Hvers vegna fer ég ekki í dýragarða?

Né í cirkus þar sem villt dýr eru notuð til skemmtunar? Hvers vegna myndi ég aldrei á ævinni fara í útreiðartúr á fíl á ferðalagi um Thailand eða synda með höfrungi í Flórída? Eða láta taka mynd af mér með tígrisdýri? Mögulega kallið þið mig öfgafulla en lesið nú samt áfram. 

Ég hef farið í hefðbundinn dýragarð (Zoo) 3svar sinnum. Síðast var árið 2002. Síðan hefur mig ekki langað. Ég man að við sáum dýr í búri og á skiltinu stóð að það gæti stokkið fleiri metra upp í loftið. Mikið hærra en hæð búrsins var. Fyrir hálfu ári síðan fórum við í Blue planet í Kaupmannahöfn. Ég hélt að það væri í lagi eftir að hafa rennt yfir heimasíðuna þeirra. Svona getur maður nú verið vitlaus en þangað inn fer ég heldur aldrei aftur. Ef mig langar að sjá risaskötur eða hákarla, kveiki ég bara á Netflix og horfi á dýralífsþátt sem er tekinn upp í náttúrulegum heimkynnum dýranna. Í þeim þætti synda þau ekki í hringi í agnarsmáum búrum alla sína ævi.

Villt dýr í skemmtanabransanum eru ekki tamin dýr (domesticated animals). Tamin dýr eru húsdýr; hundar, hestar og kýr m.a. Þessi dýr hafa breyst erfðafræðilega í gegnum aldirnar og því er ofbeldi óþarft við tamningu þeirra.

Tökum fíla sem dæmi. Þessi fallegu og mikilfenglegu dýr.

Fílar í skemmtanabransanum (cirkus, fílareiðar osfrv.) eru oftast nær hlíðnir og meðfærilegir. Hvers vegna? Jú vegna þess að þeir eru teknir frá móður sinni þegar þeir eru nýfæddir og beittir kerfisbundnu ofbeldi til að bæla þá andlega niður. Þeir eru lokaðir inni í litlum búrum, sveltir og barðir með beittum málmkrókum til sífellt að minna þá á hver ræður. Með þessu verða þeir undirgefnir. Hafiði kannski heyrt um svona mynstur áður? Kannski á meðal mannfólksins?

Fílar í dýragörðum lifa styttra en fílar sem þræla við timburdrátt alla sína ævi í Myanmars í Asíu. Það er þekkt að dýragarðsfílar eru almennt þunglyndir. Ungfíladauði er líka algengari í dýragörðum heldur en í náttúrunni. Mögulega vegna þess að kýrnar eru oft undir miklu álagi (vegna plássleysis, áhorfenda og flutninga), sem berst yfir í fóstrið og veldur dauða á kálfunum. Ef þeir lifa af, þá hefur þetta álag móðurinnar áhrif á kálfana langt fram á fullorðinsaldur. Að vera undir miklu og neikvæðu álagi til lengri tíma veldur auðveldlega þunglyndi. 

2015-03-05_Circus_Elephant_Original

Þarna sést fíll standa á nefinu og tveimur fótum. Þetta er mjög óeðlileg stelling fyrir þá og alltof mikil þyngd á tvær fætur.Fílar myndi ALDREI setja sig í þessa stellingu sjálfviljugir. Þeir eru heldur ekki byggðir til að bera eitthvað á bakinu þótt þeir séu sterkir. Afleiðingarnar: verkir og sár á baki.  

Tígrisdýr og ljón búa einnig við bágar aðstæður í samt flottustu dýragörðunum. Til spari er kastað til þeirra gíraffakálfi í 4 hlutum sem þau geta gætt sér á. Fyrir augum almennings sem truflast yfir mannvonskunni á kálfinum. Þarna er ég að vitna í stóra Maríus málið í dýragarðinum í Kaupmannahöfn, þar sem gíraffakálfi var slátrað og hann gefinn ljónunum. Almenningur vill ekkert verða vitni að þessu. Sumir virðast halda að villt kattardýr borði gúllas úr kaupfélaginu og með því salat úr fíflum og sóleyjum.  Þetta er ekki það versta. Stór kattardýr verða sífellt vinsælli ferðamannaskemmtun þar sem vinsælt er að fá að halda á t.d. tígrisdýraunga og ég tala nú ekki um að taka selfie með fullvöxnu stórhættulegu dýri. Ungarnir eru teknir frá mæðrum sínum og síðan beittir kerfisbundnu ofbeldi þangað til þeir eru orðnir það meðfærilegir til að við getum meðal annars tekið mynd af okkur með þeim. Valerie-and-Griffin-at-Tiger-Temple-1

Þarf þarf engan stjarneðlisfræðing til að geta sér til um að þessum dýrum líður ekki vel. En ferðamaðurinn er hamingjusamur… það er virðist fyrir öllu.

Að auki er sáralítið opinbert eftirlit með dýrum í þessum bransa. Alltof algengt er að þau „vinni“ í ferðamannabransanum tímunum saman, án þess að fá vott né þurrt og fæðan er oft of einhæf. Mörg eru þau líka hlekkjuð tímunum saman í steikjandi sólskini án þess að hafa möguleika á að fara í skugga.

Í sumum löndum tíðkast að troða upp með björnum. T.d. að binda þá fasta og láta sérþjálfaða bardagahunda ráðast á þá við mikinn fögnuð viðstaddra. Eða að láta þá dansa. Þeir læra nefnilega að „dansa“ með því að standa á  glóandi kolum og um leið kippir eigandinn í hringinn sem er í nefinu þá þeim. Birnirnir tengja þetta tvennt og því er nóg seinna meir að kippa í hringinn í nefinu og þeir dansa.1115bear5

Talandi um birni, þá er Anturo, þunglyndasti ísbjörn  í heimi allur. Anturo fæddist í Bandaríkjunum árið 1985, var fluttur til Argentínu 1993 og dó núna í júlí 2016. Hann bjó í dýragarði þar sem hitinn var oft um 35-40 gráður og sundlauginn hans var 50 cm djúp. arturo

Hvaða leyfi höfum við mannfólkið til að flytja ísbjörn til Argentínu? Eða til Kaupmannahafnar til þess eins að græða peninga á honum? Það eru ansi litlar líkur á að ísbirnir hafi gaman af að ferðast fljúgandi, siglandi eða akandi.

Við mannfólkið erum frábrugðin dýrunum að því leyti að við getum hugsað. Eins og núna, við hugsum um hver munurinn sé á okkur og þeim. Dýr skynja, þeim líður. Vegna þess að við getum hugsað, getum við gert það sem okkur sýnist með dýrin og leyfum okkur það. Við getum farið á fílabak á niðurbrotnum fíl, glápt á risaskötu synda hring eftir hring í litlu fiskabúri, tekið selfie með hlekkjuðum tígrisdýrum og eytt heilum degi í dýragarði innan um innibúruð dýr sem kveljast á margan hátt, til þess eins að við getum gengið um með candy floss og frætt börnin okkar um villtu dýrin í Afríku! 

Við förum frekar ílla með það vald sem við höfum og drottnum þess vegna með virðingarleysi yfir dýraríkinu. 

Fari það grátbölvað. 

Og hér var bara stiklað á stóru um dýrin í skemmtana og ferðamannabransanum! Ég kom ekkert inn á gæsadún (það er hægt að reyta lifandi gæs 5 sinnum) né Canada Goose úlpurnar eða annað sem heldur hita á okkur mannfólkinu. Það finnast aðrir möguleikar.

En til að leggja okkar af mörkum þá eru eftirfarandi punktar góðir til að minna okkur á hvað við sem einstaklingar getum gert til að sporna við þessu:

  • Aldrei að ríða á villtu dýri
  • Aldrei að synda með villtu dýri
  • Aldrei að fara í dýragarð til að skoða þunglynd villt dýr
  • Aldrei klappa, halda á eða faðma villt dýr
  • Aldrei að þvo villtu dýri
  • Aldrei að teyma villt dýr
  • Aldrei að horfa á villt dýr dansa, stunda íþróttir, sýna listir sínar, fá nudd eða mála myndir.  

Hér er linkur á ensku sem hleypur yfir það helsta.

(Feitletruðu orðin í færslunni innihalda linka á síður máli mínu til stuðnings. Heimildirnar eru þó ekki sannaðar vísindagreinar, en þarf þess? Er þetta ekki bara svolítill kommon sens?)

Trackbacks & Pings

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *