Næstu dagar…

Á bókasafninu á sjúkrahúsinu vinnur bókasafnsfræðingur sem ég hreinlega get ekki lifað án. Ef hún fer á ellilaun, fer ég líka á ellilaun!!! Hún er svo heppin að heita flottasta nafninu á sjúkrahúsinu -Þórhildur Bjalla. Elska þetta nafn.

Ég fékk sendan lista um daginn yfir greinar og bækur sem ég þarf að hafa við höndina strax i næstu viku þegar ég fer að bagsast á skólabekk. Greinarnar eru sumar mjög aðgengilegar en nokkrar finnast í leitarvélum sem eru bara alveg hundleiðinlegar.

Síðast þegar Þórhildur Bjalla hjálpaði mér, var í sambandi við lokaritgerðina í Gjörgæslunáminu. Þá gaf ég henni súkkulaði fyrir.

Þessvegna gafst ég snemma upp í leitinni á netinu og fór með listann upp á bókasafn í síðustu viku… Í gær skrapp ég í vinnuna á fund og þar beið mín pakki.

IMG_9031

Vinnufélagarnir komu hlaupandi… „það er pakki til þín…“, „ertu búin að sjá pakkann?“, „ætlarðu ekki að opna pakkann“, „hvað er í pakkanum?“ Ég svaraði: „lakkrís og súkkulaði frá Íslandi“.

En ég vissi betur og þegar flestir á vaktinni voru búnir að hrista hann vel, báru þau kennsl á gossið og sögðu: „æði, nú geturðu aldeilis farið heim og lesið!!!“ Og ég svaraði: „Veiii, einmitt… beint heim að lesa…“ og brosti mínu breiðasta og falskasta.

IMG_9039

Og Jesús Kristján… hún Þórhildur Bjalla hefur aldeilis ekki setið auðum höndum. Ég fékk ca. 75% meira en ég bað um. Afþví að hún þekkir þetta allt saman eins og lófann á sér og finnst þetta allt saman óskaplega spennandi. Hugsa að hún sé spenntari en ég. Hún er spennt fyrir allra hönd… ég er ekki sú eina sem notfæri mér hennar spenning fyrir skólagöngum okkar og ritgerðum. En ef hún bara vissi að með þessu bókaflóði, fengi ég því sem næst samviskubit (glætan að ég nenni að kíkja í þetta í nánustu framtíð)…. Já, ef hún bara vissi hversu mikill skólaslóði ég er. Og maður er aldeilis ekki látin hafa mikið fyrir hlutunum. Nennir einhver kannski að lesa þetta upphátt fyrir mig?

IMG_9045

Ég henti slatta af greinunum oní sætt box. Finnst möppur ljótar. En þetta box er bara of lítið… þarf líklega að beygla þessa pappíra eitthvað.

Tókuð þið eftir öllu frauðplastinu sem Þórhildur Bjalla setti með til að vernda bækurnar? Þetta lítur út eins og bein…

IMG_9046

… og þarna er Vaskur einstaklega skömmustulegur. Við gleymdum bæði að húsbóndin væri heima og að þetta var því ekki æskilegur leikur.

Í næstu viku er fyrsti skóladagurinn en fyrst þarf ég að einbeita mér að skemmtanalífinu. Planið var að hlaupa í næturhlaupinu á föstudaginn því það er langskemmtilegasta hlaupið en þar sem formið er í versta lagi og ég er mjög mjög nálægt því að hringja eftir hjálp þegar ég er að hlaupa þessa dagana, ákvað ég að selja eða gefa númerið mitt. Það eru líka svo margir ókostir við of hraða hreyfingu:

 1. Maður svitnar ógeðslega mikið
 2. Maður myndast hræðilega ílla
 3. Maður lyktar ef maður fer ekki strax í sturtu
 4. Maður meiðist
 5. Maður gengur eins og gömul manneskja daginn eftir
 6. Maður er alltaf meira og minna stífur og stirður… alltaf.
 7. Maður er alltaf svangur
 8. Maður er alltaf einn, engin vill vera nálægt manni svona sveittum.
 9. Maður vill ekki vera nálægt öðru sveittu fólki
 10. Maður andar hundslega
 11. Maður getur ekki verið með mikið af skartgripum (pæjuarmböndum og þessháttar)
 12. Maður þarf alltaf að vera þvo þvott
 13. Maður verður rauður í framan
 14. Maður er alltaf í hallærislegum fötum (íþróttaföt eru hallærisleg)
 15. Maður finnur allt hristast, bæði að utan og innan en mest að utan.
 16. Maður verður þrútin í framan
 17. Og aftur… Maður myndast hörmulega!

17 atriði sem mæla á móti að ég hlaupi um helgina og einbeiti mér í staðin að skemmtanalífinu og vinkonunum!

Þarf verulega á þynnkudegi að halda, þar sem sólgleraugu, kók og djammfnykur er það eina sem skiptir máli. Bara svo að þið haldið ekki að ég sé einhver drykkjukind, þá hef ég ekki átt þynnkudag síðan í vor held ég. Svei mér þá, ef það var ekki bara um páskana, þegar við systir mín grétum á bakvið sólgleraugu yfir hamborgaranum í Söluskála KHB daginn eftir. En þessi helgi er fullkomin… fyllerí og barnaafmæli daginn eftir! Það er allra allra best.

Juuu hvernig læt ég??? Ég sem er að verða fertug!

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *