Aldís í Le Vesinet

Það var nú á vormánuðum að Aldís ákvað að fara til Frakklands sem au-pair. Komin með nóg af botnlausri vinnu í þjónustuveri og enn óákveðin hvað gera skyldi við stúdentsprófið. Í lok júní hófst leitin að fjölskyldu og eftir nokkra daga og tugi skype-símtala var fjölskyldan í höfn.

Brottfarardagur var fimmtudagurinn 25. ágúst.

Viku fyrr eða 17. ágúst, byrjuðu vinnufélagar mínir að spyrja hvort Aldís væri byrjuð að pakka.

Ég sagði: „hey, hún fer eftir viku…“

Já nei nei, vinnufélagarnir töldu að hún þyrfti að fara að byrja að pakka. Niðurpökkun fyrir ferðalag tekur nefnilega tíma. Danir eru tímanlega.

Við mæðgur erum almennt algerlega ósammála Dönunum. Maður pakkar kvöldið áður eða samdægurs fyrir venjuleg ferðalög. En að mínu mati þvær maður þannig að það sé þurrt daginn fyrir brottför.

23. ágúst var allt útlit fyrir að þvottavélin gæfi upp öndina þann daginn. Ég spurði Aldísi hvort hún vildi ekki þvo eina vél áður en dauðastríðið hæfist.

Nei nei, það þótti henni alger óþarfi.

Vélin dó síðan um miðjan dag.

Æskuvinkona Aldísar og nágranni, bauð henni að nota vélina þeirra seinni partinn. Aldís afþakkaði það og taldi sig hafa nógan tíma til að þvo, þurrka og pakka eftir að nýja þvottavélin kæmi.

Daginn eftir var komin ný þvottavél um hádegi. Ég kom heim úr vinnunni kl. að verða fjögur og þá var Aldís ekki heima. Hún var búin að setja tvo hluti í töskuna. Hárblásara og sléttujárn. Hún var ekki byrjuð að þvo.

Ég snappaði!!!

(Þegar Aldís sat pollróleg og horfði á trailer, gat ég bara ekki meira og henti frá mér símanum. (Ég veit ósköp vel að maður tekur video lárétt. En þetta er snapchat og það er oftast tekið lóðrétt og ekki meiningin að geyma það fyrr en maður rekur augun í notagildi story’sins)).

Um kvöldmatarleytið var loksins sett í vél. Og hengt út. Þangað til áfallið kom. Þá var tekið inn og hengt upp inni. Síðan hvarf daman aftur út í bæ…

Klukkan tíu um kvöldið höfðu tveir bolir og ein peysa bæst við í töskuna. Aldís átti að leggja af stað til Frakklands upp úr hádegi daginn eftir. Hún var að pakka fyrir fjórar árstíðir.

Ég viðurkenni alveg Fúsalega að þarna hitti skrattinn ömmu sína. Ég er nefnilega alltaf á næstsíðustu mínútu með að pakka og vanalega of sein þangað sem ég er að fara.

Jæja, það var ákveðið að Aldís kæmi að sækja mig á Gjörið klukkan hálf eitt daginn eftir og að við færum beint til Hamburg. Ég var viss um að hún kæmi á tveimur ískrandi fyrir hornið. En nei, hún skrifaði sms rétt rúmlega tólf um að hún biði fyrir utan. Aldís er aldrei of sein. Eitthvað sem ég átti að vita. Ég átti líka að vita að hún hafði yfirdrifinn tíma til þess að pakka. Það mætti halda að ég þekkti hana ekki neitt.

Við lögðum svo af stað til Hamburg í 30 stiga hita með bilaða loftkælingu í bílnum.

Við skiluðum Aldísi af okkur án tilheyrandi táraflóðs og annarskonar tilfinningalegum uppákomum, einmitt vegna þess að þetta ferðalag var að öllu leyti gleðilegt fyrir alla aðila.

IMG_6400

 

IMG_6408… og héldum heim á leið.

Þegar heim kom, byrjuðu sms-in að berast. Hún var þá að lenda í Paris. Orðin yfir sig spennt og stressuð að hitta fjölskylduna.

Fyrra sms-ið: Er lent og bara að bíða eftir að komast út úr vélinni…

Seinna sms-ið: Stend bara við bandið og bíð eftir töskunni…

(Aldís er ekki vön að senda slík sms enda þaulvön að ferðast og fljúga. Þegar hún var í Indlandi í 14 daga, töluðum við við hana einu sinni).

Síðan heyrðum við ekki bofs eftir að hún hitti fjölskylduna.

Fyrr en seint um kvöldið. Þvílík dásemdar skilaboð sem bárust okkur þá:

Er komin til fjølsk og thad er geggjad!! Rosa flott hus og gedveikur gardur. Mamma og pabbi Samuels eru i heimsokn, og thau tala ekki mikid ensku. Enn allir eru svo godir og børnin eru svo sæt og mjøg skemmtileg. Vid fórum ad synda i sundlauginni ådan og mjøg gaman. Fengum rosa godan mat. Er ad fara sofa nuna og Emmanuelle er ad fara vinna a morgun, og hun sagdi ad eg gæti bara verid i ‘fri’ å morgun, og sofid lengi. Hun taladi um ad eg gæti farid med børnin og skodad bæinn. (Birt með leyfi Aldísar)

Við höfum heyrt einu sinni í Aldísi í þessa tæpa viku sem hún hefur verið þarna og lét hún ljómandi vel af sér.

Hún býr í smábænum Le Vesinet sem er 16 km frá miðbæ París. Le Vesinet er eitt efnaðasta sveitafélagið í nágrenni Parísar og segir Aldís að það sjáist greinalega á göngu um bæinn. Hér er lítið sýnishorn.

Húsið sem hún býr í er mjög stórt, með sundlaug í garðinum og stóru öryggishliði við innkeysluna. Eitthvað sem við erum ekki beinlínis vön hér í Sönderborg.

Á morgun byrja hún og börnin í skólunum. Aldís í frönskuskóla og börnin í grunnskóla.

Annars er öll fjölskyldan að fara til Cape Ferret um helgina. Heldur Aldís. Hún er nefnilega ólík mér að því leitinu til að hún hefur alls engan áhuga á hvorki landafræði né örnefnum. Og finnst ekki skipta máli hvert hún er að fara. Hvort hún sé að fara að liggja á strönd við Miðjarðarhafið eða Atlantshafið… Foreldrarnir sjá hvort eð er um allt. Hún þarf bara að pakka… Síðan er hún farin að bera staðar og bæjarnöfn fram á svo fullkominni frönsku að ég skil hana ekki. Hún segir t.d. ekki Paris, heldur Bagrí… En þó hef ég fundið út eftir krókaleiðum, að hún sé að fara til Cap Ferret að gleypa ostrur.

Þvílíkt sældarlíf! Mikið samgleðst ég henni!

-Aldísar snapchat: aldissigfusar

-Mitt snapchat: alrun

 

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *