Íslandsferðin 2015 -seinni hluti

Aftur að Íslandsferðinni. Í síðustu Íslandsferðafærslu var komin miðvikudagur og ég bara nývöknuð og því ekkert búið að gerast þann daginn

Veðrið var alveg á skjön miðað við að ég var þarna stödd í sumarfríi. Ég sá ekki Eiðalækinn fyrir veðurvonskunni.

Mamma þurfti að skúra (ekki skúrað síðan um ellefta ágúst, jesús minn) og ég velti mikið fyrir mér hvernig ég átti að nýta daginn sem allra best. Ekki nennti ég að skúra enda í sumarfríi.

Heppnin var með mér. Jói vinur var staddur á Austurlandinu, nýbúinn að fella einn hreindýrstarf og því einnig aðgerðarlaus með öllu. Við Jói vorum saman á Eiðum ´90 og það var hann sem kaffærði mér svo svakalega í sundlauginni þar að ég fékk sundfit á milli tánna. Já eða í baðkarinu á Miðgarði. Hann og einn Fellbæingur. Eftir að hafa krotað mig svarta með spritttússi. Og kveikt í gardínunum í herberginu mínu. Þeim fannst vera brunalykt af mér. Þeir hentu mér líka út um gluggann á 3ju hæð því ég fór að gráta þegar þeir kveiktu í tannburstanum mínum. Nei nú var ég að ýkja… þarna með gluggann. Ekki misskilja mig, þetta var ekki einelti. Þetta var eitt af bestu skólaárum lífs míns!

Jói var líka svo indæll að kynna mig fyrir konunni sinni við kassann í KHB árið 1998. Áður en við vorum búnar að raða í pokana vorum við orðnar perluvinkonur.

10500367_10152610882007125_1242092669635053536_nÞetta eru þau, gullfalleg bæði þrátt fyrir að vera í eins gæsaveiðabolum. (Myndin er fengin að láni hjá öðru hvoru þeirra).

Nóg um það, Jói kom og við ákváðum að gera eitthvað skemmtilegt og því varð Laugarfell fyrir valinu. Þangað til við hittum gamla Eiðasystur í KHB sem mælti með að við færum frekar í Laugavalladal. Laugafell væri bara túristapottur.

Var ég búin að minnast á veðrið? Rigning, rok, þoka… já ef ekki bara stórhríð?

Við fórum í Laugavalladal sem ég ætla ekki að útlista hvar er. Þetta er eyðidalur með sorglega sögu á bakvið sig en líka með dýrmætri náttúruperlu sem helst engin má vita um. Að mínu mati. f75916e0-875e-4f7c-a00d-1c661ca3be5d

Þetta er náttúruperlan en þetta er ekki ég (þótt þess væri óskandi í augnablikinu) og heldur ekki veðrið sem við fengum. Ég gat ekki tekið neina einustu mynd vegna veðurs.

Þarna af moldarbarðinu rennir maður sér niður í pottinn, lendir á kaf í leðju en það gerir ekkert til. Umhverfið er kyngimagnað. Svo afskekkt, autt og örlítið draugalegt í þokunni. Er ekki frá því að kindurnar og bóndinn séu þarna á sveimi allt í kring. Án þess að það sé eitthvað slæmt. Þetta er heldur ekki ferðamannatískupyttur. Bara agnarlítill slæðingur sem þykir bara fínasta mál á Íslandi nú til dags. Engar skítugar ameríkanatær að troða sér inn í manns præveit líkamshluta vegna þrengsla. Nóg pláss fyrir alla. Samt engvir búningsklefar, engar göngubrýr né pallar. Bara ein heit sturta til að skola af sér leðjuna sem maður sökk í í byrjun. Fullkomið.

626078_638_365

Þetta er heldur ekki ég því miður. Báðar myndirnar eru teknar af netinu.

Á leiðinni heim hleyptum við úr dekkjunum (eða, í hreinskilni sagt, Jói hleypti úr dekkjunum, ég sat inn í heitum bílnum og greiddi mér) og fórum heim þar sem leið lá um Mógil og komum því niður hjá Brú á Jökuldal.

Fimmtudagur: Ég fór í 16 heimsóknir.

Föstudagur: Ég útréttaði og snérist á Aglastöðum því þetta var síðasti dagurinn minn á Héraðinu. Síðan var haldið á Seyðisfjörð. Ég fæ alveg tak ef ég kemst ekki smá á Seyðis í hverri Íslandsferð. Það var sama stórhríðin á Héraðinu þegar við lögðum af stað en þegar við komum upp á Norðurbrún birti til. Mjósundin skörtuðu sínum fegurstu gráu og grænum litum og bjart var alveg niður í fjörð. Engin hríðarhraglandi þar.

IMG_1265

Fjölskyldan mín hafði skipulagt matarboð með tilheyrandi kræsingum að hætti móðursystur minnar og skemmtilegheitum.

IMG_1316Þau komu mér líka á óvart með pakka og stórskemmtilegu korti! Það sem manni þykir vænt um fólkið sitt.

Daginn eftir keyrðum við Jói suðurleiðina í bæinn í blíðskaparveðri. Allan tímann vorum við í örnafnakeppni. Hver haldið þið að hafi unnið?

Kvöldinu var eytt í heita pottinum hennar Tinnu í Hafnarfirðinum undir fullu tungli og úlfaspangóli úr hrauninu.

Sunnudagur: Enn eina heita sprænan. Í þetta skipti með Ástu frænku og fallegu stelpunum hennar. 
hpXEa90QIMNqvlWVgANS6fRwOkfEvTn2z-tQsH0_39U

i67_mSzvFkHZRFfZOh-bLC6Qt0C1KTfCCGhwHwCqK2E

Þetta er markaðssetning. Ekki fær fólk athygli í flíspeysu… Akn4nMMTolIdh-LTAiFzwpLOGv0auk14Wb0ZqQV_eLYFjórða sundferðin í þessari ferð og allar í boði náttúrunnar. Tja nema kannski Jarðböðin, kannski ofsögum sagt að það hafi verið í boði einhvers, þó svo að ég hafi fengið öryrkjaafslátt fyrir að hoppa á einni löpp fyrir framan afgreiðsluborðið.

Mánudagurinn: Reykjavík down town. Þrjár búðir, þrír veitingarstaðir/kaffihús og fjórar bækur.

Þetta var semsagt hin fínasta Íslandsferð. Eiginlega hin ágætasta ef ég á að gefa einkunn eftir gamla skalanum frá níunda áratugnum.

Næst? Er ekki komin tími á sjúkrahúsblogg?

 

 

 

Trackbacks & Pings

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *