Lokaorðin sem birtust um miðjan ágúst og fleira…

Daginn sem ég hélt upp á afmælið vaknaði ég eftir hálf svefnlausa nótt (því ég var náttúrulega alveg að fara yfirum) og í asnaskap lét ég það verða mitt fyrsta verk að kíkja á mailið á símanum mínum. Eins og maður fái eitthvað mail á laugardagsmorgni. Nema þennan, ég hafði fengið mail. Mikið sem ég fékk sjokk. Austurglugginn hafði skrifað og beðið mig um að vera tilbúna með Lokaorð fyrir miðvikudaginn næstkomandi.

Lokaorð ofan í allt saman! Húsið og nærliggjandi híbýli voru full af gestum og engin tími til að opna tölvu. Alls engin. Ég ýtti við Fúsa þarna kl. 6.30 um morguninn og sagðist ekki meika Lokaorðin líka. Síðan hugsaði ég málið í 4 mínútur og svaraði mailinu með jái. Þetta hlaut að reddast. Sem og það gerði.

Annars á ég mér uppáhalds Lokaorðslesanda. (Fyrir utan náttúrulega mömmu sem veggfóðrar heimilið sitt með þeim.) Þessi uppáhalds heitir Ásta og hún hrósaði mér svo svakalega fyrir Lokaorðin mín þegar hún kom með póstinn í Eiða einn morguninn (hún keyrir út póstinum í minni sveit) að ef ég hefði ekki verið svona rosalega meikuð í framan, hefði hún séð hversu mikið ég roðnaði. Ég var nefnilega að fara upp að Holuhrauni og búin að meika mig all svakalega og setja á mig gerviaugnhár í tilefni ferðarinnar.

Ég held að ég sé ósköp dæmigerð manneskja sem finnst gott að fá hrós, læks og allt því um líkt. Ég elska þegar fólk stoppar mig í Kaupfélaginu (reyndar oftar í Bónus) til þess eins að hrósa mér fyrir skrifin mín. Einu sinni var ég kysst í búð, bara útaf einhverju sem ég hafði skrifað. Á aldrei eftir að gleyma þeim kossi. Svona skiptir mig máli. Þetta blessaða blogg væri ekki orðið um 11-12 ára gamalt ef ykkar nyti ekki við. Mér þykir líka heil óskapans vænt um þegar ég heyri og finn að lesendahópurinn minn á blogginu er frá 18 ára aldri og upp yfir áttrætt. Bæði kyn og úr öllum stigum þjóðfélagsins. Þetta snertir mig beint í hjartastað.

Ohhh augnablik, ætla að sækja mér þurrku úr Kleenex pakkanum…

Nú er komið að mér að skrifa Lokaorðin í Austurgluggann aftur… sem er fínt mál, ég hef gaman af því. En í þetta skiptið VEIT ÉG EKKERT UM HVAÐ ÉG Á AÐ SKRIFA???

Er eitthvað sérstakt sem ykkur langar að heyra um? Einhverjar hugmyndir? Einhverjar óskir? Eitthvað? BARA EITTHVAÐ?

————————————————————————————————————

Hér koma síðan Lokaorðin frá 21. ágúst. Sem ég setti saman á öðru hundraðinu á meðan gestirnir mínir voru í baði, úti að labba, sjoppa, sofandi osfrv. Myndin sem fylgdi með í þetta sinn var tekin af Smára Sverri ljósmyndara af okkur pabba í afmælinu. Undir myndinni er síðan myndband sem Smári Sverrir bjó til úr afmælinu. Þar sést karlakór Sönderborgar (minn uppáhaldskarlakór) syngja hluta af sínu atriði, mamma halda ræðu og síðan Viktor frænda segja brandara.

Loksins fertug.

Í þrjú ár hef ég beðið í ofvæni eftir að verða fertug og finna fyrir auknum þroska til að geta hætt að segja aulabrandara, já og auk þess til að geta haldið stóra veislu. Ég hef spáð, spegulerað, skipulagt og síðast en ekki síst talað um komandi veislu við nánast öll tækifæri. Undanfarna mánuði hafa mér borist með hverri ferð frá Íslandi, lambalæri beint úr Tókastaðafjallinu ásamt nokkrum kartöflum frá Steindóri á Víðastöðum. Annað kom ekki til greina. Í síðustu viku hófst lokaundirbúningurinn. Stórt veislutjald var sett upp í innkeyrslunni okkar til viðbótar við bílskýlið. Fjörtíu metrar af hvítum damaskusdúk voru straujaðir, jólaseríur, blöðrur og ýmislegt annað skraut var hengt upp og blóm sem fengin voru að láni úr blómabeði bæjarins voru sett í vasa. Tíu kíló af kartöflum voru skornar niður, ásamt þrettán kálhausum og þrjátíu eplum.

Auðvitað hafði ég þema, hvað annað, eins búningaglaður og hópurinn hérna í Sönderborg er og var það yndisleg tilfinning að sjá bakgarðinn okkar fyllast af nánustu fjölskyldu og bestu vinum, öll klædd og greidd í stíl sjöunda áratugsins. Kjólarnir voru svo fallegir, hattarnir og jakkafötin töff og litirnir margir. Þetta var alveg að mínu skapi.

Þetta kvöld, 15. ágúst síðastliðinn, líður mér seint úr minni, því einhvern veginn small þetta allt saman á undraverðan hátt. Á tímabili í undirbúningnum var nefnilega kominn einhver efi í mannskapinn, það var líklegast þegar ég setti gestunum mínum fyrir að brjóta servíetturnar í stjörnur því það brot hafði ég ákveðið í júní og það skyldi standa. Ég fór síðan sjálf að útrétta úti í bæ. Þegar ég kom heim, minnti ekki ein einasta servíetta á stjörnu. Mömmu fannst vesenið á mér heldur mikið og vitnaði í þorrablótsservíettubrotin í Þinghánum. Að þar væri aldrei neitt vesen, samt væru þorrablótin mjög góð og allir skemmtu sér.

En servíetturnar voru á endanum brotnar í stjörnur, lærin grilluð og dansinum var leyft að duna fram undir morgun undir öruggri handleiðslu aldursforseta og afmælisbarni næturinnar, Sævari Pálssyni en hann á afmæli 16. ágúst.

En hvað er það sem gerir það að verkum slík veisla tekst vel og verður svona eftirminnileg? Jú, það er fólkið sjáðu til. Það er nefnilega svo mikilvægt að vera umkringdur skemmtilegu fólki sem manni þykir vænt um, á svona tímamótum. Það er einmitt það sem gerir það svo meiriháttar að verða fertug. Mamma, pabbi, litlu systkini mín og æskuvinkonurnar komu langa leið að, ásamt heilum helling af vinum og fjölskyldu héðan og þaðan í Danmörku. Húsið fylltist og var meira að segja Hill Billy-sófinn úti í garði nýttur að nóttu sem og degi fyrir þreytta afmælisgesti enda veðrið með besta móti.

En slíka veislu heldur maður ekki án hjálpar. Aldeilis ekki. Pabbi segir stundum að þetta Íslendingasamfélag hérna í Sönderborg sé eins og á Jökuldal í gamla daga, þegar bændurnir fóru á milli bæja og byggðu hlöður fyrir hvorn annan.

En mesta hjálpin á ögurstundu kom frá mömmu og æskuvinkonunum úr Hjaltastaðaþinghá. Það er það sem ég hef alltaf sagt, það er bara eitthvað við þessar Þinghárkonur, kynslóð eftir kynslóð.

fyrir video-297

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *