Instagram

Ég á 80 vikna Instagram (IG) afmæli í þessari viku. Til hamingju ég.

Ég hef mjög gaman af IG og þrír helstu kostirnir eru að þar er mikið af flottum myndum sem maður sér ekki á t.d. facebook, þar er sáralítið tal og maður er eldsnöggur að renna í gegnum það nýjasta. Nema þegar ég missi mig í vafri útum allan heim og það er oftast þannig sem ég finn nýja til að „fylgja“ og skyndilega er ég að fara að sofa 2 tímum seinna en áætlað var.

Í tilefni afmælisins ætla ég að segja ykkur frá IG lífinu mínu og örlítið um nokkra handplokkaða notendur sem ég held mikið upp á. Ég birti samt engar myndir nema mínar vegna höfundaréttar. Einnig nefni ég eingöngu notendur sem ég þekki ekki og mun væntanlega aldrei kynnast… til að standa vörð um persónuvernd og þagnarskyldu.

Ég hef ekkert verið að fela að ég er með heimþrá af vissu tagi… því lengur sem ég bý í DK, því æðislegra finnst mér Ísland. Ég elska að skoða myndir frá Íslandi. Bæði náttúru, hesta, kinda og húsamyndir. Ég á mína 3 uppáhalds Íslands IG´ara og einn af þeim er @gr82chat sem er áströlsk. Hún er rosalega fjölbreytt og með flottar myndir. Hinir tveir eru eins ólíkir og hægt er að vera… annar í miðbæ Reykjavíkur og hinn útí náttúrunni.

2014-01-06 20.27.06

Þessa mynd elska ég, líklega því ég elska þennan stað og langar að kaup’ ann. Mér þykir ótrúlega vænt um mínar eigin myndir þótt ég sé ekki IG sérfræðingur og eigi það til að setja myndir í misjöfnum gæðum útá netið. Allar myndirnar hingað til eru teknar á gamla iphoneinn minn. Stundum er bara svo ótrúlega gaman hjá mér og ég verð að deila því! 

Ef ykkur langar útfyrir landsteinana og t.d. skoða Paris í gegnum linsu þá mæli ég með @VUTHEARA sem er franskur pro ljósmyndari og ég fann hann þegar hann ferðaðist um Ísland  þegar ég var að byrja á IG.

2014-01-06 20.30.14

Þessi mynd er tekin í Hamburg fyrir jól í fyrra og Svala er var óvart að væplast þarna. Þetta var frábær aðventuferð.

Mér finnst @PAULOBUENO skemmtilegur brasiliskur IG´ari og það eru svo miklir litir í myndunum hans. T.d. er graffiti og litrík hús vinsæl hjá honum. Ég hef aldrei komið til Sao Paulo en þetta hjálpar aðeins.

Það skemmtilega við IG er hversu auðvelt er að fara útum allt… @EXISTENCEOFGOLD er á Jan Mayen og @MARVIL19 er á suður pólnum. Marvil fékk Metallica í heimsókn um daginn! Það var svalt!

2014-01-06 20.22.56

Mig vantar snjó! Þetta er ein af uppáhaldsmyndunum mínum og líklega því þetta var svo yndislegur hlaupatúr með Svölunni.

Aftur útí heim… Ég man ekkert afhverju ég datt niður á @so67 fyrir frekar löngu síðan. Hann býr í bæ sem heitir Kholmsk sem er á eyjunni Sakhalin. Sú eyja er undan strönd austur Rússlands, beint fyrir ofan Japan. Hann tekur mest mannlífsmyndir og þær eru svo öðruvísi! Reyndar held ég að hann hafi farið á e-ð sýrutripp á tímabili en hann er orðin góður aftur og myndirnar aftur orðnar skemmtilegar. Mæli eindregið með honum ef þið viljið skoða götutískuna í Kholmsk.

2014-01-06 20.29.50

Í fyrravetur nýttum við snjóinn endalaust… vorum alltaf úti. Þarna drekkur Aldís kakó á höfninni.

2014-01-06 20.23.22

Kannski þetta kakó… þarf samt ekki að vera því ég held að við höfum farið í 7 kakógöngutúra í viku 46 2013.

Ég hef aldrei séð kakó á myndunum hjá munkunum í Tibet. @gdax er eini IG´arinn sem er munkur af þeim sem ég er að elta. Allavega sem ég veit um. Myndirnar eru yndislegar… mest grænar og rauðar…  bæði af munkalífinu og náttúrunni í Tibet. Tjekkið á þeim.

2014-01-06 20.29.05

Eftir að Vaskur kom til sögunnar hefur hann verið notaður talsvert sem fyrirsæta. Hann er að fíla það og gerir það ókeypis. Þarna var hann svo lítill að hann sást varla.

Á IG flakka ég á milli heimshornana… svipað og í dagdraumunum mínum. Ég er stundum í Japan, síðan í Chile, oft í USA, útum alla Evrópu og helling á Íslandi. Talsvert upp í fjöllunum, e-ð í borgunum og minnst á heitu ströndunum.

2014-01-06 20.32.45

Þessi mynd var nánast hápunktur einnar Noregsferðarinnar sem er eina Noregsferðin sem var síður vellukkuð. Ég var í Stavanger, hafði farið í mestu fljótfærni og einhvernvegin var allt öfugsnúið… meira að segja kortið að hotelherberginu mínu bilaði 3svar sinnum. En þegar ég fór að skoða sverðin einn morguninn fyrir vakt, gat ég ekki stillt mig um að taka mynd af japönskum rassi og fannst það svo fyndið að ég flissaði upphátt restina af dvölinni… eins kjánalegt og það nú er.

En afþví að ég á 80 vikna IG afmæli þá ætla ég að kjósa afmælismynd vikunnar… og það er ekki ein af mínum.
2014-01-06 19.18.11

Þessa lagði vinkona Svölu út í dag… þarna eru þær 5-6 ára og enn í leikskólanum Toften… hvað er sætara??? Ég er fljótandi smjör á gólfinu því ég bráðnaði.

 

 

 

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *