Nýjustu fréttir af fjölskyldunni.


Byrjum á Lillunni eins og Svala er svo oft kölluð hérna heima, samt bara af mér afþví að ég hef einkaleyfi á því . Hún og Jacob hafa verið á ferðalagi um Mexico frá miðjum september og þar til nú, en núna eru þau komin til Quetzaltenango/Xela í Guatemala. Planið er að Jacob komi heim 10. desember og að Svala haldi áfram ferðalaginu, hún stefnir  á að vera í Colombia um jólin. Upphaflega planið snemma í sumar var, að við myndum hitta hana einhversstaðar í Suður – Ameríku í desember og halda jól með henni. En það breyttist.
Ferðalagið hefur gengið vel, þau hafa dýft tánum bæði í Atlantshafið og Kyrrahafið, ferðast með flugvélum, rútum og lest og farið einu sinni til læknis. Svala stefnir á að ferðast fram í febrúar. Ef þið rekist á þau, endilega faðmið þau frá mér, svo fast að þau bláni.

Myndir: Svala og Jacob

Hér er svo linkur á Flickr síðuna þeirra fyrir áhugasama.

Aldís og Greg búa núna í Tullinge, litlum bæ fyrir utan Stokkhólm. Greg er að kokka á veitingarstað og hún er að vinna hjá þakfyrirtæki og á bar. Hún er samt í leit að meiri vinnu. Ef einhver veit um eitthvað… Og aftur, ef þið rekist á þau, endilega faðmið þau svo fast frá mér að þau bláni svolítið. Greg stefnir á að halda jól í Brasilíu og Aldís ætlar að vera með okkur, annað hvort hérna á Möllegade eða í Keflavík ef aðstæður leyfa.

Fúsi er alveg þrælhress og orðinn eldsprækur eftir hnéaðgerðina um daginn. Farinn að dansa tangó við þýsku nágrannakonuna í innkeyrslunni bæði fyrir og eftir vinnu, á hverjum einasta degi.

Ég er líka þrælhress. Í gærmorgun (mánudagsmorgun) byrjaði ég daginn á að skipuleggja vikuna. Hringdi, sendi tölvupósta og SMS út um allan hreppinn. Tókst nánast að fylla vikuna með m.a.

  • viðtali hjá sjúkraþjálfara hjá sveitinni því nú er sex vikna krabbameinsleikfiminni lokið og sveitin tekur því við mér.
  • umbúðarskiptingu x2.
  • kaffihúsaferðum.
  • fyrirlestri.
  • bosnísku blindranuddi í nágrenninu.
  • japanskri andlitslyftingu úti í sveit.
  • óteljandi göngutúrum til að viðra mann og hund.

Miðvikudagurinn var þó enn laus og ætlaði ég að skipuleggja morgunverð heima hjá vinkonu því að það verður rafvirki í húsinu okkar frá klukkan 07:30 og í allavega fjóra klukkutíma. Ég nenni ekki að vera heima með rafvirkja í húsinu. Líst bara ekkert á það því þeir geta verið svo rafmagnaðir og eitt það versta sem kemur fyrir mig, er að fá straum. Ég líð enn þann dag í dag, fyrir að hafa sí og æ flækst í rafmagnsgirðingum í æsku.
Miðvikudagurinn náðist að fullbóka sig sjálfur án þess að ég kæmi nokkrum vörnum við. Britta, ritari þvagfæraskurðdeildarinnar, hringdi þegar ég stóð geispandi við eldhúsgluggann klukkan átta í morgun og spurði hvort ég gæti komið í nýrnastómaslönguskiptingu á morgun? Já ekkert mál, svaraði ég því að ég er nútímalegur sveiganlegur sjúklingur sem er bara í fríi alla daga og þarf að minnka kaffihúsahangsið áður en mér verður hent út. Þetta verður síðasta tilraun til að reyna að láta nýrun mín pissa útfyrir.

Svo að á milli þess sem ég hékk á kaffihúsi í dag og viðraði manninn og hundinn, skaust ég upp á sjúkrahús í blóðprufur og skýrslutöku hjá svæfingunni því að síðasta skýrslutaka var útrunninn.

Restin af mánuðinum er róleg, enn sem komið er. Bara einir tónleikar, örfáar kaffihúsaferðir og ein ferð til OUH (Odense) á dagskránni. Já og ein bíóferð.

Fleira var það ekki í bili.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *