Fæ ég engin blóm eða fæ ég blóm þrátt fyrir allt…

Þegar ég fékk SMS’ið í kvöld um að ég gæti tékkað mig inn í flugið á morgun, ákvað ég að það væri tímabært að hringja í Fúsa og athuga stöðuna heima. Þó svo að hann viti hvernig ég vil hafa stöðuna við heimkomu.

Ég: „Hæ, er ekki bara allt í fínu heima?“ Meinti náttúrulega: Er ekki allt fínt heima.

Fúsi: „Hæ, jú elskan mín, allt í mjög fínu standi… alveg æðislega fínu standi…“

Þetta var nú eitthvað gruggugt svar, hljómaði lýgilega fínt og því trúði ég honum ekki.

Ég: „Fúsi minn, sendu mér mynd snöggvast… .“

Ég fann á mér að ekki væri allt með feldu. Heimilið mitt lítur út eins og einhver hafi gengið þar berserksgang með kylfu eða sleggju. Ég benti honum á að þetta gengi ekki… Hann spurði hvenær ég kæmi heim. Ég svaraði honum að vélin lendir 22:45 annaðkvöld og allt þarf að vera fullkomið. Ég ætla samt beint í rúmið en það væri ekki verra að fá smá snarl þangað, kannski tapas og eitthvað mjög gott brauð og kannski tvö glös Prosecco (bæði handa mér). Við vorum að fjárfesta í nýju rúmi eftir að hafa sofið áratug í rúmi þar sem fjórðu löppina vantaði og ég get svo svarið það, eftirvæntingin eftir að leggjast í nýja rúmið er svo mikil að ég fæ alveg hraðan hjartslátt. Kannski þess vegna sem sjúklingurinn minn er svo bradykard (með hægan hjartslátt) og drattast bara undir 50, stundum undir 40. Sama hvað ég dæli miklu dópamíni í hann. Ef maður trúir á það yfirnáttúrulega, gæti ég kannski verið að yfirfæra hans slætti á mig, vegna tilhlökkuninnar yfir að prófa nýja rúmið. Fúsi segir að það sé svo gott að sofa í því að það sé eins og að sofa í himnaríki á milli Guðs og Maríu. Þar held ég nú að ímyndunaraflið hafi hlaupið með hann í gönur og auk þess kæri ég mig ekki um þessháttar fantasíur þegar ég er erlendis.

Fúsa fannst þessi krafa mín um snarl, heldur mikið vesen, vissi ekki hvar í skúrnum ég geymdi Proseccoið, í hvaða bakaríi hann ætti að kaupa brauðið og ýmislegt fleira. Ég stundi sárann og bað hann þá í það minnsta að kaupa blóm og setja í fallegan vasa. „Æ, ég nenni því ekkert“ svaraði hann þurrprumpulega.

Hann gæti nú, án mikillar fyrirhafnar, farið út í garð og sótt nokkra vetrargosa, þeir ættu að vera að spretta upp núna.  

Erantis’ið er allavega komið, ég sá það  úti á Als á Instagram um daginn.

Já eða bara farið lengra út í náttúruna og tínt í svona fínan vönd. Eða vendi.

 

(Myndin er fengin af netinu)

Hvað er með þessa karlmenn? Afhverju eru þeir ekki mjúkir sem smjör í skínandi sól? Já, ég get leyft mér að alhæfa því það virðist vera annar svipaður Fúsa hérna á gjörgæsludeildinni í Stavanger. Sá er Hollendingur og segir konuna sína ráða öllu. Öllu nema hárinu á honum. Það upphófst heit umræða um heimilisaðstæður Hollendingsins þar sem hann virtist nú ágætlega sáttur við, að okkur fannst, bágt hlutskipti sitt. Bara á meðan konan snerti ekki eða kom með athugasemdir um hárið hans. Ef ég væri gift honum, gæti ég ekki hamið mig varðandi hárið. En látum það nú liggja, það er nóg að ég stjórnist í hárinu á Fúsa. Síðan barst umræðan yfir á rómantísku nóturnar og hann var spurður að því hvort hann gæfi konunnni sinni stundum blóm? T.d. túlipana? „Blóm! Nei aldrei, tilhvers? fussaði hann og sveiaði. „Kannski yrði konan þín glöð að fá blóm…“ sagði sú sem hafði spurt. „Það má vel vera… “ sagði Hollendingurinn og yppti öxlum. Málið var útrætt.

Tveir eru nóg til að alhæfa um alla karlmenn. Yfirdrifið nóg. Og enginn er fullkominn eins og máltækið segir. Nánast enginn. (Nú eru alveg líkur á að það séu blóm í vasa þegar ég kem heim, þ.e.a.s. ef Fúsi les þetta).

Það virðist bara hafa fæðst einn fullkominn karlmaður á Jörðinni en hann er því miður dáinn. Nú giskiði eflaust á Jesú en nei, ef hann hefði verið uppi í dag, hefði hann verið lokaður inni. Ég er að sjálfsögðu að tala um Leonard Cohen. Fullkomnunina í mannslíki sem vann Grammyverðlaun í gærkvöldi í flokknum Best Rock Performance. Tilnefndur í tveimur flokkum, vann annan. Því sit ég núna með heyrnatól og hlusta á plötuna hans You Want It Darker og geri mitt allra besta til að gleyma ekki bradykardíinu á skjánum fyrir framan mig. Því það eina sem ég heyri er hrífandi og kynþokkafulla rödd 82 ára gamals manns sem deilir hjarta mínu með Fúsa.

Jeminn eini hvað ég hlakka til að koma heim á morgun.

Þið fáið eitt lag með færslunni, frá mér til ykkar. Lag sem ég elska.

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *