Heimsóknir Fúsa á sjúkrahúsið.

Þessar vikurnar eru allir að brillera – samkvæmt samfélagsmiðlum. Íslensk leikskólabörn útskrifast úr leikskólanum með hæstu einkun í… tja, ekki veit ég í hverju. Leir? Litun? Íslensk grunnskólabörn sömuleiðis. Öll brillera þau – samkvæmt samfélagsmiðlum. En sú manneskja sem hefur brillerað hvað mest á undanförnum vikum er Gamli Gaurinn minn – og það ratar beint á internetið. Þrátt fyrir að hann hafi ekki með nokkru móti getað komið auga á búkonuhárið mitt þegar ég lá hálfmeðvitundarlaus í sjúkrarúminu og hárhelvítið skipti sköpum í bataferli mínu.

Planið var að hann kæmi ekkert í heimsókn á sjúkrahúsið heldur myndi bara sækja mig 2. júní. Það er langt að keyra og þar sem hann hefur fylgt mér eins og skugginn í þessu ferli, ákvað ég að hann skyldi spara fríið sitt og vinna á meðan hann gæti og hugsa svolítið um hundinn. Ég var líka alveg góð, þetta var bara ein aðgerð.

Því má segja að honum hafi orðið hverft við þegar hringt var í hann frá OUH að kvöldi til og sagt að ég væri farin í bráðaaðgerð. Hann hafði ekkert heyrt frá mér í marga klukkutíma og var farin að undrast yfir hvursu langt var síðan ég var „online“ á Messenger. Hann var mættur á Gjörið um miðjan morgun daginn eftir. Og var hjá mér allan daginn. Eftir það kom hann reglulega. Á meðan ég var sem veikust, sat hann á móti mér heilu dagana og horfði á mig sofa. Og hlustaði stundum á bók. Þegar ég var vakandi, snérist hann í kringum mig eins og skopparakringla. Beiðnir mínar voru stuttar og hnitmiðaðar og ég minnti sjálfa mig á ömmu þegar hún var að bægslast við pokaskilun, þá orðin frekar nýrnaveik. Þá var ég oft hjá henni og hún lét mig hjálpa sér; sækja þetta, gera hitt. Hún fór ekki mikið í kringum hlutina. Hefur líklega ekki haft orku til þess þarna.

Þegar ég fór að hressast eftir bráðaaðgerð númer tvö, var Fúsi fljótur að skríða upp í rúm til mín. Við þökkuðum Suður-Sýslunni í Danmörku sem rekur OUH, fyrir þessi 90cm. breiðu rúm sem rúma auðveldlega tvær manneskjur. Sumstaðar á öðrum sjúkrahúsum í heiminum eru þau bara 70cm.

Við horfðum á The Alienist á Netflix. Hélduð þið kannski að við hefðum verið að kela?

En það var ekki allt svona gott og blessað þegar Fúsi var hjá mér. Stundum tók það á.

Þegar hann sá þvaglegginn minn í fyrsta skipti, varð hann svolítið öfundsjúkur. „Vá, er þetta ekki geggjað þægilegt? Nú þarftu ekki að fara á klósettið…“ Ég sagði honum að hoppa upp í ákveðinn líkamshluta á sjálfum sér.

29. maí var undirbúningsdagur fyrir fyrstu aðgerðina á OUH. Þá voru teknar blóðprufur og svo var viðtal við svæfingarlækni og hjúkrunarfræðing á kvensjúkdómadeildinni. Ég þurfti að seilast eftir tissjúi í veskið mitt þegar við vorum að tala við hjúkrunarfræðinginn sem heitir Stína og laumast til að þurrka munnvatn af hökunni á Fúsa. Honum fannst hún svo heit. Hjúkkan, ekki hakan. Þegar Fúsi tók ekki eftir, hvíslaði ég ofurlágt til Stínu: „epilepsi (flogaveiki)“ og hún skildi slefið.

Þegar ég var flutt af Gjörinu 2. júní, tók Kaja á móti mér uppi á deild. Hún hafði verið talsvert mikið með mig áður. En þetta var í fyrsta skiptið sem Fúsi sá hana. Hann opnaði gluggann og stakk hausnum út til að forðast yfirlið. Katja er á mínum aldri og á von á sínu sjötta barni seint í sumar. Hún er gullfalleg svona ólétt og með það mjósta mitti í manna minnum, séð aftan frá. Fúsi átti erfitt með að slíta augun af henni. „Hey Gaur, það er ég sem þarf athygli, ekki hún“ reyndi ég að garga, enn fárveik eftir atburði gærdagsins og næturinnar.

Fúsi kom aftur í heimsókn á mánudeginum og þá var Sandý á vakt. Sandý er mesta beibið af þeim öllum. Fallega tent og uppörvandi á allan hátt. Sandý spurði Fúsa hvort hann vildi ekki kaffi og hann sagði „JÁ TAKK“ og síðan fór hann fram með henni að sækja kaffi.

Svona gekk þetta heimsókn eftir heimsókn. Fúsi var alveg hissa á velútlítandi hjúkrunarfræðingunum á OUH. Ég sagði honum að hjúkrunarfræðistéttin væri spengileg stétt upp til hópa og spurði hann hvort það væri ekki kominn tími á að við hefðum ljósið kveikt?

Ekki veit ég hvaða sýn hann hafði á stéttinni áður eða hvaða sýn fólk almennt hefur á okkur. Ég lenti nefnilega í athyglisverðu atviki á Kastrup í vor. Ég var að koma heim frá Stavanger og klukkan var orðin margt, ég var úrvinda eftir næturvakt og ferðalag og fór á Aamanns barinn. Sá sem afgreiddi mig, hafði afgreitt mig áður en við höfðum aldrei talað saman. Ég pantaði romm. Hann hellti í glasið og rétti mér og spurði hvort ég væri að koma eða fara. Ég sagðist vera á leiðinni heim. Síðan var eitthvað smá spjallað, svona eins og maður gerir þegar maður situr einn á barnum. Þegar ég var að verða búin úr glasinu, kom hann með flöskuna og spurði hvort ég vildi meira. Ég sagði já takk. Hann hellti í. Maðurinn við hliðina á mér sagði að ég yrði að heimsækja Guatemala því að það væri frábært land. Ég spurði hvað væri svona frábært við það og hann svaraði: „Nú, Zacapa rommið, þeir búa það til!“ Peter, en svo heitir þjónninn, þessi sköllótti á Aamanns, spurði hvað ég gerði, hvort ég væri að vinna í Stavanger. Ég sagðist vera hjúkrunarfræðingur.

„Nei, nú lýgurðu, þú ert of chic til að vera hjúkka!“ sagði Peter.

Ég þurfti pínu að gúggla „chic.“

Síðan þá og núna eftir að Fúsi missti munnvatnið út úr sér trekk í trekk á OUH hef ég velt þessu aðeins fyrir mér. Ég hef oft og mörgum sinnum orðið samferða öðrum hjúkrunarfræðingum í gegnum flugvellina í Skandinavíu og það bregst ekki þegar velja á stað til að borða og drekka á, að Lagkagehuset sem er BAKARÍ verður fyrir valinu. Ekki mitt val, ég læt bara undan. Síðan kaupir samferðarfólk mitt sér litla pizzu í stað samloku því pizzan er tíkalli ódýrari. Bogalistinn bregst heldur ekki hvað fatnað varðar. Fötin eru án undantekinga þokukennd á litinn og svo hangir slitinn Fjällrävenpoki á bakinu á þeim. Þetta eru sauðirnir sem setja ímyndina á stéttina. Þessir örfáu. Klæddir í skó sem forma sig eftir fætinum. Þeir sem líta á hjúkrun sem kall að ofan og helga sig starfinu og spá ekkert í hversu mikið augnhár á maskarinn skiptir sköpum. Þeir sem vilja ekki í verkfall því launin skipta engu máli.

En þetta er misskilningur. Almennt eru hjúkrunarfræðingar chic og spengileg stétt. Fúsi veit allt um það.

Fúsi kom sem sagt reglulega í heimsókn til mín, kúrði hjá mér, borðaði með mér og fór með mig í göngutúra.

Eftir seinni bráðaaðgerðina var ég með tvo þvagleggi og þegar Fúsi sá það og möguleikana í þvagleggjum, gat hann engan veginn leynt öfundartilfinningunni sem helltist yfir hann eins og úrhelli. Hann sá bara það jákvæða í súprapúpískum þvaglegg og tveggja lítra pissupoka. Hann þyrfti ekki á klósettið allan daginn! Stundum óskaði ég þess að ég væri svona jákvæð gagnvart öllu, þá hefði nú verið gaman að liggja þarna…

 

 

 

6 Responses to “Heimsóknir Fúsa á sjúkrahúsið.

Skildu eftir svar við Dagný Sylvía Sævarsdóttir Hætta við svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *