Blöðruhálskirtillinn

Húsbóndi minn sagði að síðasta blogg hefði verið hálfleiðinlegt… eiginlega bara kellingarblogg. Ég held að það sé bara eitthvað hormónavesen á honum. Hann er langt genginn í 50tugt og það er akkúrat um það leyti sem breytingarskeiðið dynur á mannskepnunni. Afhverju ætti hann að sleppa?

En svona fyrir hann, til að vera fyrirmyndareiginkona ætla ég að tileinka þessa færslu karlpeningnum og sérstaklega honum Sigfúsi mínum. Semsagt, algjört karlablogg.

IMG_6976

Fyrir helgi sat ég með bachelorritgerð til yfirlesningar fyrir tvo hjúkrunarfræðinema. Þessi ritgerð fjallar um blöðruhálskirtilskrabbamein og tóku þær viðtal við þrjá menn til að finna út hvort og eða hvernig krabbameinið hefði áhrif á m.a. karlmennsku þeirra, kynkvöt og lífsgæði.

Þar sem ég er fædd með einbeitningarskort á millistigi tók ég mér reglulegar pásur við lesturinn. Í einni pásunni sá ég að löngu dauði bambusrunninn var að falla inn í garðinn okkar. Við höfðum leyft honum að vera því hann lokaði fyrir gat í einu horninu. Þegar ég fór að skoða þetta betur og þegar ég ýtti við honum, kom bjórdósaflóð á móti mér. Ég vissi strax afhverju. Það er þannig að við eigum nágranna sem búa í einbýlishúsi og eiga auk þess 4ja íbúða húsið við hliðina á sjálfum sér og leigja íbúðirnar þar út. Í fyrra fengu þau leiganda sem við skulum kalla Bínu. Bína var einstæð, um 60tugt og vann á bókasafninu. Alveg hreint tilvalinn leigjandi. En það sýndi sig fljótlega að Bína hafði skúrað í eitt skipti á bókasafninu, var orðljót og geðíll. Átti syni og vini sem heimsóttu hana daglega og sátu þau alltaf hinumegin við limgerðið, drukku bjór og blótuðu. Þeim var öllum meinílla við leigusalana og átti Bína það til að kasta bjórdósum á eftir þeim. En þegar henni tókst að hemja sig, kastaði hún bara dósunum útí horn… sem svo enduðu á að íþyngja bambusrunnanum okkar það mikið að hann valt.

Þarna stóð ég og bölvaði Bínu þegar gamall maður með göngugrind gekk framhjá. Hvert skref virtist þrekraun og krafðist einbeitningar. Greinilega ekki í standi til að spjalla við mig, virti mig reyndar ekki viðlits. Ég varð örlítið hissa því gamla fólkið er vant að heilsa mér og jafnvel spjalla. Margir eru með lélegt hjarta eða lungu og er því pásan oft nauðsynleg eftir brekkurnar. Húsið okkar stendur nefnilega efst upp á hól, 400m frá blokkum þar sem mikið af eldra fólki býr og 400m frá kaupfélaginu og enda göngugötunnar. Þessvegna öll þessi eldriborgaraumferð og rollator-race framhjá. Reyndar eru piparjúnkuíbúðir sem heita Maríuheimur á milli mín og kaupfélagsins og alþekkt að körlunum finnst gott að hafa viðkomu þar.

En að gamla manninum; hann gekk þarna þungum skrefum framhjá og skyndilega heyrði ég þrusk við hinum megin við limgerðið. Síðan sá ég glitta í hendi styðja sig. Ég vissi að þetta var sá gamli en undraði mig á að hann væri kominn þarna útí horn.

2014-05-25 21.39.15

„Útí horn“ er til vinstri við limgerðið í miðjunni. Þetta er stórt bílastæði sem tilheyrir læknahúsinu ská á móti. Ég stóð sem sagt hinumegin við og ætlaði að fara að spyrja hvort allt væri í lagi en þá bæði heyrði ég og sá bununa sem skall máttleysislega í mitt hornið, ofan á bjórdósirnar og dauða bambusinn.

„Aha“ hugsaði ég, hann er væntanlega með of stóran blöðruhálskirtil. Ég bakkaði í hljóði, fór og sótti hanska og þegar ég var komin til baka, var sá gamli farinn og vonandi á upplífgandi stefnumót í Maríuheimi. Ég gat því haldið áfram að fjarlægja ruslið sem nú var orðið pissublautt og þar á eftir, haldið áfram að lesa ritgerðina um mennina þrjá og hvernig þeir hefðu það með blöðruhálskrabbameinið og ekki síst eftir meðferðina. Því sem betur fer eru til margir meðferðarmöguleikar en þeir hafa oft sínar afleiðingar, svo sem miklar hormónatruflanir og getuleysi.

Tilfelli gamla mannsins getur verið týpísk fyrir eldri menn því blöðruhálskirtillinn ykkar fer oft að stækka um 50tugt og getur þá þrengt að þvagrásinni, sem gerir það að verkum að það er erfitt að tæma og því pissuferðirnar tíðari. Á meðan þið eruð ungir er kirtillinn á stærð við kastaníuhnetu. Þeir sem ekki hafa séð kastaníuhnetu, þá er hún á stærð við ca tvö til þrjú tugð hubbabubba tyggjó gæti ég trúað.

10348618_10203855343361945_9165213718649158903_n

Það er í rauninni ekkert hættulegt að hafa of stóran kirtil, það fylgir því bara pirrandi vesen. En um leið og kirtillinn breytist í íllkynja þá vandast málið verulega. Einföld leið til að finna út hvort allt sé í góðu er blóðprufa og einn til tveir læknaputtar í rassinn. Einfalt? Já mjög. Óþægilegt? Nei alls ekki ef læknirinn notar hanska og sleipiefni.

Og eitt verður að segja blöðruhálsgaurunum til hróss… þetta eru einir skemmtilegustu sjúklingar sem ég hef umgengist.

Fúsi minn segir að sinn sé enn eins og kastanía. Ég fylgist með honum með mína þvagfæraskurðlækningahjúkrunarreynslu á bakinu!

Gleðilegan móvember karlar og farið vel með ykkur!

IMG_20mm (7)-2

P.s. Móvember er alþjóðlegur yfirvaraskeggsmánuður (moustache) til að stuðla að vitundarvakningu meðal fólks á mögulegum heilbrigðisvandamálum hjá körlum. Þá er sérstök áhersla lögð á blöðruhálskirtilskrabbamein og þunglyndi.

 

 

 

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *