Desember 2017

Ég er svo tilbúin fyrir jólin. Svooo tilbúin. Desember hefur verið með hinu rólegasta móti og púlsinn arfaslakur. Ég stressaði mig ekkert á aðventukransi, kannski vegna þess að ég brenndi næstum kofann ofan af okkur í fyrra þegar ég bjó til Ittalaaðventukrans og kveikti á honum. En það var óvart. Hvernig gat ég vitað að málningin sem ég notaði til að mála svörtu kertin hvít (vegna þess að mig langaði í hvít kerti en átti bara svört) væri eldfim? Og að það væri ekki sniðugt að kveikja á kertunum á meðan málningin væri blaut? Og að glimmerið sem ég stráði yfir í kílóatali myndi orsaka eldglæringar. Ég gat bara ekki vitað það og þess vegna var það ekki mér að kenna að borðstofuborðið eyðilagðist næstum því vegna kertavaxs í lítratali þegar slökkva þurfti bálið með vatni sem fór víst ekki vel með málningunni. Fúsi varð rosalega fúll. Sem ég bara skil ekki. Mér fannst þetta svakalegt atriði og veltist um að hlátri (þegar ég áttaði mig á að engin, hvorki við né húsið væri í hættu). En Fúsi varð verulega fúll. Sagði að ég hefði gengið of langt í því að vera fyndin á Snapchat. Þetta var auðvitað snappgrín, glætan að ég hefði farið að föndra aðventukrans af alvöru.

(Djöfs svekkelsi að hafa ekki geymt þetta snapstory! Né tekið myndir… Ekkert er til um þetta nema bráðfyndin minningin).

Í sannleika sagt, finnst mér 98% aðventukransa alveg rosalega ljótir og ég get ekki gert betur. Þess vegna geri ég þá ekki lengur til að valda sjálfri mér ekki vonbrigðum. En trúið mér, ég reyndi í nokkur ár með allskyns tilbrigðum og tilfæringum.

Ég var í París í byrjun mánaðarins og fór í sama gallerí og í fyrra og keypti rauða skál, í stíl við aðra rauða skál sem ég hafði keypt í fyrra. Þessi nýja sómir sér vel á borðstofuborðinu. Einn daginn, í byrjum desember, var skálin komin upp í hillu og í stað hennar á borðstofuborðinu króndi aðventukrans! Á tréplatta. Með grænu greni. Og könglum. Og svepp. Og bjöllu. Ónefnd dóttir mín hafði farið með vinkonu sinni á jólamarkað í Nordborg, þar sem hægt var að borga 25kr og gera sinn eigin krans.

Fyrst hélt ég að hún hefði keypt þetta og spurði hvort hún vildi bara ekki hafa hann upp í herberginu sínu? Hún leit á mig særðum augum og spurði hvort mér finndist þetta virkilega ekki fallegt? Hún hafði eytt tveimur tímum í að gera kransinn og fingurnir voru bólgnir og blóðugir. Hún hefur nánast verið frá vinnu síðan (ó ég skildi hana, í sömu sporum hef ég verið hundrað sinnum, minnst).

Kransinn hefur fengið að vera á borðstofuborðinu, nema þegar ég hef lagt hann á stólinn við enda borðsins og ýtt stólnum ofurvarlega langt undir borð. Til að verja hann, ef að sósunni skyldi vera slett. Þá útskýringu hef ég gefið dóttir minni þegar hún hefur fundið kransinn undir borði. Og þá bendir hún á, réttilega: „En það er eiginlega aldrei sósa í matinn“.

En þrátt fyrir minniháttar árekstra vegna aðventukransarins, hefur desember verið rólegur. Mamma var hjá okkur í nokkra daga og fórum við m.a. á jólagospeltónleika og niður í Flensburg.

Ég var nokkra daga í Stavanger og var svo sybbin á leiðinni heim í jólafrí eftir næturvakt að ég bað um dökkan og góðan jólabjór á Aamanns á Kastrup. Hugsaði með mér að þá myndi ég eiga auðveldar með að sofa við hliðið á meðan ég biði eftir flugi heim. Hann spurði hvaða stærð. Ég svaraði: „Den største du har“ og bjóst við 0,5l. En ég fékk 0,75l og steinsvaf við hliðið og í vélinni. Steinsvaf.

Aldís kom heim frá París sama dag og ég. Þá skyldu nú kósíheitin hjá fjölskyldunni hefjast. Prógrammið var lagt og það var þétt. Jólasymfóníutónleikar, jólatréð sótt, jólatréð skreytt, haldin litlujól og örfáar gjafir opnaðar. Farið í wellness, farið á skauta, farið hingað, farið þangað, farið á enn eina jólatónleikana.

Á mánudagskvöldið fóru þau feðgin að gera sig fín og ég vissi ekkert hvað var í gangi. Síðan kvöddu þau bara með orðunum: „Nennirðu svo kannski að gera Sörur á meðan?“ og fóru í bíó. Á Star Wars. Því það eru feðginamyndir og hafa verið síðan þær voru litlar. Mér er aldrei boðið með því þau segja að ég eyðileggi alltaf stemminguna með því að kjafta að Svarthöfði sé pabbi hans Luke. Og líka þetta: „Ha, Anakin Skywalker, er það ekki frændinn?“ Þeim finnst ég ekkert fyndin. En meira um Sörubaksturinn í næstu færslu, fylgist því með.

Síðan bakaði ég kryddbrauð. Jú og steikti laufabrauð um daginn þegar mamma var hérna. Meiri þrældómurinn sem það er, að gera laufabrauð, ég var með blöðrur í lófunum í tvær vikur á eftir og þurfti smyrsli og umvafninga.

Aldís fór síðan til Parísar í fyrradag. Ég skutlaði henni á flugvöllinn í Hamburg.

Þið getið séð hana vinka bless í myndbandinu hérna fyrir neðan sem ég bara varðveitti af Instastory.

Eftir að hafa skutlað henni, fór ég niður í bæ í Hamburg. Tókst að eyða fjórum klukkustundum þar, aðallega borðandi kræsingar úr litlu sölukofunum þeirra. Ég hef sagt það áður og segi það aftur, Þjóðverjar eru snillingar í desember. Í Þýskalandi virðist miðbæjarlífið ekki snúast eingöngu um verslun heldur um ráp í uppsettum jólamarkaðsþorpunum, fá sé glühwein, hittast og spjalla. Stemmingin er frábær.

Þetta var í fyrsta sinn sem ég ráfa ein um stórborg á þennan hátt og sagði ég við Fúsa í dag að það hefði verið frábært. Ég gat ráðið öllu sjálf, hvort ég færi í búðir og ef, í hvaða búðir, hvar og hvað ég borðaði, hvert ég fór… Engin skipti sér af. Þá fór Fúsi að hlæja: „En hver er munurinn þegar ég er með þér? Þú ræður alltaf hvert við förum, hvar við borðum, hvað við gerum og í hvaða búðir farið er í… Sé ENGAN mun“.

Búmm.

Annars er ég búin að fara í hina árlegu tannhreinsun fyrir jólin þar sem aðstoðarmanneskja tannlæknisins hafði litla sem enga stjórn á græjunum og rennbleytti mig í framan. Ég sem hafði farðað mig svo fallega því mér finnst tannlæknirinn minn svo heillandi. Síðan tók hann í hendina á mér og sagði bless að eilífu því hann væri kominn á aldur og farinn á ellilífeyri.

Ég er líka búin að fara til læknis og láta taka lykkjuna (liður í jólaundirbúningnum), sem er nú ekki frásögum færandi nema hvað læknirinn horfði á mig og sagði í trúnaðartón: „Þú veist að þú getur orðið barnshafandi þótt þú sért orðin 42 ára…“. Jú jú, ég vissi það vel. Síðan horfði hann aftur á mig þar sem ég er orðin berrrössuð og eitthvað að væplast um, og spurði: „ertu annars nokkuð byrjuð á breytingarskeiðinu?“

Við Fúsi lifum á brúninni þessa dagana. Við erum búin að vígja lykkjuleysið og nú er bara að bíða og vona að getnaður hafi ekki átt sér stað. Eftir vígsluna fékk ég mér veganborgara og bjór. Fúsi hafði ekki mikla matarlyst og fékk sér egg. Eitthvað stress í honum. Hann las nefnilega einu sinni að karlmenn sem yrðu feður um fimmtugt, væru líklegri til þess að eignast börn með geðklofa. Honum finnst dætur sínar og hundurinn alveg nógu stór pakki.

Þegar lífið er svona afslappandi hellist oft ró yfir mig og ég gleymi því sem ég raunverulega ætlaði að gera. Ég gleymdi að búa til rauðkál!

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *