Af sambýlingum og öðrum spes.

Sambýliskona mín núverandi er fullkomin. Við erum eins og sniðnar hvor fyrir aðra. Hún er ljósmóðir, svarthærð, svipuð há og ég. Þegar ég heilsaði henni með handarbandi, fann ég að hún átti vel við mig. Handabandið var afar slappt, eiginlega loftkennt. Að öllu jöfnu þoli ég ekki slík handabönd en í einstaka tilfellum fíla ég þau, vegna þess að þau benda til að manneskjan sé kannski hlédræg. Við kynntum okkur með nafni en ég heyrði ekki nafnið hennar, hún var nefnilega svo þreytt að hún gat ekki talað. Hún stundi fáum orðum útúr sér á máttleysislegan hátt á fimmtudagskvöldið síðastliðið og skjögraði svo á næturvakt. Mín vegna var það í lagi, ég þarf ekki að vita hvað hún heitir. Við kynntum okkur bara af einskærri kurteisi. Ég beið eftir að hún væri komin áleiðis niður götuna og fór síðan sömu leið. Vorum greinilega báðar sammála um að það væri ekkert vit í að vera samferða upp á sjúkrahús. Síðan hef ég ekki séð hana. Við högum okkur báðar eins og mýs, skjótumst ofan í holurnar okkar við minnstu hreyfingu og hvæsum ef einhver nálgast opið á holunni.

Þarna bý ég, þetta er ein af tveimur íbúðum sem vinnan ræður yfir í Stavanger. 

Einn morguninn þegar ég kom útaf sjúkrahúsinu, blasti við snjór allsstaðar, í bæ þar sem nánast aldrei snjóar. Umhverfið í kringum sjúkrahúsið líktist ævintýralandi, þar sem allt er upplýst og tré á hverju strái til að taka við snjónum. Ég gleymdi alveg að taka mynd. En tók tvær á leiðinni heim. Ég elska snjó.  

Ég hef áður greint frá samskiptum mínum við vinnufélagana sem eru í afleysingum eins og ég. Hér er líklega grófasta dæmið en það var sambýli mitt við Sullustelpu (hún kallaði sig þetta sjálf og var að eigin áliti, gyðja). Sullustelpu hef ég ekki orðið vör við aftur, mig minnir að hún hafi sagt að hún yrði mestmegnis í Tromsø fram að jólum. Það hentar mér vel að hafa 2293km á milli okkar. Eða um 28 tíma í keyrslu. Ef hún kemur aftur of nálægt mér, ætla ég að setja laxoberal dropa (hægðarlyf) í kaffið hennar með góðri samvisku. Það verður mín hefnd fyrir að hafa eyðilagt líf mitt í 4 daga með að því að þvinga mig til að drekka Sommersby.

Já, fólkið í afleysingum er jafn misjafnt og það er margt.

Um daginn var ég samferða einni í lyftu hérna í Stavanger, einni sem ég hef hitt annað slagið í Danmörku líka. Bæði á Gjörinu í Sönderborg og í Esbjerg þegar ég var þar. Þetta er ein af þessum týpum sem eru mér minnistæðar. Hún er yngri en ég, með ljósar krullur, stífar eins og gaddavír. eins og krullur í teiknimynd. Ég er 99% viss um að hún notar einhversskonar vír til að stífa þær. Þessar stífu krullur eru tamdar með allskonar spennum og klemmum og það eru einhverskonar blóm á þeim öllum. Allskonar glimmerblóm í öllum litum. Eða það er þóst reynt að temja krullurnar. Nokkuð margir lokkar fá að standa „villtir“ úti í loftið. Ég hef þekkt þessa konu í um 7 ár og hún hefur verið með sama flippaða hárstílinn í öll þessi ár. Jæja, við urðum samferða í lyftunni og vorum að fara að vinna saman. Hún er afskaplega indæl, geðgóð og krúttleg. Ekkert út á hana að setja. Ég tók eftir að vinnuskórnir hennar voru með silfurglimmeráferð sem skein, líka í myrkrinu. Á einhverjum tímapunkti í vinnunni, kom hún til mín og bauð mér í göngutúr með henni og hinum afleysingahjúkkunum. Við vorum víst fjórar þennan dag. Ég afþakkaði pent, sem var liður í að læra að segja nei og að halda mig fyrir utan svona uppákomur eins og felles göngutúra. Nú hugsa eflaust einhverjir með sér að ég sé félagsskítur af verstu gerð en nei, það er ekki málið. Málið er að það getur verið svo ótrúlega krefjandi að mynda ný tengsl sem maður veit að  verður ekkert úr, við fólk sem eiginlega skiptir mann engu máli. Allavega, það sýndi sig svo að krúttlega glimmerkrullan var ekki bara í silfurskóm í vinnunni, með glimmerspennur og klemmur útum allan haus, heldur átti hún líka pæjusilfurglimmerstígvél og silfurglimmersamfesting. Ég get svo svarið það. Ég sá hana standa í sjoppunni á sjúkrahúsinu einn daginn og hugsaði með det samme: átti David Bowie danska dóttur? Aldrei á ævinni hef ég séð svona mikið silfurglimmer á einum líkama, nema á David Bowie og Páli Óskari.

Síðan er það Svíinn sem ég hitti í Bergen um daginn. Við vorum á næturvakt saman á Brunaslysagjörinu og rétt heilsuðumst þá nóttina. Síðan skiptum við um föt í búningsherberginu og var hún svona tveimur mínútum á undan mér. Við bara kvöddumst… sov godt og allt það. Nema hvað, þegar ég kem út að lyftunni þá bíður hún þar og sagði að það væri betra að vera samferða heim.

Ég er ekkert rosalega sterk í sænskunni og þarf að leggja vel við hlustir ef talað er annað en gjörgæslumál. Eitthvað lítið var talað á leiðinni niður en svo fór að liðkast um tunguna á Svíanum á leiðinni út. Ég skildi mest lítið og sagði bara „A“, sem er það eina sem ég kann að segja á sænsku, lærði það af Sögu Nóren í þáttunum Broen.

Þennan morgun í Bergen var kvasst og hellirigning svo að ég dró hettuna upp fyrir haus og lokaði vel fyrir. Sem gerði það að verkum að ég missti nánast heyrnina. En Svíinn tók ekki eftir neinu og hélt áfram að tala og ég heyrði bara suð og sagði „A“ með ca. 10 sekúndna millibili. Það hlaut að passa.

Þangað til hún hrópar: „Queen Elisabeth!“

Ég: „undskyld?“ (svona; fyrirgefðu, hvað sagðirðu?)

Svíinn: „Hønen är jo jenta, så hon måste kallas Queen Elisabeth…“ (Hænan er stelpa svo hún verður að heita Elisabeth drottning).

Ég: „A“.

Þarna fór ég að velta fyrir um hvað í alverden konan væri búin að vera tala um… og gat ekki annað en hlegið.

Nóttina eftir vorum við aftur að vinna saman og að mati Svíans, þá höfðu myndast tengsl á milli okkar, því þegar hún var í pásu, kom hún inn á stofuna til mín. Því það var huggulegra að vera með mér í pásu. „A“ sagði ég. Síðan sátum við á sitthvorum stólnum, hún greinilega hafði ekkert að segja akkúrat þá og ég dinglaði bara fótunum og horfði á hana. Þangað til mér datt í hug að spyrja hvort sjúkrahúsið í Malmø væri háskólasjúkrahús. Ég hefði betur þagað. Því það losnaði stífla! Svíinn sagði mér nákvæmlega hvernig Malmø og Lundur hefðu haft hlutina frá því 1974 en þá hóf hún störf sem hjúkrunarfræðingur. Hún útskyrði nákvæmlega fyrir mér allar hagræðingar og breytingar í 41 ár.

„Og svo fluttist tórakskírúrgían til Malmö og í staðinn fékk Lundur njórókírúrgíuna og úrólógíuna. Fimm árum seinna fluttist gynókólógían og pedíatríen til Lundar en þá sagðist Malmø vilja fá magann í staðinn og fékk hann. Dr. Gustavson barði nefnilega í borðið… það var árið 1989…“ Í 45 mínútur útskýrði hún fyrir alla flutninga á deildum á milli þessarra tveggja sjúkrahúsa sem ég hafði akkúrat engan áhuga á. Alla flutninga frá 1974 til 2015 en þá hætti hún því þetta var orðið svo ruglandi. Ég minnti sjálfa mig á krakka sem þarf að sitja á stól en leiðist alveg óskaplega. Ég var farin að hanga á stólbakinu og gleyma að kyngja munnvatninu. Og velti fyrir mér afhverju ég sé alltaf í einhverjum skrítnum aðstæðum sem ég vil ekki vera í.

Þess vegna líkar mér afskaplega vel við sambýlinga með notast við loftkennd handarbönd og eru svo þreyttir að þeir geta eiginlega ekki talað.

Kveðja, ég í Stavanger.

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *