Talandi um góða helgi!

Þessi helgi er búin að vera frábær. Svo mikið stuð og heilmikið hlegið.

Föstudagurinn byrjaði með að Svala litla hélt fyrirfyrirpartý heima hjá okkur. Þær elduðu saman, máluðu sig og greiddu og klukkan 18.30 skutlaði ég þeim í fyrirpartý annarsstaðar í bænum. Síðan fóru þær í hið árlega Rave partý í skólanum. IMG_3912

Ég er mjög hrifin af fyrirpartýum, en þó hrifnust af fyrirfyrirpartýum. Þær eru svo yndislegar þessar 18 ára stelpur á fyrirfyrirpartýstiginu.

Í gærkvöldi var Þorrablótið. Fúsi vann 1 kg af sjávarsalti frá Kötlu í happdrættinu.

Ég endurtek; sjávarsalt frá Kötlu.

IMG_3934

Eitt kíló. Heppinn sá gamli.

24735145495_60c7a8e682_b

(Ljósmynd: Smári ljósmyndari í Sönderborg)

En það voru margir enn heppnari en hann í happdrættinu í gærkvöldi. T.d. þeir sem unnu vanilludropa frá Kötlu. Eða kardimommudropa frá Kötlu. Já eða appelsínudropa frá Kötlu . Þvílík hundaheppni þar! Örlæti Kötlu átti sé engin takmörk. Held meira að segja að það hafi verið möndludropar þarna líka. Og ef ég man rétt, smákökudeig síðan á jólunum. Fólk fór heim með fangið fullt skal ég segja ykkur.

Blótið var mjög skemmtilegt og vel heppnað að öllu leyti, nema það var heldur mikið vatnsbragð af hrútspungunum sem gerði það að verkum að þeir urðu hálf leiðinlegir. 24616107672_1f97c10e3e_b

(Ljósmynd: Smári ljósmyndari í Sönderborg)

Þau ykkar sem eruð með mig á snappinu álítið líklega að um ölvun hafi verið að ræða á tímabili. Það er hinn mesti misskilningur og snappið að mestu leyti sviðsett. Ágústa þambaði t.d. ekki úr rauðvínsflöskunni í alvörunni. Og fyrst ég er að minnast á Ágústu þá verð ég nú að segja ykkur frá því að hún svaf í brjóstahaldaranum sínum í nótt því hann var splúnkunýr og hún svona ægilega ánægð með hann. Sem minnir mig á frænda minn á Seyðisfirði sem fékk einu sinni kuldagalla í hermannalitunum og gummístígvél í jólagjöf og svaf í þessu öllu öll jólin og langt fram yfir áramót. 24640044621_4f18a553b6_b

(Ljósmynd: Smári ljósmyndari í Sönderborg)

Það var það gaman að ég talaði heilmikið við þennan um húsauppgerðir. Umræðuefni sem ég meika bara ekki að öllu jöfnu því það er svo þurrt. En í gær var það fínt. Þessi er frá Ísafirði, Önundarfirði eða Patreksfirði og er nýbúinn að rífa veggfóður af veggjunum í húsinu sem hann var að kaupa. Veggfóðursniðurrifið gekk bara vel.

Ég vaknaði síðan eldhress í morgun. Jafn hress og á myndinni að ofan. Alveg skælbrosandi eftir skemmtilegt blót. Það eina sem þvældist fyrir mér og þvælist enn er hvort ég skulda einhverjum fyrir leigubíl. Maður vill nú taka þátt í kostnaðinum. Nema ég hafi ekki tekið leigubíl? Ég er með blöðru á fætinum sem bendir til þess að ég hafi mögulega gengið heim.

Deginum í dag var svo eytt í vöfflukaffi með tilheyrandi upprifjun og hlátursköstum. Ásamt því að fara í sjóinn og í sauna þar sem við svældum ethanólið út úr líkömum okkar í það miklu magni að hefði AA kona gengið inn, hefði hún kolfallið við fyrsta andardrátt.

Lifið heil.

P.s. Snappið er Alrun (Dagný Sævars)

Trackbacks & Pings

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *