Stormurinn og lognið.

Í gær og í dag fór ég í tvo fallegustu göngutúra lífs míns. Í gær voru leifar af storminum Alfrida eftir í veðrinu. Í dag var algjört logn á eftir storminum. Það voru Svíar sem gáfu storminum nafnið í þetta skiptið. Þeir voru á undan Dönunum og Norðmönnunum, Danir eru samt oftast fyrstir með nöfnin, ekki veit ég afhverju.
Í gær flæddi Alssundið yfir bakka sína um 162cm en olli sáralitlum usla því að bæjarbúar og bæjarbjörgunarsveitin undirbjuggu flóðið afar vel með sandpokum og heitri símalínu.

Þegar flæðir þusta bæjarbúar niður að höfn til að sjá vatnið. Ég er þar meðtalin ef ég mögulega kemst.

Bæði í gær og í dag fór ég út í ullarsíðbrók innan undir göngubuxunum, með húfu og vettlinga (sem voru reyndar óþarfir) og í góðri úlpu. Samt fékk ég sterklega á tilfinninguna að vorið væri á þröskuldinum og hugsaði til pastellituðu vor-strigaskónna mína sem ég þarf að flikka upp á fljótlega. Gera þá klára fyrir komandi árstíð.

Ég elska orkuna sem fylgir vorinu og værðina sem fylgir haustinu. Ég elska að búa á þeim stað á plánetunni þar sem árstíðirnar eru svona sterkar og áberandi.

Á ströndinni í dag – í logninu á eftir storminum. 

Mig langar líka út… bara eitthvað út. Ég skipulagði reyndar utanlandsferð í morgun, skrifaði til Fúsa og spurði hvort það væri í lagi að hann yrði bara heima. Hann svaraði játandi og ég þakkaði kærlega. Þannig að á döfinni er stelpuferð til Þýskalands, reyndar bara dagsferð eða partur úr degi ferð, en það er hægt að gera margt á einum dagsparti.
Mig langar líka að mála allt húsið, þvo, breyta og hengja upp hitt og þetta. Það er ekta vorhugur í mér núna – þangað til það þykknar upp aftur… í fyrra kom vorið ekki fyrr en í apríl.

2 Responses to “Stormurinn og lognið.

  • Sesselja
    6 ár ago

    já daginn sem ég fór heim þá kom vorið til DK haha :*

  • Ásdís frænka
    6 ár ago

    já hér er eins og vorið sé að koma, bóndinn úti að raka lauf 🙂

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *