Ég kvaldist úr móral og bakaði!

Um daginn gerðist svolítið hræðilegt í vinnunni og ég var búin að ákveða að segja ykkur aldrei frá því. En ég skipti um skoðun áðan. Ekki það að ég skammist mín ekki, en akkúrat í þessum skrifuðu orðum er ég að bæta fyrir brot mitt.

Það var nefnilega þannig að það kom maður inn á deildina og alla leið inn á stofu til mín sem var svo heitur að ég missti málið í eitt augnablik!

imagesHann leit ca svona út.

Ég varð heldur hvumsa og sagði ekki neitt, heldur glápti á hann vinna vinnuna sína. Var oft fyrir honum og færði mig hægt, eða ekki neitt. Fann ég roðnaði eins og jólaepli (roðna reyndar sí og æ við allar aðstæður) en lét það ekki hafa áhrif á mig… hann héldi örugglega að ég væri útitekinn, nýkomin upp úr sjónum. Eftir nokkrar mínútur í þögninni ákvað ég að hefja samræður og gera tilraun til að lengja dvöl hans. Gekk að tölvunni, sló í hana og sagði eins getnaðarlega eins og ég gat: „ohhh þessi talva er alltaf svoooo sein… veistu um e-ð gott ráð sem virkar bara svona vúpsí?“ og brosti. Og þá féll himininn ofan á mig… grár og kaldur. Maðurinn kom með svar sem var álíka langt og vegalengdin frá Moskvu til Madrid og á sönderjysku. Og eins og mér finnst ríkisdanskan oft hið fínasta mál, þá á ég oft andlega erfitt með mállýskurnar, bæði suðurjóskuna, kaupmannahafnískuna og flestar hinar.

Ég átti ekkert svar við svarinu hans.

Þetta átti sér stað rétt fyrir vaktaskipti og kvöldvaktin var að týnast inn. Skyndilega voru 3 hausar í dyrunum með neðri góminn niður á bringu.

Þær spurðu: „hvaða ofurheita gæja ertu með inná stofunni þinni???“

Ég svaraði að þær skyldu ekki láta blekkjast… að þrátt fyrir guðdómlegt útlit, gæti hann þurrkað upp hvaða mýrarsvæði sem væri á einu augnabliki bara með því að tala upphátt slíka mállýsku.

Og um leið og ég sleppti orðinu fann ég á mér að ég myndi ekki verða kosin starfsmaður mánaðarins ef slík kosning væri í gangi. Suðurjósku vinnufélagarnir horfðu skilningsvana og opinmyntar á eftir mér yfirgefa deildina með móral ársins.

Í dag gerði ég annað slæmt. Ég tók eitt af hjólunum sem tilheyrir deildinni og skrapp á bókasafnið. Fannst sætið alltof lágt fyrir minn smekk og ákvað því að koma við á verkstæðinu á sjúkrahúsinu og bað strákana um að hækka það. Þegar við höfðum hækkað sætið um ca 20 cm og hert af öllum sálarkröftum, áttaði einn sig á því að hjólið er mest notað af vinnufélugu minni sem er minnst 20 cm minni en ég og mjög háð hjóli. Við komum okkur saman um að segja hvorki frá hver kom með hjólið, né hver herti.

Aftur yrði ég ekki kosin starfsmaður mánaðarins. Ég hefði allavega ekki samvisku í að taka á móti slíkum blómvendi.

En áður en ég fór heim í dag ákvað ég að bæta fyrir skaðana og tók ofþroskaða banana með mér til þess eins að gleðja vinnufélagana á morgun.

Ég setti þá í gjörgæsluruslapoka…

IMG_8939

Held ég hafi aldrei borðað neitt upp úr þessum pokum áður…

Fyrr en nú… jammí… vel brúnir bananar, tilbúnir til baksturs.

IMG_8940

Fékk samt á tilfinninguna að þeir væru lifandi… í eitt augnablik.

IMG_8944Nei nei, þeir voru steindauðir og fullkomnir.

Og síðan hræðri ég í þetta bráðholla bananabrauð þar sem magnið mikla af All-Brani vóg upp á móti gígantísku magni af sykri.

IMG_8948

Og til að hollusta þetta enn frekar er þetta snætt með eins sentimetra þykku smjöri. Annars stendur þetta í fólki (sem gerir reyndar ekkert til ef maður er staddur í vinnunni minni). Bara muna smjörið… það er mikilvægast.

IMG_8949

Ég ætla rétt að vona að engum hafi dottið í hug að ég hafi opnað ofninn til að taka mynd??? Auðvitað tók ég mynd í gegnum tandurhreint glerið á 15 ára gömlum ofni.

3 bráðholl brauð… vinnan fær tvö (þau eru svoddan átvögl) og ég fæ eitt. Ég er nefnilega engin engill, né Florence Nightengale, né Móðir Theresa… nei, vinnan fær bara 2 stk, við erum ekki nema 30 að vinna á morgun. Ég fæ eitt heilt sjálf, auk þess sem ég borða af hinum tveimur í vinnunni.

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *