Þegar ég klúðra málum fjölskyldunnar og hverf inn í mig með Cohen.

Enn einn föstudagurinn og enn eitt klandrið sem ég er búin að koma mér í. Þið hafið eflaust lesið um óbeit mína á sölumönnum. Sem orsakast af því hversu ílla þeir fara með mig! Aftur og aftur. Í morgun fór ég niður í bæ í símafyrirtæki út af símanum mínum. Í leiðinni ákvað ég að skipta um símafyrirtæki því ég hef verið ósátt við 3G netsambandið. En gott ráð til ykkar. EKKI flytja ALLA fjölskylduna yfir í annað fyrirtæki án þess að spyrja né láta kong né prest vita!

Annað gott ráð: Farið í vinkonuheimsókn strax á eftir og látið símann liggja í veskinu.

Þriðja góða ráðið: Ekki fara heim þennan dag, farið heldur í fleiri vinkonuheimsóknir því viðbrögð fjölskyldunnar geta verið ofsafengin!

Meðal annars:

  1. Yfir að hafa fengið tilkynningu i sms’i um flutning (fékk að vita að maður sendir heldur ekki sms þegar maður slítur ástarsambandi).
  2. Yfir að ég hafi hvorki svarað hringingum né sms’um i yfir 2 klukkutíma til að útskýra flutninginn.
  3. Yfir að ég setti alla línuna (fjölskylduna) á ódýrasta gagnapakkann og því 3svar sinnum minni gagnapakki en áður. Ekki vinsælt hjá yngstu dótturinni sem er á sífelldu flakki!
  4. Yfir að ég var að vasast í hlutum sem ég hef akkúrat ekkert vit á (símar eru ekki mín sterka hlið og hefur gamli gaur séð um iphoneinn minn þrátt fyrir að eiga samsung sjálfur fram að þessu. Ég þoli heldur ekki fjölda takkanna á fjarstýringum). 2014-10-09 16.35.22(Þær eru heldur ekki mín sterka hlið og væri gott ef þær væru teipaðar svona. En ég elska apple tv fjarstýringuna ofur heitt enda best í heimi).remoteÞrír takkar -meira en nóg og málið er dautt.

Ég gerði semsagt þau stóru mistök að fara heim. Og var tekin á beinið! Sá eini sem var ekki galin yfir einhverjum smáatriðum var Vaskur, sem gat lítið gert fyrir mig og allra síst staðið upp í hárinu á óðu feðginunum. Ég var því alein í ljónagryfjunni og lét örvinglun fjölskyldunnar rigna yfir mig. Það besta sem ég geri þegar ég þarf að hugga sjálfa mig (því ekki gerðu þau það), er að hlusta á Leonard Cohen. Hann hefur séð um þau mál síðan ég var 16 ára í Alþýðuskólanum á Eiðum. Og staðið sig með prýði, batnar bara með árunum. Ég meina, þegar hann horfir á mig … IMG_9441

… og syngur: „If you want a lover, boxer, doctor, I’ll examine every inch of you …“ Ég fell í stafi.

Það er eilíf barátta við kynsystur mínar um Jude Law, Robert Downey Jr., Bradley Cooper og fleiri fola og læt ég sem ég sjái þá í hverju horni. Geri þær grænar af öfund þegar ég sannfæri lesendur um að gluggaþvottamaðurinn, Vottinn Jehova, garðyrkjumaður nágrannans og fleiri menn í nágrenni hússins míns, séu lifandi eftirmyndir þessarra guðdómlega kynþokkafullu karlmanna úr stjörnuheiminum sem þó hafa tærnar langt fyrir aftan hælana á Leonard Cohen.

En Cohen hef ég alltaf talið mig vera með 100% eignarhald á. Hef ekki fundið fyrir neinni samkeppni í saumaklúbbunum og því lifað í mínu andlega ástarsambandi óáreitt í 23 ár. Hann er áttræður og aldrei verið meira sjarmerandi og kynþokkafullur. Hann er meyja, ég er ljón -fullkomin samsetning og þessvegna myndi ég aldrei hætta að horfa í augun á honum ef ég hitti hann. Hann sitja hjá mér á meðan ég væri að sofna; strjúka mér um hárið og raula lágt þar til ég sofnaði. Fara síðan fram í stóru stofuna sína með útsýninu yfir borgina, lesa djúpa bók, líklega ljóð, við dauft ljósið frá fallegum lampa, búa síðan til morgunmat handa mér og færa mér í rúmið. Svona menn eins og hann vaka fram eftir nóttu og vakna fyrir allar aldir. Þeir lifa fyrir þögnina og myrkrið. Þegar við værum búin að gera ljúffengnum morgunmatnum skil, myndi hann lesa fyrir mig ljóðið sem hann las sjálfur um nóttina og segja mér sögur frá hans ungu dögum á á fimmta og sjötta áratugnum. Dagurinn færi í að þræða veitingarstaði og söfn. Ég myndi hlífa honum við fjallgöngu í Kanadísku fjöllunum því hnén eru ekki lengur upp á sitt besta.

„… og áhrif hans á kvenfólk eru soldið fyndin á svona hálf dapurlegan hátt…“ Ég uppgötvaði bloggara í dag sem ég var í því að vitna í. Að sjálfsögðu er ég algjörlega ósammála, en ætla ekkert að vera að æsa mig þar sem ég veit að þetta er bara vanmáttur hans eins og allra annarra karlmanna gagnvart Cohen. Það eru þeir, karlmennirnir, sem horfa á Cohen dapurlegum augum því þeir geta aldrei horft á konu eins og Cohen gerir, sagt sögu eins og Cohen segir né tekið ofan á jafn karlmannlegan hátt og Cohen gerir. Ef ég vissi ekki betur þá teldi ég hann ekki mennskan. Sem er í rauninni aukaatriði því mannfólkið getur auðveldlega orðið skotið í verum -samanber bláu kvenverunni í Avatar. Karlkyns bíogestir urðu að bíða eftir hjöðnum áður en þeir stóðu upp að lokinni sýningu.

Svo niðurstaðan er sú að það er ekkert dapurlegt, né athugavert við að eiga í one way andlegu ástarsamband við aldrað kyntröll í Vesturheimi..

P.s. bloggarinn sem ég linkaði á lofar góðu við fyrsta lestur og engar sárar tilfinningar hérna megin. Svo ég mæli með honum 😉

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *