Jólagjöfin til pabba

Ég heyrði svo greinilega í pabba þegar Íslendingar skoruðu á móti Tékkum í landsleiknum áðan. Líka þegar þeir komust í dauðafæri. Honum fannst gaman að sitja í brúna leðurstólnum sínum og horfa á fótbolta. Núna sat Maggi bróðir í stólnum hans á Eiðum og horfði á leikinn… væntanlega með svipaða takta og pabbi sinn. Ég hef heyrt í þeim… oft.

Mamma hringdi snemma í gærmorgun til að segja mér að pabbi væri dáinn. Kvöldið áður hafði Aldís pantað far til Íslands til þess að koma afa sínum og ömmu á óvart. Hún ætlaði að fara um næstu mánaðarmót. Það mátti engin vita neitt. Þessu samsæri tók ég þátt í, þrátt fyrir að mamma hefði hringt í mig stuttu áður frá sjúkrahúsinu á Seyðisfirði, þar sem pabbi var í hvíldarinnlögn og sagt mér tölur um súrefnismettun, líkamshitatölur og fleira sem ætti að hringja öllum bjöllum hjá mér. Ég sagði henni að segja þeim að gefa honum aðeins meira súrefni og mæla svo aftur. Ég ætlaði mér að sjá hann í desember og hlakkaði gífurlega til að heyra um viðbrögðin þegar Aldís myndi birtast. Vinkona mín átti að skutla henni út í Eiða. Síðan myndi ég koma og við myndum öll skera út laufabrauðið saman. Ég blokkeraði algjörlega á raunveruleikann. Samt hringdi ég upp á gjörgæsludeild áður en ég fór að sofa og bað þær um að stroka mig út af listanum fyrir jólafrokostinn sem átti að vera næsta föstudag. Gat allt í einu ekki hugsað mér að fara.

Það er svo erfitt að hugsa til þess að pabbi hafi verið einn þegar hann dó. Mamma er búin að segja mér þrisvar sinnum að hann hafi ekki verið einn. Að fólkið sem var á næturvaktinni hafi verið hjá honum. Hvernig get ég samt vitað að þær hafi haldið í hendina á honum? Ég hefði haldið í hendina á honum. Ég held alltaf í hendina á deyjandi fólki ef engin aðstandandi er til staðar. Ég veit ekki einu sinni hvernig hún lítur út, sú sem var hjá honum.

Ég hélt að ég væri orðin frekar sjóuð í þessu. Ömmu- og afalaus og tengdamömmulaus, sífellt kveðjandi hina og þessa, nær og fjær. En nei, mér finnst ég vera inn í hnausþykkri sápukúlu og get engan vegin ímyndað mér að það sé líf fyrir utan. Það hefur ekki einn einasti bíll keyrt fram hjá húsinu mínu í dag og þegar ég fór upp á deild til að redda vöktunum mínum, fannst mér svo fjarstæðukennt að heyra í vinnufélugunum hlægjandi inn á kaffistofu. Allt var í fjarska og hljóðin líka. Ég læddist fram hjá, fann vaktaskýrsluna og reddaði mér skiptum einn tveir og þrír með nokkrum sms´um til þess að komast til Íslands. Mér finnst líka algjörlega óhugsandi að ég sé að fara á risastóran þemadag á morgun þar sem við eigum að nota heilann og hreyfa okkur saman frá kl. 8-12. Hvaða andskotans heila? Pabbi hefði reyndar ekki orðið hrifin af þessu blóti en ég finn bara ekki fyrir heilanum í mér. Ég er búin að stara á sömu blaðsíðuna um „refleksion“  í allan dag og skrifa 4 línur, vel vitandi að þær eru í engu samhengi við neitt annað í ritgerðinni minni! Ég þrýsti fingrunum reglulega á augun því mér finnst allt vera að springa inn í höfðinu á mér, það er hvergi pláss.

Ég opnaði jólagjöfina hans áðan! Gjöfina frá okkur til hans. Við tókum okkur til á fimmtudagskvöldið og pökkuðum því inn sem búið var að kaupa. Eða Fúsi pakkaði, ég skreytti. Og nöldraði! Fúsi notaði of mikið límband og pakkinn var of laus. Pabba hefði líklega verið nokkuð sama því hann var víst engin snillingur sjálfur í gjafainnpökkun. Ég valdi samt fallega bronslitaðann pappír og setti epli, brómber og ribsber með, því hann átti að vera extra fallegur og að pabba skapi.

IMG_1070

Honum var svo oft kalt eftir að hann veiktist. Klæddi sig í mörg lög. Ég hafði meðal annars keypt handa honum þykka fóðraða skyrtu og ætlaði að láta hann opna pakkann á meðan ég væri á Íslandi. Svo að hann gæti notað hana sem allra mest og liðið betur. Nú þarf ég að skila skyrtunni! Og í staðinn þarf ég að taka þátt í skipulagningu um útför föður míns í mörg þúsund kílómetra fjarlægð. Mikið hefði ég frekar viljað gefa honum skyrtuna. Mikið sakna ég hans!

Jarðarför

Sá ég í sorginni afstæða drauma

Sárin svo djúp, veröld svo auma

 

Taumlausan trega

taktfastan slátt,

burtflogna birtu

bjargleysið smátt

Ljúfsára lifun

lamaðan mátt,

sorgbitnar sálir

sundraðar brátt

 

Himinsins harpa

hugljúfum óm,

koparsins klukkur

klingjandi hljóm

Ástvinir allir

uppskera tóm,

fölvanga flytja

framliðið blóm

 

Höf: Hrafnkell Lárusson

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *