) í Aabenraa og byrja þar 1. febrúar. Á slíkri deild eru fyrirburar eftir viku 28, veikir nýburar upp að eins mánaða og laskaðar nýbakaðar mæður. Vinnudagurinn mun lengjast um klukkutíma þar það eru 44km í vinnuna og í staðinn fyrir að vakna kl. 05.30, þarf ég að vakna 05.00. Það er pínu snemmt en hlýtur að venjast. Ég get ekki beðið eftir að byrja og er strax byrjuð að hlakka til að kynnast nýju fólki, handfjatla litlar manneskjur sem vega í mesta lagi örfá kíló, ásamt því að geta hlustað á Podcast, hljóðbækur eða útvarpið á leið í og úr vinnu. Ég reyni að sjá það jákvæða við að keyra í vinnu, því ég hef alltaf metið það mikils að geta hjólað. Ég hlakka líka til að geta farið fín í vinnuna. Í stað þess að þurfa að klæða mig praktíkst eins og hjólandi hjúkka, get ég strílað mig upp eins og skrifstofukona. Þangað til ég skipti svo um föt …  

BÆKUR

Ég hef sjaldan lesið eins lítið og í ár. Held að skýringin sé sú að ná fótfestu í vinnunni hefur kostað krafta. Ef að ég bætti við hálflesnum og -hlustuðum bókum, myndi listinn lengjast. Ég hika ekki við að hætta í miðri bók ef mér leiðist hún. Ég ætla að gefa bókunum stjörnur, eina til þrjár. Ef bók hlýtur þrjár stjörnur, mæli ég með henni vegna þess að hún var mjög góð eða góð og gagnleg. Tvær stjörnur, þá er hefur mér fundist bókin góð en kannski ekki frábær. Ein stjarna þýðir að ég get ekki beinlínis mælt með bókinni, en minni jafnframt á að bókasmekkur hvers og eins er misjafn og enginn er betri en annars.

Þær bækur sem standa upp úr eru Um tímann og vatnið, Kvinder uden mænd, Vi er vejret og bókin hennar Michelle Obama.
Bækurnar Um tímann og vatnið og Vi er vejret ættu að vera skyldulesning og heimurinn yrði strax betri. 

Um tímann og vatnið e. Andra Snæ Magnason *** Ég gæti gefið henni 30 stjörnur.
Furðustrandir e. Arnald Indriðason *
Örvænting e. B.A. Paris **
Bréf til mömmu e. Mikael Torfason ***
Stúlkan með perlueyrnalokk e. Tracy Chevalier**
Nattegalen e. Kristin Hannah *** (Mjög góð)
Døgnkioskmennesket e. Sayaka Murata ***
Engin málamiðlun e. Lee Child.  Engin stjarna – hræðileg bók. 
Gå e. Thomas Espedal **
Vesturfararnir e. Vilberg Moberg ***
Húðflúrarinn í Auschwitz e. Heather Morris **
Portræt i sepia e. Isabel Alande **
Að eilífu ástin e. Fríða Bonny Andersen ***
Undtagelsen e. Christian Jungersen **
Kvinder uden mænd e. Shahrnush Parsipur *** (Frábær bók)
Den anden gren e. Jesper Wung Sung**
Tímaþjófurinn e. Steinunni Sigurðardóttur ***
Dødevaskeren e. Sara Omar ***
Offer 2117 e. Jussi Adler-Olsen **
Vi er vejret – at redde planeten begynder ved morgenmaden e. Jonathan Safran Foer *** Þessari gæti ég líka gefið 30 stjörnur. 
Min historie e. Michelle Obama ***

FERÐALÖG

Þessi hluti annálsins er allt allt öðruvísi en í fyrra. Kannski ekki styttri en ferðalögin voru styttri í kílómetrum. Ég ætla líka að telja upp þær dagsferðir sem við fórum með þeim tilgangi að sjá eitthvað nýtt eða ef að ferðin var sérstök fyrir einhverjar sakir.  Það skiptir mig máli að sjá að ég hafi ekki setið heima í 10 mánuði þó mér hafi liðið frekar fastri og afskorinni frá fjölskyldunni.

Í byrjun febrúar hittumst við Aldís í stuttri helgarferð á Íslandi í afmæli Elvu Rakelar litlu systir sem varð fertug.
Í lok febrúar fór ég til Tenerife með mömmu á vegum Skotgöngu.


Í byrjun júní fórum við Fúsi og Vaskur í dagsferð til Højer sem er á Vesturströndinni og gengum hluta af Marsk stígnum.
Fljótlega eftir það hittum við Aldísi og Svölu í Kaupmannahöfn og skoðuðum m.a. hafmeyjuna í fyrsta sinn í 15 ár.
Í júlí fórum við með Rakel systir og Aroni frænda í dagsferð til Langeland (þangað hafði ég aldrei komið) til Dóru frænku og fjölskyldu í sumarhúsið þeirra. Það var ausandi rigning þannig að við sáum í rauninni ekki Langeland. 
Um miðjan júlí fórum við til Flensburgar og þar var komin á grímuskylda í verslunum og á veitingarstöðum. Það þótti okkur skrítið og óþægilegt. Mér leið eins og ég væri týnd úti á túni. Ég fór inn í eina fatabúð og táraðist næstum því mér fannst ég svo sterkt með í dystópíu sögu. 


Afmælishelginni minni vörðum við í Aarhus og sjálfum deginum á ArOS listasafninu.


Aldís og Svala komu til okkar um miðjan ágúst og við fórum í dagsferð til Ribe sem er á Vesturströndinni.


Í lok ágúst fórum við með Vask í sumarbústað á austurstönd Sjálands. Svala og Julian (kærasti hennar) komu þangað. Við vorum þar í viku og uppgötvuðum að Danmörk býður upp á ótrúlega fallega og ólíka náttúru frá stað til stað.


Í byrjun september fór ég til Manju sem býr norðanlega á Vesturjótlandi. Það var í þeirri ferð sem við heyrðum í úlfunum og sváfum á ströndinni. 
Ég fór til Kaupmannahafnar í haustfríinu til að hitta Svölu. 
Í lok nóvember fórum við Fúsi og Vaskur í sumarbústað hjá Blåvand á Vesturströndinni. Svala kom líka. Myndin að neðan er tekin um miðnætti.

FJÖLSKYLDAN

Fúsi er á 17. ári hjá Sloth Møller – hann er stöðugur eins og steypa. Hann æsist með aldrinum (flestir aðrir róast) og tekur að sér allskyns aukavinnu þannig að hversdagsleikinn hjá honum er full vinna hjá Sloth Møller og full vinna í aukavinnu. 

Aldís Anna unir sér vel í Stokkhólmi og byrjaði að stúdera málvísindi í háskólanum þar í haust. Hún vinnur 50% með skólanum hjá Johnson & Johnson. Ég hefur fundist hrikalega erfitt að hafa ekki komist til hennar og aðeins hitt hana þrisvar á árinu. 

Ásrún Svala unir sér einnig vel í Kaupmannahöfn, er að ljúka þriðju önn í dönsku við Kaupmannahafnar háskólann. Þær systur hafa mikið að spjalla um þegar þær tala saman, enda námin þeirra náskyld. Svala vinnur talsvert með skólanum á dvalarheimilinu Kvöldsól. Hún sótti síðan um og fékk stöðu nú í lok árs sem praktikant hjá ríkisútvarpsþættinum Klog på sprog sem er sendur út á föstudögum og sem Podcast. Nú bíð ég með óþreyju eftir að samfélagið opnist svo að ég geti fengið að vera áhorfandi í þættinum inni í DR húsinu og hitt Adrian þáttastjórnanda. Mér finnst þetta svo geggjað.
Svölu höfum við, til allrar hamingju, hitt ótal sinnum á árinu.

Það sem mér hefur fundist erfiðast við árið 2020 er að hafa verið svona afskorin frá fjölskyldunni og vinum; Aldísi og öllum á Íslandi. Við þurftum að hætta við Íslandsferð í vor og þá var allt svo nýtt og auðvelt að sætta sig við aðstæður. Þegar glufurnar opnuðust síðan í sumar, var ég pikkföst í vinnu og þegar við ætluðum til Íslands í frestaðar fermingar í ágúst, lokaðist allt aftur. Það var skellur. Og rosalega skrítin tilfinning að komast ekki heim til heimalandsins, fjölskyldunnar og vina. Eiginlega mjög óþægileg tilfinning. Þegar ég gerði mér raunverulega grein fyrir takmörkuðu ferðafrelsi, bað ég til æðri máttarvalda um að ekkert alvarlegt myndi gerast innan fjölskyldunnar á Íslandi. Og lét í vanmætti mínum fólk sem kvartaði yfir sólarlandaferðabanni, fara í taugarnar á mér. Slíkar aðstæður (skert ferðafrelsi sem þetta og lokuð landamæri) hafa ekki skapast síðan í seinni heimstyrjöldinni. Ég sakna ekki beint að ferðast. Ég sakna fólksins míns. 

GISTANDI GESTIR

Manja vinkona kom í byrjun árs. 
Elva Rakel og Aron komu  í sumar og voru hjá okkur í þrjár vikur. Þau voru  einu Íslendingarnir sem komu og komust fyrir utan dætur okkar.

 

LÆRDÓMURINN

Í upphafi pistilisins skrifaði ég  að þessu ári hef ég lært að einu ferðalögin sem skipta mig raunverulega máli eru ferðalögin til fjölskyldu og vina. Ég stend við það.
Ég komst að því að það er frábært að ferðast um Danmörku.
Ég lærði líka að standa á róðrarbretti (Stand up paddle board) og uppgötvaði að það er líka hægt að stunda yoga og líkamsrækt á því ásamt mörgu öðru. Fúsa finnst skemmtilegast að sörfa í öldum.


Ég hef líka lært helling í sambandi við næringu – eitthvað sem ég hafði engan áhuga á áður fyrr og taldi mig alltaf borða hollan heimilismat. Áhuginn fór upp úr öllu veldi og við enduðum með nýtt eldhús sem er allt annað líf. Næringaráhugi minn flettast fullkomnlega saman við að gæta að heilsunni, en einnig við aktivistann í mér gagnvart umhverfis- og dýravernd.
Það gefur hugarró að þekkja gildin sín.

TÓNLEIKAR/VIÐBURÐIR/BÍÓ

Þarna hefur árið líka verið allt öðruvísi. Engir tónleikar (við sem áttum m.a. miða á Ný Dönsk og óperu), aðeins tvö afmæli en þó slatti af bíóferðum. Bara í haust hef ég séð þrjár danskar myndir, þ.á.m. Druk sem ég mæli eindregið með. Þrátt fyrir enga tónleika, einkenndist árið af mikilli tónlist. Philip Faber flutti inn í stofuna okkar, bæði með morgunsamsönginn og föstudagssamsönginn og Helgi Björns kíkti við endrum og eins. Morgunsamsöngurinn hélt síðan áfram, eða heldur áfram með Kaya Brüel og Ole Kibsgaard. Ég horfi oft þegar ég er í fríi. Mér finnst þetta góð byrjun á deginum.

Ég hlakka til komandi tíma; hækkandi sólar, nýrrar vinnu, vonandi aukins ferðafrelsis og margra klukkustunda úti í náttúrunni og á sjónum.

-Ykkar 

4 Responses to “Árið 2020

  • Til hamingju með nýju vinnuna, vonandi að við getum kíkt á ykkur á árinu ??

  • Ingi Freyr
    3 ár ago

    ?

  • Ásdís frænka
    3 ár ago

    Takk fyrir þetta elsku Dagný, alltaf gott að lesa fréttirnar þínar,

  • Margrét Teitsdóttir
    3 ár ago

    Gleðilegt ár ykkur til handa
    Það hefur ýmislegt skemmtilegt drifið á daga ykkar þrátt fyrir …
    Til hamingju með nýju vinnuna.
    Kær kveðja
    Magga Teits

Skildu eftir svar við Margrét Teitsdóttir Hætta við svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *