Sunnudagur í Osló, svo kom mánudagur.

Sunnudagur og ég svaf til hálf sex. Það var gott. Ég byrjaði á að fá mér hrökkbrauð og kaffi í „morgunmat“. Ég er að reyna að aðlagast Noregi með því að borða hrökkbrauð. Eins og ég aðlagaðist Danmörku fyrir 16 árum með því að borða rúgbrauð. Einfaldari getur aðlögun ekki verið. Með hrökkbrauðinu og kaffinu las ég Mågelatter eftir Kristínu Marju Baldursdóttur. Nú hristir einhver hausinn og tautar: „helgispjöll“. Já, það eru hálfgerð helgispjöll að lesa bók eftir Kristínu Marju á öðru tungumáli en íslensku en ég stóðst bara ekki mátið. Á þessari 12 daga veru minni hérna er ég búin að lesa þrjár bækur. Engin neitt spes. Ég tók tvær bækur með eftir Ragnar Jónasson, önnur fór með alla leið upp í uppsveitir Noregs, nánar tiltekið upp í Heiðmörk. Drungi heitir hún og er bara ekkert drungaleg. Afar fljótlesin og lítið spennandi. Persónulýsingarnar og hugsanir persónanna ætluðu mig lifandi að drepa. Ég kláraði hana á meðan ég var í Heiðmörk. Þá varð ég bóklaus og fór því inn á Mofibo og leitaði mér að bók þar sem ég þyrfti ekki að hugsa of mikið. Valið féll á bók númer tvö eftir Lindu Castillo en hún skrifar krimma þar sem hún blandar Amish samfélaginu inn í. Castillo er með þeim ofbeldisfyllri rithöfundum sem ég hef lesið og varð mér eiginlega nóg um í þessari. Þrátt fyrir ofbeldið og ógeðislýsingarnar, er bókin ekki alslæm, kannski vegna fróðleiksins um Amish. Síðan kom ég aftur til Osló og þegar ég var búin með Lindu, byrjaði ég á Mistur eftir Ragnar. Ég las hana á örfáum klukkutímum og skil ekki „hæpið“ í kringum hana. Ég er reyndar enginn glæpasöguormur, síður en svo, ég fæ alltof oft á tilfinninguna að þær séu skrifaðar á færibandi í verksmiðju og innihalda svo lítið. Tungumálið verður flatt og óvandað. Endurtekningar á endurminningum og hugsunum verða tíðar og stundum held ég að það sé beinlínis uppfyllingarefni til að slefa upp í 250-300 blaðsíður. Aðalpersónan í Mistur pirraði mig og ég gat bara ekki séð að hún ætti að vera rúmlega fimmtug. Frekar 85. Og löggan gerir mig geðveika. Ég fæ sáralitla samúð með henni þrátt fyrir hennar fjölskylduharmleik. Bókinni líkur síðan með einskærri neikvæðni þegar löggan er að fljúga heim með fokkernum þar sem hún kvartar yfir óþægilegu sæti, yfirþyrmandi hávaða, ókyrrð í lofti, volgu og vondu kaffi „en það var svo sem ekki við öðru að búast þegar flugvélakaffi var annars vegar“, sit ég eftir með neikvæða tilfinningu fyrir bókinni. Löggan hafði líka keypt sér dagblað á vellinum en það hafði nú varla borgað sig, því lyktin af blaðinu, í bland við volgt kaffið og lyktina af flugvélaeldsneyti var ekki góður kokteill. Þarna grunar mér að rithöfundurinn hafi verið undir áhrifum af snappara sem var að hasla sér völl í snappheiminum í haust og var fastur í þessum gír: „Við mæðgur horfðum á mynd í kvöld, en eins og við var að búast, var myndin hundleiðinleg“, voru dæmigerð ummæli snapparans.

Svo er ég alltof smámunasöm….

Sko, ef sögusviðið í Mistur er mjög einangraður bóndabær upp á heiði á Austulandi, þar sem útvarpið næst eiginlega ekki, aldrei rutt og engir nágrannar, þá hugsar maður um t.d. um Fljótsdalsheiði, Jökuldalsheiði, Víðidal, uppi á Fjöllum, Hrafnkelsdal, Laugavallardal eða eitthvað álíka. „Þorpið“ virðist vera Egilsstaðir, allavega lenti löggan þar þegar hún kom fljúgandi að sunnan og þau virtust ekki vera lengi að keyra að bóndabænum. Síðan gengur ung kona frá þorpinu og að bóndabænum á nokkrum klukkutímum vegna þess að hana langaði til að ganga þennan spotta. Þetta heldur hvorki vatni né vindi.  Það er bara ekki hægt ef bóndabærinn er afar afskekktur. Svo ég get engan veginn samsinnt mig sögusviðinu. Og gæti það heldur ekki ef það hefði verið fyrir vestan þar sem ég er ókunnug. Dæmið gengur bara ekki upp.

Þessi er tekin í Laugavalladal, ekki séns að labba þangað frá Egilsstöðum bara sí sona á nokkrun klukkutímum. En eflaust hefur ekki verið rutt þangað og mögulega lélegt útvarpssamband. 

Þessi er tekin uppi á Fjöllum. Á bakvið fjöllin er Víðidalur. Mér fannst hann alltaf afskekktur á meðan þar var búið, samt liggur þjóðvegur eitt í gegnum hann og útvarpssamband er fínt held ég. Möðrudalur er til vinstri. Þó svo að hann sé afskekktur á vissan hátt, er hann ekki beinlínis einangraður. Gestkvæmari stað er líklega leitun að. 

Þessi er tekin frá Tókastöðum. Sumum finnst bærinn einangraður vegna þess að afleggjarinn er 4km. Frá Egilsstöðum er ekkert mál að labba í Tókastaði, það var oftast rutt (stundum seint og síðar meir), útvarpið næst fínt, við vorum með Stöð 2 á níunda áratugnum og það eru ekki nema um 2-4km í næstu nágranna í allar áttir. 

En eins og ég sagði áður, ég er enginn glæpasöguormur. Engin sérfræðingur á þessu sviði. Ég reyni ekki að fatta plottið og fatta það sjaldnast fyrr en það á að fattast. Og það þýðir ekkert að reyna að útskýra fyrir mér að íslenskar glæpasögur einkennist af þunglyndi og neikvæðni, hinar frá öðrum löndum gera það líka. Löggurnar í bókunum hennar Lindu Castillo drekka heila Absolut vodka flösku á dag, því þær eru svo sálarlega ónýtar. Svipaða sögu er að segja um Carl Mørck (Jussi Adler-Olsen) sem er fúlli en allt fúlt og Joona Linna (Lars Kepler) sem berst harðri baráttu við sína fortíðardrauga. Ef ég á að velja mína uppáhaldsglæpasöguhöfunda, eru það Jussi Adler-Olsen og Lars Kepler. Þeir finnst mér góðir.

En nóg um álit mitt á glæpasögum, að sjálfsögðu höfum við ekki öll sama smekk, sem betur fer og ég gleðst yfir velgengni íslenskra höfunda, hvar sem er.

Í kvöld ætla ég að borða sænskar kjötbollur frá Fjordland, hitaðar í örbylgjuofninum. Í nótt borða ég svo laktósalausan hrísgrjónagraut, ekki vegna þess að ég er með óþol, heldur er ég búin að kaupa upp allan lagerin í Kiwi kaupfélaginu af venjulegum hrísgrjónagraut.

Á meðan þið horfið á fréttirnar og síðan á Landann afþví að það er sunnudagur, hlusta ég á Hlyn Jökulsson á Spotify og blogga. Ég bý uppi á 7. hæð hérna í Osló. Það eru litlar svalir á íbúðinni minni sem er mjög gott ef ég þarf að viðra sængina, nú eða þegar veðrið er betra og ég get setið úti. Það neikvæða við svalirnar er að það eru líka svalir hjá nágrannanum og hann eða hún reykir. Það virðist allt koma inn um opinn gluggann hjá mér og glugginn verður að vera opinn því annars kafna ég. Íbúðin er sú minnsta sem ég hef búið í. Og eftir að hafa lesið krimma eftir Castillo, fer ég að spekúlera í skotheldum aðferðum til að kála reykjandi nágrannanum. Stundum er ég svo óumburðarlynd gagnvart annarra manna löstum þegar þeir bitna á mér. T.d. vorum við einu sinni að fljúga, ég og Fúsi og fyrir aftan Fúsa sat mjög mjög breið og þung manneskja. Þegar Fúsi ætlaði að halla sætinu aftur, pikkaði hún í hann og bað hann um að gera það ekki því þá væri ekkert pláss hjá henni. Fúsi með sitt jafnaðargeð (oftast) lét þetta eftir henni.

Á morgun þarf ég að fara í búð til að kaupa nærbuxur. Ég gerði ráð fyrir að þvo þvott í Keflavík en það fór útum þúfur, svo nú er allt upp urið. Það eru 1,6km í næstu nærbuxnabúð, nema ég splæsi í tvennar í Kiwi kaupfélaginu sem er hérna beint fyrir utan en ég hef gott af göngutúrnum.

Mánudagur

Ég gat ekki klárað færsluna í gær því ég þurfti að fara að vinna. Ég gerði mest lítið í vinnunni í nótt en það sem ég gerði mest af var að lesa Mågelatter. Þýðing Áslaugar Th. Röngvaldsdóttur er svo góð. Og bókin er yndisleg. Síðan lét ég sjúklinginn minn pissa eins og mér sýndist. Er það ekki pínu spes að geta algerlega stjórnað því hversu mikið annað fólk pissar? Svona ef maður spáir í það?

Annars hefur ekkert markvert gerst í dag. Ég fór og keypti naríurnar og það var alltof sumt. Það er líka kominn venjulegur hrísgrjónagrautur í Kiwi kaupfélagið aftur.

Ég ætla að enda þessa færslu á fjölskylduveðurlýsingu:

Fúsi í Sönderborg: 3ja stiga hiti, 11m/sek og rigning.

Aldís í París: 10 stiga hiti, 8m/sek og hálfskýjað.

Svala í Manilla: 23ja stiga hiti, 3m/sek og skýjað (þar er nótt, en á morgun fer hitinn upp í 28 stig)

Ég í Osló: mínus 1 stig, 5m/sek og snjókoma.

Það virðist vera skýjað í öllum heiminum.

Þetta er mynd af Osló. Ég tók hana ekki sjálf, heldur fann hana á netinu og þrátt fyrir að hafa komið til Osló 2. janúar, hef ég ekki séð borgina í björtu að ráði.

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *