Djössins klúður… og það á afmælinu.

„Það leikur allt svo vel í höndunum á henni…“. Þetta virðist eiga við um allar konur á mínum aldri því allir eru alltaf að segja þetta um allar. Óþolandi því þetta er aldrei sagt um mig. Ég er óttalega fljótfær, seinheppin og klúðursöm, ég veit það vel. Nema þegar ég legg þvagleggi, þá er ég eiginlega bara snillingur.

Fyrir nokkrum árum stofnaði ég Youtube reikning og setti að sjálfösgðu prófílmynd, sem ég valdi í fíflaskab, velvitandi að það sæu fáir youtubið mitt.

Síðasta föstudag var ég í netskólanum og hópurinn minn var að vinna skriflegt verkefni í google docs. Það virkar þannig að við getum öll skrifað í einu á sama skjalið og einnig getur kennarinn komið inn og gert athugasemdir. Ég hafði bara opnað þetta docs og ekkert spáð neitt í að það væri tengt Gmailinu og þar með var ég sjálfkrafa logguð inn því ég er alltaf sjálfkrafa logguð inn á Youtube… sama dæmið og því sama prófílmyndin.

Kennarinn kom allt í einu inná og með einhverjar athugasemdir.

Hennar prófílmynd var greinilega af fallegum,ábyrgðarfullum og gáfuðum hjúkkukennara. Engin vafi.

2015-02-13 13.54.42

Mín prófílmynd sýndi sofandi og slefandi hjúkku.

2013-02-16 02.59.45

Æði.

Svona fór ég inn í helgina -vandræðaleg.

En það er nú ekki hægt að gera alltaf allt rétt. Síður en svo, maður er nú bara mannlegur.

2015-02-16 11.22.43

T.d. eru geimfarar einhversskonar vísindamenn og því gáfnafólk upp til hópa. Samt halda þeir að Írland og Stóra Bretland séu í Skandinavíu. Eða að Skandinavía sé Stóra Bretland. Eða að Danmörk sé Stóra Bretland, Noregur Írland og restin Skandinavía. En þetta er bara aukaatriði, það geta ekki allir vitað allt og myndin er flott. Fúsi minn, afmælisbarn dagsins, benti mér á þennan @astro_terry og @ISS á Instagram. Þrælskemmtilegar myndir oft á tíðum og ágætis tilbreyting frá öllum snjónum, fjöllunum, munkunum, Eskifirði, Sönderborg og Reykjavík.

Ég minntist á það í síðastu færslu að Fúsi væri, síðan ég kláraði gjörgæsluna, búin að reyna að koma mér á olíuborpall. Ég er alveg að missa mig úr spenningi. Að hugsa sér, ég gæti mögulega þurft að gefa einhverjum panódíl. Eða mæla hitann.

Hann segir að ég hafi allt sem þarf í jobbið, bæði menntunina og reynsluna. Reynsluna? Já, hann vill meina að reynsla mín úr Vélstjórnaskólanum á Akureyri 1992 myndi koma sér vel. Ég var 17 ára. Villuráfandi og leitandi unglingur. Ég entist í eina önn. Ég var mest í vatnslag við strákana. Eða rúntandi um á Toyota Starlet ´80 með strákunum. Farandi í snúningum niður Gilið í fljúgandi hálku. Það var bara happ að Starlettin var svo agnarlítil og því urðu engin stórslys. Eða rúntandi austur á Egilsstaði nokkrar ferðar í allskyns veðrum með loftlaust varadekk í skottinu. Pabbi var ekki ánægður þegar það uppgötvaðist. Auk þess setti hann stóran stein eða réttara sagt klett í skottið á bílnum. Ég var ekki nema 50kg þarna í denn og því bæði bíllinn og ég eins og fis í þessari tíð og því veitti ekki af þyngingu. Hann dreif betur með klettinn í skottinu, bæði í Fjallgörðunum og í Gilinu á Akureyri.

En ég klúðraði vélstjóranáminu og fór austur.

Þrátt fyrir alla þessa reynslu er ég ekki á því að fara á olíuborpall út í ballarhafi, held ég myndi bara láta lífið úr leiðindum. Frekar vil ég gerast geimfarahjúkka. Svífa um allan daginn og sjá norðurljósin ofan frá. Já, þar held ég að gjörgæslan og vélstjóraönnin mín kæmi sér að góðum notum. Rámar eitthvað í strokka, stimpla og dælur. Ein var appelsínugul, hún var uppáhalds dælan mín. Gæti dyttað að geimfarinu, þegar hinir færu í pásu, svona eins og Sandra Bullock í Gravity. Auk þess tók ég facebookarpróf í bílavarahlutum í aðgerðarleysinu í síðustu viku. Það þurfti ekki spyrja að því, ég fékk A+. Það verður samt að viðurkennast að prófið var mjög létt fyrir mig, þar sem þetta voru bara Subaruvarahlutir og ég var alin upp hjá Subaruóðum foreldrum. En þetta bendir samt til þess að það teknólógiska liggi vel fyrir mér.

Í gær bakaði ég bollur áður en ég fór í ræktina með stelpunum.

IMG_0739

Eftir að við höfðum rifið í járnin og tekið duglega á því, fór ég heim og gleypti í mig tvær bollur. Vöðvarnir skræktu nefnilega á hveiti, rjóma, smjör og sultu. Og þar sem bollurnar tókust svona frábærlega, bauðst ég til að baka fyrir alla vinnuna hans Fúsa. Þrjátíu manns. Ekki málið. Hvað er skemmtilegra en að mæta í vinnuna hjá eiginmanninum  með íslenskar vatnsdeigsbollur eftir uppskrift frá Ástu ömmu í Stakkahlíð og slá í gegn?

Í morgun fór ég í það að baka. Tvær plötur sem litu þvílíkt vel út þegar ég tók þær út úr ofninum. Tíu mínútum seinna voru þær orðnar agnarlitlar og slepjulegar. Líka vondar! Hvernig er hægt að klúðra vatnsdeigsbollum fyrir þrjátíu manns? Og klukkan orðin 12.30 og farið að líða að vinnulokum á þessum mánudegi. Pakkinn frá mömmu komin og allt að skella á. Held samt að ástæðan fyrir bolluklúðrinu var að ég hlustaði á morgunleikfimina á Rás1 og slappaði alltof vel af. Dró vart andann. Og það hafa bollurnar líka gert. Slappað af og fallið saman.

IMG_0896

Já nei, hún mamma klikkar ekki á afmælisgjöfunum. Og pabbi klikkar ekki á afmæliskveðjunum. Hann þakkaði nefnilega Fúsa fyrir að vera til og fyrir að gefa mér að borða. Það er eiginlega að verða þannig að foreldrar mínir eru í raun skemmtilegasta fólkið á facebook. Þau eru svoddan gimsteinar.

Aftur á móti panikaði ég útaf bollunum, hringdi í Fúsa og spurði hvort gamla skúffukakan okkar frá Heiðu heitinni myndi duga?

Á 80 mínútum tókst mér að versla, baka, skreyta og fara með í vinnuna hans.

IMG_0900

Ég var svo tvisvar sinnum 80 mínútur að þrífa húsið því það leit svona út allsstaðar. Kakó inn í stofu???

IMG_0928 IMG_0921

IMG_0908IMG_0919

Og krem á gólfinu því ég hitti ekki í fyrstu því ég var meira upptekin við að taka mynd af kreminu falla á kökuna en hvert kremið myndi raunverulega falla.

Ég skreytti hana svo með fánum, jarðarberjum og kókos og gleymdi að taka mynd.IMG_0936

Hann kom svo með restina heim. Og skar pakkana upp á meðan ég át kökuna.

IMG_0937

Hann var alsæll með allar gjafirnar sínar…

IMG_0948

Já, þetta var fyrrihluti afmælisdagsins hans Fúsa. Seinni hlutinn fer í að bera múrsteina í fötunum niður tvær hæðir og elda eitthvað gott handa mér.

Ég ætla ekki að bæta neinu við afmælislofræðukveðjuna sem ég setti saman fyrir tveimur dögum, þar sem ég get ómögulega hafa gleymt einhverju. Lofræðan sú ætti að ná yfir vel hans persónuleika og meira til.

Kær kveðja D

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *