Nótt fylgir degi en afhverju?

*

Máninn bjó í stóru húsi með fleira fólki og þar bjó systir hans Sólin líka. Á kvöldin fór fólkið stundum í leikinn „slökkvum á lömpunum“ og skiptist á mökum í myrkrinu. Máninn fór þá alltaf til Sólarinnar og svaf hjá henni en var horfinn undan sængurhúðunum hennar þegar morgnaði. Hana langaði að vita hver það var sem kom til hennar og næst þegar skökkt var á lömpunum makaði hún sóti á hendurnar á sér og þegar þau lágu saman gætti hún þess að nudda sóti framan í Mánann. Um morguninn sá Sólin loks hver elskhugi hennar var. Þá var henni illa brugðið og hún tók úlóinn sinn, skar af sér annað brjóstið, henti því til hans og sagði: „Ef þú ert svona hrifin af mér, éttu mig þá!“ Að svo mæltu greip hún prik, vafði misa um endann, dýfði því í lampalýsi og tendraði eld í. Svo hljóp hún út eins og fætur toguðu, og hún hljóp svo hratt að hún lyftist upp af jörðinni, hátt upp í loftið. Þegar Máninn kom út og sá að hún hafði stigið til himins hljóp hann inn aftur og setti lampamosa á sermiautinn sinn og kveikti í honum, og hljóp svo út á eftir systur sinni. En þegar hann var kominn á loft, slokknaði eldurinn í mosanum og eftir var aðeins örlítil glóð. Þá greip hann til þess ráðs að blása í glæðurnar svo að neistarnir flugu í allar áttir, og þannig urðu stjörnurnar til. Máninn skín ekki eins skært og sólin af þessari ástæðu, og stundum verður hann að fara til jarðarinnar að veiða seli en Sólin skín alltaf skært og frá henni stafar hlýju því það logaði glatt í lampamosanum hennar þegar hún hófst upp á mæni himinsins. Máninn eltir Sólina en hún er fljótari í förum og kemst alltaf undan. Þannig er það kvensemi Mánans fyrir að þakka að nótt fylgir degi…

                                                                        – Úr Hrafninum (2005) eftir Vilborgu Davíðsdóttur

Stundum fær maður bækur lánaðar og kvelst aðeins og grætur kannski smá þegar á að skila þeim aftur. Hrafninn er ein af þeim bókum. Líka Ditta mannsbarn eftir Nexø. Þær eru mér ofarlega í minni akkúrat núna því ég er nýbúin að skila þeim eftir að hafa dreigið það á langinn í óratíma. Eitt hólfið í bókahillunni minni… sorrý, okkar! Fúsi trompast ef ég eigna mér bókahilluna. Hann smíðaði hana. Já, eitt hólfið var að fyllast af lánsbókum og það gengur náttúrlega ekki. Því notaði ég tækifærið til að skila sjö bókum til vinkvenna minna þegar Eva hélt vídeókvöld fyrir okkur stelpurnar um daginn, þar sem við borðuðum pizzu og horfðum á Með allt á hreinu. Ég fékk að velja mynd af því að ég er með krabbamein. Ein af örfáum jákvæðu hliðum þess að vera með krabbamein. Ég má líka, samkvæmt lækni, nota salerni ætluð fötluðum á opinberum stöðum. Ef ég stend í biðröð og fer að bogna í baki og halda um magann, fæ ég iðulega að fara framfyrir röðina. Svo er ég aðeins byrjuð að fikra mig áfram með að kría út stærri afslætti en venjulega í búðum. Það er kúnst því ég má heldur ekki missa coolið. En þegar ég skilaði bókunum, gleymdi ég að nýta mér aðstöðu mína og þær tóku bara þakklátar við bókunum. Líklega elska vinkonur mínar og eigendur bókanna þær jafnmikið og ég.

*Þessa tunglmynd tók ég í oktober 2015 þegar Smári Sverrir gerði sitt allra besta til að kenna mér og vinkonunum að taka myndir. Ég var því miður  áhugaminni en hann og því tókst lítið að kenna mér. En þetta er fyrsta og eina tunglmyndin sem ég hef tekið á öllum mínum 42 árum.

 

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *