Það helsta sem er í fréttum.

Ég var að velta fyrir mér hvort þið væruð að velta fyrir ykkur hvað væri að frétta af mér? Svona persónulega og nýlega.

Það helsta er að ég sagði upp áskriftinni að líkamsræktastöðinni minni um daginn. Níu ára trúnaði er lokið og tilheyrandi peningajóstri. Þetta var stórt skref sem var tekið til að létta á samviskunni sem hefur þjáðst af krónísku samviskubiti í fleiri mánuði yfir að vera að borga tvöhundruðkall á mánuði fyrir stundum, í mesta lagi eitt skipti. Þetta skref átti að fjarlægja samviskubitið. Það gerði það ekki. Ég fékk bara nýtt samviskubit. Yfir að gera ekki neitt. Nema fara í göngutúra með Vask. En þeir breyta litlu. Hjartað slær ekki hraðar né reyni ég á mig. Síður en svo. Í þessum göngutúrum eru haldnar pásur á um það bil 20 metra fresti. Til að þefa eða pissa eða það þriðja. Þetta er engin áreynsla. Sem er reyndar allt í lagi því þá svitna ég ekki á meðan, né verð rauð í framan. Hvorugt fer mér.

Auk göngutúranna geri ég líka hnébeygjur á meðan ég tannbursta mig eða blæs á mér hárið (eitt af góðu ráðunum frá Tinnu). Þær eru heldur ekki að gera neitt fyrir mig. Kannski af því að fimm hnébeygjur tvisvar í mánuði flytja engin fjöll.

Ég ákvað líka að segja upp ræktinni til að fjarlægja það sem hvorki er áhugamál né nauðsyn, af prógramminu. Sólarhringurinn minn er of stuttur.

Sérstaklega eftir að Fúsi minn var kyrrsettur af því opinbera. Nú með alvöru alvarleg og opinber íþróttameiðsl. Það er frekar svalt. Tyggið aðeins á þessu; íþróttameiðsl. Minnir mig á uppáhalds íþróttamanninn minn, David Beckham. Er hann annars ennþá að spila með Man. utd.? Þessi íþróttameiðsli þýða að Vaskur hinn ofvirki er minn. Ég þarf að vakna tuttugu mínútum fyrr á morgnanna og áður voru þeir slæmir, nú eru þeir hrikalegir. Ég var alltaf á síðustu stundu áður, þið getið rétt ímyndað ykkur hvernig þetta er núna. Á mánudaginn var ég næstum því köfnuð því ég hjólaði svo ofboðslega hratt í vinnuna og borðaði of gamalt og þurrt rúgbrauð á leiðinni. Ég hafði ekki tíma til að tyggja og reyndi því að gleypa það í mótvindi, ég ætti að þakka fyrir að vera á lífi. Á þriðjudaginn fór ég í „hundaskónum (ljótir eccoskór sem þola allt) í vinnuna, ég gleymdi að skipta eftir að ég kom inn með hundinn. Þetta var í annað skiptið á fáum dögum sem ég mætti á stað þar sem þessir skór pössuðu EKKI við. Á miðvikudaginn klæddi ég mig úr fötunum í búningsherberginu og fór í hjúkkubúninginn að ofan og í skóna. Fann þegar ég opnaði fram á gang að það gustaði. Ég var bara á brókinni. Á fimmtudaginn þegar ég sléttaði á mér hárið, klemmdi ég sléttujárnið utan um eyrað á mér. Hafið þið prófað álíka? Ég bara spurði.

Nei ræktin verður að sitja á hakanum. Vinnan gengur fyrir, maturinn fellur ekki af himnum ofan eins og laufblöðin þessa dagana. Og ekki étum við laufblöð. Skólinn gengur líka fyrir, hvort sem mér líkar betur eða verr. Ekki fær maður að vera vanviti í vinnunni. Vaskur gengur fyrir, við hugsum vel um dýrið. Áhugamálin og félagslífið ganga líka fyrir. Ekki dytti mér í hug að svelta sálina.

Ég sameinaði þetta tvennt síðastnefnda í gær.

Við Ágústa fórum í búðarráp í gærí hinar ýmsu endurnýtingarbúðir svo sem Rauða Krossinn og Kirkens Korshær. Það eru svo mörg þemu framundan. Okkur vantaði m.a. hálfsítt og fölgult pils. Ekki það að búðarráp sé áhugamál. Nei guð minn góður, biðjið fyrir ykkur. Eitt af áhugamálunum er að gera skemmtilega hluti í skemmtilegum félagsskap. Já við fórum líka á kaffihúsið Kisling´s. Maður verður svo soltinn í búðum.

Við fórum í fjórar búðir. Í tveimur var okkur boðið á bakvið í VIP herbergið. Það er skemmtilegast. Það eru nefnilega VIP herbergi í flestum svona búðum. Bara ekki allir sem fá aðgang. Manni líður eins og maður sé eitthvað sérstakur í endurnýtingarbúð og getur farið úr fötunum og klætt sig í föt innan um öll fötin með einka spegil án þess að fara inn í mátunarklefa.

Við fundum fölgult pils. Sem breytti annarri okkar í glansandi og heiðgula rúllupylsu (ég læt ekki koma fram hvor okkar það var) og því þarf eitthvað að eiga við pilsið.

Og gæða tertudisk sem vegur 1874 grömm. Örugglega kristall. Ég keypti hann því ég fékk enga tertudiska í afmælisgjöf… afhverju ekki???

IMG_1898

Ég rak líka augun í kjól og eftir að hafa mátað hann í VIP herberginu, greip ég hann með mér ef ske kynni að einhver gæti einhverntímann notað hann. Þegar heim var komið var mér gert grein fyrir að þetta væri enginn venjulegur kjóll. Sá gamli sagði að ég yrði að hafa Hringadrottinssöguþema einn daginn. Kjóllinn væri gerður úr mithril stáli og væri í stíl við vestið sem Frodo var alltaf í. Líklega eitthvað kraftavesti. Gerði hann ósýnilegan. Eða gerði honum kleift að fljúga eins og fugl. Hvað veit ég. Ég sofnaði yfir myndinni í flottasta bíói Norðurlandanna (árið 2001) og ENGIN úr fjölskyldunni hefur getað fyrirgefið mér það. Kommon, sætin voru mjög þægileg. Og í alvörunni, ekki hefur mér dottið í hug að horfa á einhverja dverga vera að leita að einum hring í þremur löngum bíómyndum. Ég á víst nóg með að leita að mínum eigin hring.

Allavega, kjólinn. Hann er frekar cool og við erum bæði mjög ánægð með hann. Fúsi bað mig um teppi því ég neitaði að loka gluggunum. Hann segir að ég búi ekki í helli. Nei það geri ég ekki, einmitt þessvegna þarf ég að opna gluggana. Til að deyja ekki úr súrefnisskorti.

Hann fékk ekki teppi. Hann fékk bara kjólinn…IMG_1918

Ég hlýt að geta notað hann einhverntímann.

Síðan gaf ein konan úr einni búðinni mér grófprjónað sjal. Því okkur vantar sjöl fyrir næsta Pink Ladies viðburð. Ég rak svo augun í annað sjal og hún sagði að það væri svo vel prjónað að ég yrði að borga smá fyrir það. Það passar fullkomnlega við nóvemberþemað. Það sá ég þegar Vaskur mátaði það.

IMG_1927

Vaskur, stilltu þér upp eins og þú sért manneskja með sjal. Hann gerði það. Augljóslega.

IMG_1937

Vaskur, vefðu þig inn í sjalið. (Getið þið látið ykkar hund vefja sig inn í sjal?)

IMG_1945

Síðan sá hann að Fúsi var að borða spínat.

IMG_1947

Borðar ykkar hundur spínat?

Í dag er gleði og glaumur frá kl. 11.00-morguns. Kvennadagurinn er í dag. Sá eini sanni. Ég þarf að gera fimm hnébeygjur á eftir, því ég ætla að vera í svo þröngum buxum í kvöld.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *