„Over Vidden“ í Bergen.

Eitt af því besta við Noreg er að landið er ekki flatt. Og allra síst í Bergen þar sem fjöllin umlykja bæinn og valda ómældum rigningum sem öllum er sama um því að Bergenesar þornar á milli skúra. Þeir klæða sig bara í regnföt. Eða ekki. Sumir hjóla í sínu fínasta pússi með regnhlífar. Þrátt fyrir rigninguna virðast Bergenesar afar ánægðir með lífið og tilveruna. Þeir segja að það sé ekkert að veðri; „þú ættir að vita hvernig það er í Stavanger, þar stendur enginn uppréttur því þar er alltaf hífandi rok“.  Þeir virðast fullir orku og búa að einum mesta meðalgönguhraða sem ég hef séð. Þeir eru síhlaupandi við fót og þar skiptir engum togum hvort þeir séu að fara upp eða niður. Eðlilega hlaupa þeir alltaf niður, enda annað ekki hægt þar sem brattinn er svo mikill en að hlaupa upp líka? Það skil ég ekki. Þeir eru líka ALLTAF på tur*. Þegar ég mæti á vakt á sjúkrahúsinu hefur ca 70% af samstarfsfólki mínu verið på tur i fjellet fyrir örfáum klukkutímum.

Þegar ég er í Noregi, reyni ég líka að fara á fjallið. Og þá er Bergen best fallið til þess því að Haukeland og Haraldsplass sjúkrahúsin eru staðsett við rætur Ulriken sem er hæsta bæjarfjallið (643m). Vinnuferðin í byrjun ágúst er með þeim lengstu sem ég hef farið í á vegum Powercare og því batt ég miklar vonir um að komast almennilega á fjallið núna. Í fyrri vikunni átti ég einn frídag og þá rigndi. Í seinni vikunni átti ég líka einn frídag og þá var spáð góðu og ég vaknaði í sól. Ég hafði skoðað hinar ýmsu gönguleiðir og valdi þá lengstu. Sú leið er frá Ulriken, over Vidden og til Fløyen, eða öfugt. Það er gefið upp að hún sé 18km.

Það er hægt að taka „banann“ upp á Ulriken til að auðvelda sér byrjunina en ég ákvað strax að vera ekki auli, heldur hlaupa upp stystu leið og þar með snarbrattar hlíðar fjallsins. Sólin skein. Þangað til ég fór að nálgast toppinn, þá brast á þoka. Og rok. Skyggnið var svo slæmt að þegar ég kom upp á toppinn og stóð hjá fánastönginni sá ég ekki fánann upp í henni. Uppi á Ulriken er veitingarstaður og bar. Ég sá ekki annan kost í stöðunni en að setjast við barinn og kaupa mér kaffi og vonast til að það myndi létta til aftur. Þarna sat ég, sötrandi og kjökrandi yfir veðrinu sem virðist elta mig þegar ég er annarsstaðar en í Danmörku. Þoka, rok, hraglandi, hríð…

(Myndin er tekin í desember 2015 í vondu veðri uppi á Ulriken)

Kaffibolla og klukkutíma seinna, reif hann þetta af sér (Ulriken) og ég hélt af stað. Það var ekki eins og ég hefði allan daginn. Ég var að fara á næturvakt og þurfti því að flýta mér enda tók ég framúr öllum sem voru þarna og enginn tók framúr mér. Það var reyndar ekki margt á fjallinu þennan daginn, sem betur fer, mér leiðist óskaplega að ganga „með“ ókunnugu fólki. Asi þessi orsakaði vægan snúning á ökkla (er svo laus í ökklanum eftir körfuboltaferil minn fyrir nokkrum árum síðan, þar sem ég trassaði alltaf að kaupa körfuboltaskó og fór tvisvar á slysó með snúinn ökkla) og smávægilega tognun í baki því ég var alltaf rennandi til og frá og reyndi hvað ég gat til að afstýra falli því ekki vildi ég skíta mig út. Ég þurfti að taka strætó heim. Gönguleiðin er fjölbreytileg, falleg og skemmtileg, brött á köflum (eiginlega bara Ulriken) en ójöfn. Stígurinn er nefnilega þannig að það er sjaldan hægt að sleppa því að horfa hvar maður gengur því hann er grýttur með tilheyrandi forarpyttum og á köflum; hálfgerðum stöðuvötnum sem þarf að stikla á steinum yfir. Vötn þessi myndast vegna rigninganna.

Ég bölvaði sjálfri mér í sand og ösku fyrir að hafa skilið myndavélina eftir heima í Danmörku en ég varð að forgangsraða í farangrinum á þessu ferðalagi. Aftur á móti getur líka verið kostur að vera myndavélarlaus því þá fer maður hraðar yfir því maður er ekki sístoppandi til að taka myndir.

Samt komst ég í tímaþröng. Merkilegt nok. Helsta skýringin á því var að þegar fór að síga á seinni hluta göngunnar nennti ég ekki að labba meira. Fann að ég var að fara í fýlu og til að fyrirbyggja einhverja óþarfa geðvonsku, leyfði ég mér að detta í skemmtilega dagdrauma. Það er oft mín leið til að láta mér ekki leiðast. En dagdraumar eru ekki alltaf það skynsamlegasta í þessum aðstæðum. Ég fór tvisvar útaf stígnum og endaði í u.þb. 22ja km langri göngu í stað 19km.


Ofarlegar í textanum var lítil stjarna * þar sem stendur på tur og á dönsku þýðir på; á. Hún var til að minna mig á litla sögu sem ég hef reyndar sagt ca 1000 sinnum en mér finnst hún alltaf góð.

Svala var snemma læs og skrifandi á báðum tungumálum en byrjaði líka snemma að blanda þeim saman.

Dag einn þegar hún var í 6 ára bekk og ég kom að sækja hana í skólann höfðu þau verið í göngutúr. Svala hafði verið svo hugulsöm að skilja eftir skilaboð til mín á risastórri krítartöflunni ef ég skildi nú koma á meðan þau væru úti. Hún hafði skrifað þau á íslensku og kennaranum hefur líklega fundist þetta mjög flott hjá henni.

Á risastóru töflunni stóð með risastórum hástöfum: „ÉG ER Á TÚR. SVALA

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *