„Núll kynslíf“
Vinkona Svölu var hérna í gær og ég var eitthvað að tala við hana. Síðan fer ég inn í stofu og þá spyr Fúsi hvort Selma Björg (já hún er hálf íslensk) sé farin að tala við mig aftur? Ég sagði bara: „ha, afhverju ætti hún ekki að tala við mig?“
Þá fór Fúsi að rifja upp nóttina góðu í vetur þegar Svala kom heim með vinkonur sínar og þar á meðal Selmu og leyfði þeim að gista og ég rumskaði. En áður ég segi ykkur nánar frá þessari nótt, þá ætla ég fyrst aftur í tímann.
Hjónalíf okkar Fúsa hefur, alveg frá því að stelpurnar hættu hjá dagmömmu, verið á… tja hvað ætti maður að kalla þetta…? á hlédrægu nótunum? Já, svona kæft, lágvært, engar snöggar hreyfingar. Yfirvegað. Undir kontról.
Við bjuggum oft í litlum íbúðum þar sem hver einasti andardráttur heyrðist á milli þilja.
Síðan gerðist það, að í einhverju bríeríi eina nóttina, héldum við að dætur okkar, sem voru orðnar stálpaðar, væru ekki sofandi heldur alveg meðvitundarlausar. Skil ekki enn þann dag í dag hvers vegna við héldum það.
Daginn eftir var haldinn fundur. Hann var stuttur og laggóður. Svala litla sem hafði boðað til fundar og þar með fundarstjóri, sagði: „núll kynslíf í þessu húsi á meðan við Aldís búum í því“ og svo barði hún í borðið. Punktur. Fundi slitið. Og já, hún sagði kynslíf. Hún var bara 4ja ára þegar hún flutti erlendis og á það til að setja eitt og eitt s inn í sum orðin. Aldís flissaði að henni en studdi hana jafnframt líka.
Aldís er sú blíða og rólega af þeim tveimur.
Okkur Fúsa datt ekki í hug annað en að hlýta þessum heimilislögum enda hefur okkur verið mikið í mun að halda friðinn og lifa í sátt og samlyndi með dætrum okkar þar til þær hunskast að heiman.
Svo í vetur fór Svala í bæinn og bauð síðan næstum öllum á Buddy Holly gistinu (þannig líður mér stundum en þetta eru afleiðingarnar af að búa í miðbænum).
Þær komu heim og gengu ágætlega hljóðlega um, nema hvað, ég rumskaði. Og eftir því sem Fúsi segir, fór ég að teygja úr mér á afar hávaðasaman hátt, með tilheyrandi stunum, rumum og látum. Ég er ekki vön að teygja úr mér í svefni en þarna teygði ég og teygði úr mér. Alveg þangað til það var hrópað: „viljiði gjöööra svo vel!!!“ og hurðinni á herberginu okkar var skellt aftur af öllum kröftum þannig að dyrakarmurinn klofnaði endilangt. Ég man eftir skellinum, dauðbrá, reis upp og spurði Fúsa hvað hefði eiginlega gerst. Mér varð strax ljóst að þetta var eitthvað sem ekki var hægt að reyna að verja né útskýra. Ég meina, hver teygir sig í svefni?
Þetta er Svala, hússtjóri á Möllegade 21.
Daginn eftir yrti Selma Björg ekki á mig, heldur flýtti sér út eins og skrattinn væri á hælunum á henni. Hún átti erfitt með samskipti við mig í langan tíma á eftir, ég var bara búin að gleyma því þangað til Fúsi minnti mig á það í gær.
(Myndirnar voru teknar í Treviso á Ítalíu vorið 2015.