Árið 2017

Enn einu sinni er ég mætt hingað inn á síðustu mínútum ársins 2017 (færslan er skrifuð 31/12 2017), til þess að líta yfir liðið.

Þetta ár var eiginlega stórundarlegt. Fyrrihlutinn er frekar þokukenndur, mér fannst ég ekki gera neitt og þegar ég skoða færslurnar frá þessum tíma, sé að ég hef ekki gert neitt. Nema hangið yfir lokaritgerðinni. Strax í mars virtist ég búin að fá nóg og meira en það, eins og sést á þessari færslu. Í þessari færslu skrifa ég einnig um draum sem að mig dreymdi og brá svolítið í brún þegar ég las hana núna. Þessum draum svipar óþarflega mikið til hörmulega slyssins sem gerðist á Árskógssandi í byrjun nóvembers.

Færslurnar fyrrihluta 2017 eru svolítið um mat (uppskriftir), pirring út í neysluhyggjuna (hér) og vangaveltur um hvernig ég get farið betur með umhverfið (hér).

Síðan gerist það í maí að færslurnar verða þyngri og ég byrja að impra á líðan minni. Ég man að ég var rosalega passasöm þegar ég var að blogga. Ég impraði bara, „gaf í skyn“. Vildi ekki vera að væla en þurfti að skrifa um þrautir mínar. Þegar ég les þessar færslur, rifjast upp fyrir mér hvað þetta var hreint út sagt ömurlegur tími. Fyrri hluti ársins 2017 var eiginlega að mestu leyti ömurlegur.

Ég varði ritgerðina þann 12. júni. Þetta var 8. ritgerðin á 9. árum. Kannski ekki skrítið að ég endaði í ritgerðarþroti. Eftir vörn lagðist ég undir feld eins og Þorgeir Ljósvetningagoði gerði forðum daga, til þess að hugsa minn gang.

Ég þarf varla að taka það fram að seinni hluti ársins var allt öðruvísi, þvílík kúvending á einu ári.

Ég ætla að halda uppteknum hætti og gera eins og í fyrra. Hafa annálinn í yfirskriftum í stafrófsröð og undirtitlum og halda mig á alvarlegu nótunum með tilheyrandi myndum.

Afrek

 • Undir afrek ætti auðvitað lokaritgerðin í diplómanáminu í heilbrigðisgeirasamskiptum og klínískri kennslu að tróna á toppnum en hún gerir það ekki, hún er ekki með því sjálf ritgerðin liggur enn, 6 mánuðum seinna, í skottinu á bílnum og fær að liggja þar áfram.
 • Ég ætlaði að hafa heklið hérna, en síðan sá ég að það var 2016  en ekki 2017 sem ég lærði að hekla og ekki enn búin með teppið sem ég ætlaði að vera búin með í júní 2016. Svo það telst varla lengur til afreks.
 • Atvinnuskiptirinn var persónulegt afrek fyrir mig. Þegar ég hafði legið undir feldinum í nokkra daga og sá fram á að vinnan á Gjörinu og ég ættum ekki samleið lengur eins og málin stóðu, tók ég stóra skrefið og sagði upp. Það var bæði erfitt og auðvelt. Ég kastaði frá mér „góðri“ stöðu og á vissan hátt námi sem  enn var rjúkandi heitt. En menntagráður eru ekki alltaf allt. Uppsögnin var auðveld á þann hátt að ég fann fyrir svo miklum létti. Skyndilega sveif ég.
 • En stærsta afrek ársins var ekki eitthvað sem ég afrekaði sjálf heldur Ásrún Svala. Hún varð stúdent þann 23. júní frá Sönderborg Statsskole og við vorum svo stolt og ánægð með hana.

Bækur

Ég las sárafáar bækur fyrrihluta ársins en svo tók ég mig saman í andlitinu. Ég er ekki hraðlesari og er oft margar vikur með eina bók. Ég er inn á skemmtilegum Facebookhóp þar sem rætt er um bækur og þar hef ég tekið eftir að fólk er að lesa heila bók á einum degi, t.d. á jólanótt. Það hef ég ekki gert síðan ég var unglingur. Dagarnir eru alla jafna svo skemmtilegir að ég get ekki snúið sólarhringnum við.

Þessi upptalning er eftir minni og vantar eflaust slatta af bókum á listann.

 • Valtýr á grænni treyju – Jón Björnsson
 • Ditta Mannsbarn – Martin Nexø  (Skyldulesning)
 • Fátækt fólk – Tryggvi Emilsson
 • Ör – Auður Ava Ólafsdóttir
 • Herborgarsaga – Ólafía Herborg Jóhannsdóttir
 • Konan í dalnum og dæturnar sjö – Guðmundur G. Hagalín.
 • Kaninjægeren -Lars Kepler
 • Karítas án titils – Kristín Marja Baldursdóttir (í annað skipti sem ég les hana)
 • Snarkið í stjörnunum – Jón Kalman
 • Bjarna-Dísa – Kristín Steinsdóttir (Í annað skipti sem ég les hana)
 • Náðarstund – Hannah Kent (Í annað skiptið sem ég les hana)
 • Tvunget til tavshed -Linda Castillo.
 • Svartalogn – Kristín Marja Baldursdóttir.
 • Falskur fugl – Mikael Torfason.
 • In Order to Live – Yeonmi Park.

Ferðalög

Ég hreyfði mig ekki úr stað fyrsta hálfa árið fyrir utan eina litla Glücksburgarferð í tilefni fimmtugsafmælis Fúsa. Á tímabili fékk ég á tilfinnguna að ég væri orðin steingervingur. En svo rættist úr þeirri tilfinningu.

 • Ísland í lok júlí. Fór á ættarmót á Eiðum og eiginlega það eftirminnilegasta var veðrið. Ættingjar og vinir voru búnir að vera að dásama veðrið í  allan júlí, en þegar flugvélin lenti með mig innanborðs á Egilsstaðaflugvelli, snarsnérist allt í himinhvolfinu. Sumt veður er bara ekki hægt að klæða af sér.
 • Ísland í byrjun september. Sú ferð var æði og veðrið líka (í minningunni). Ég fór með góðri vinkonu á rúntinn og í litla göngu á Fjöllum, með mömmu og fleirum í dagsferð í Loðmundarfjörð, með mömmu á Fljótsdalsrúnt og í Óbyggðasetrið, með pabba yfir Kjöl þar sem rúnturinn endaði í Landmannalaugum og var þar í tvær nætur hjá góðri vinkonu.
 • Írland í byrjun oktober. Við Fúsi fórum jú til Írlands og ætti það ekki að hafa farið fram hjá nokkrum manni.
 • Kaupmannahöfn í oktober. Við Fúsi hittumst í Kaupmannahöfn og vorum þar í tvær nætur.
 • París í lok nóvember. Við mamma fórum að heimsækja Aldísi sem býr þar núna.

Ég ætla ekki að telja upp vinnuferðarnar þótt þær séu líka ferðalög og stundum tókst mér að gera eitthvað annað en að vinna eins og t.d. að ganga Over Vidden í Bergen (hér). En til gamans má þó geta að seinni hluta árs hef ég farið upp í 42 flugvélar hjá níu mismunandi flugfélögum og þá eru ekki bilaðar flugvélar taldnar með (hvorki þær sem fóru í gang, né þær sem snéru við). Vinnuferðarnar árið 2017 hafa verið til Bergen og Stavanger. Nýja árið byrja ég í Osló á Ullevål sykehus.

Fjölskyldan

Fúsi er samur við sig. Hann varð fimmtugur á árinu og breyttist lítið. Hann vinnur enn á sama stað en hefur bætt við sig vinnu með námskeiðahaldi útum alla Danmörku.

Aldís kláraði að vera au-pair í París í júlí og fór beint til Íslands með franska kærastann og voru þau á Eiðum til lok september. Þaðan fóru þau aftur til Parísar og er hún að vinna á kaffihúsi þar. Framtíð hennar er ansi skemmtilega óljós eins og er.

Svala varð stúdent í júní og fór að vinna á elliheimili hérna í bænum svona á meðan hún er að gera upp hug sinn varðandi framtíðina. Hún fór að heimsækja systir sína til Parísar tvisvar á þessu ári, fór með Jacob, kærastann sinn til Íslands á þorrablót og er núna byrjuð að pakka ofan í tösku fyrir ferð til Filippseyja í janúar.

Gestir

Það var ekki mjög gestkvæmt hjá okkur í ár. Ég held að ég hafi verið með eitthvað Grýluattitjút fyrri hluta ársins og því engin þorað að koma. Seinni hlutann hef ég ekki verið heima til að taka á móti gestum. En þó komu einhverjir.

 • Systkinasynir mínir, Viktor og Aron komu um páskana og voru hjá okkur í viku. Það var rosalega gaman og mikil upplifum að fá að hafa þá svona útaf fyrir sig, án afskipta foreldranna þó að foreldrarnir séu ágætir.
 • Ingunn, Egill og þrjár dætur af fjórum komu til okkar í júlí í ca. viku og það var frábært, því þá vann ég mér inn að geta bankað upp á hjá þeim í tíma og ótíma í Stavanger og biðja um eitthvað að borða. Fyrir utan hvað er gott að koma til þeirra.
 • Elva Rakel litla systir og Aron komu á sama tíma. Vildi að þau kæmu oftar.
 • Mamma kom með mér frá París og var hjá okkur í viku. Sá til þess að ég gerði laufabrauð frá grunni sem var komin tími á að ég lærði að gera. Þessar mömmur virðast alltaf geta kennt manni eitthvað.
 • Er Aldís gestur? Hún kom allavega tvisvar á árinu, fyrst í stúdentaafrek systur sinnar þar sem hún kom henni á óvart og síðan rétt fyrir jól, til að halda litlu jól með okkur.

Við Aldís höfðum verið í sambandi við vinkonu og bekkjarsystur Svölu sem var í sama stúdentabíl og Svala og náðum henni í Augustenborg. Ó hvað það tókst að koma henni á óvart. 

 

Tónleikar

Annað árið í röð vorum við léleg í að fara á tónleika. Fórum ekki á neina einustu í bakgarðinum (Mölleparken) þótt nóg væri í boði.

 • Rammstein í Horsens. Félagsskapurinn var frábær en ég varð fyrir miklum vonbrigðum með sjálfa tónleikana.
 • Nick Cave í Kaupamannahöfn. Hann var frábær.
 • JólaGospel í Sønderborg Slot. Huggulegir jólatónleikar.
 • Jólaóratóría Bachs með Sønderjyllands Symfoniorkester í Alsion. Mjög góðir tónleikar sem komu skemmtilega á óvart. Stelpunum fannst líka gaman.

Að lokum óskar Alrúnarbloggið ykkur gleðilegs nýs árs og þakkar samfylgdina á árinu sem er að líða. Megi 2018 verða fullt af dýravernd, náttúrurvernd, umhverfisvernd, manneskjuvernd, hamingju og kærleik.

Ást og friður.

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *