Bara örlítið um bækur

Einu sinni fyrir langa löngu komst ég upp með að nota bara dagatalið í símanum. Engin óregla, ekkert pappírsvesen. Það er svo sem ekkert fyrir langa löngu, mér líður bara þannig. Það var bara árið 2017, áður en ég fór að vinna í Noregi, en þá skipti ég aftur yfir í gamla mátan til að hafa betri yfirsýn.

Síðan kom það í ljós að þessi snepill dugði engan veginn fyrir breytingarnar sem urðu 2018, enda er hann útkrotaður, límdur saman og nánast óskiljanlegur. Samt svo verðmætur því að ég geymi allt frá þessum tíma. Myndin að ofan er úr færslu síðan í ágúst.
Ég ákvað því að halda betur utan um lífið og tilveruna árið 2019 og keypti mér það sem kallast Bullet Journal eða BuJo þegar nafnið er stytt í ritmáli. Þetta er bæði minnisbók og dagatal. Það eru 240 óútfylltar blaðsíður í henni sem ég fylli út alveg eins og ég vil auk þess að hanna hana eftir mínu höfði og þörfum. Það er ákveðin hugmyndafræði í kringum BuJo sem ég hef kynnt mér lauslega og fer að einhverju leyti eftir.

Fyrir utan að hafa dagatal í minni bók, er ég með eina opnu fyrir fermingar 2019, já nei, ég er ekki að grínast. Lestarferðir, flug úr öllum áttum, gjafir og fjölmargir aðrir þættir sem þarf að huga að og halda utan um. Það var pís off keik að skipuleggja sinna eigin barna fermingu miðað við þetta umstang… En misskiljið mig ekki. Við hlökkum mikið til. Ég er líka með eina opnu fyrir viðburði 2019 því mér þykir gaman að sjá og rifja upp hvaða skemmtilegheit voru í gangi á árinu.
Og að sjálfsögðu er ég með opnu fyrir bókalistann 2019 og án alls gríns þá teiknaði ég upp bókahilluna í stofunni okkar með smávægilegum breytingum og hagræðingum. Hver mánuður fær tvær hillur án þess þó að það þurfi að fylla upp í hillurnar með lesnum bókum. Ef ég les ekki „tvær fullar hillur“ þá teikna ég bara blómavasa inn á milli bókanna, því að bókalestur er áhugamál og áhugmál þarf aldrei að klára. Ég er nú þegar búin að teikna einn blómavasa. Ekki samt fara að halda ég sé föndrari og sitji hérna með tíu liti og tilheyrandi tússa og skreyti bókina – ó nei. Eða jú, ég ætlaði að gera það og fann mér fyrirmyndir á netinu en hætti strax þegar ég sá hvað úr varð. Ég eyðilagði næstum því bókina.

Frá því fyrsta janúar hef ég lesið eftirfarandi bækur:

 1. Hið heilaga orð eftir Sigríði Hagalín Björnsdóttur. Mjög góð pæling hjá Sigríði með þessari bók og svei mér þá, ég held að Sigríður sé alvitur.
 2. Ungfrú Ísland eftir Auði Övu Jónsdóttur. Ofboðslega vel skrifuð og fjallar meðal annars um hlutskipti kvenna á sjöunda áratugnum. Bók sem mig langar strax að lesa aftur.
 3. Feigð eftir Stefán Mána (hljóðbók). Þessi bók er sú fyrsta í seríunni um Hörð Grímsson og er must reed til að skilja hegðun Harðar og umbera hann. Ég las Grimmd fyrir nokkrum árum og H.G. fór rosalega í taugarnar á mér, en ekki lengur. Allt virðist alltaf eiga sér einhverja skýringu – svona almennt, er það ekki?
 4. Árbók Ferðafélags Íslands 2018. Upphérað og öræfin suður af eftir Hjörleif Guttormsson. Já ég las hana alla. Spyrjið mig bara um allt sem viðkemur þessu svæði. Þetta var fróðleg bók.
 5. Sextíu kíló af sólskini eftir Hallgrím Helgason. Oft og mörgu sinnum velti ég því fyrir mér, þegar ég las bókina, hvort Hallgrímur færi í trans þegar hann skrifar? Svona ritverk er varla hægt að skrifa um hábjartan þriðjudag. Svona getur enginn venjulegur maður skrifað og óska ég þess að öll möguleg verðlaun heimsins eigi eftir að sópast að Hallgrími fyrir þessa bók. Hann er greinilega enginn venjulegur maður. Uppáhalds kaflinn minn er kafli 42 í bók 2, þegar Maddömuhús var opnað fyrir torfbæjartröllunum til að leyfa þeim að sjá begóníu. Í kafla 42 sem er aðeins fjórar blaðsíður að lengd, kemur inn í húsið ófrýnileg sveitakona sem hafði ekki skipt um föt síðan á nítjándu öld og lýsingar Hallgríms eru slíkar að ég missti matarlystina á morgungrautnum mínum þegar ég las þær. Ég er ekki að ýkja. Ljótleikinn var ógurlegur en það sem ég elska við þennan kafla er að ljótleikinn snýst yfir og upp í svo mikla fegurð á þessum örfáu blaðsíðum að ég las kaflann þrisvar. Og á sama degi og ég las þennan kafla, fór ég til Aabenraa á Núvitundarnámskeið (ég á eftir að segja ykkur betur frá því) og síðan fórum við Fúsi til Herning að sjá rússneska þjóðarballettinn dansa Svanavatnið. Fyrst borðuðum við á veitingarstað staðarins þar sem þjónarnir syngja og maturinn var alveg ágætur. Og ballettinn var dásamlegur. En það sem mér fannst sérstakt við þennan dag, var að fegurðin sem kafli 42 endaði á, hélt bara áfram út daginn og fram eftir kvöldi. Það var eins og hún ætlaði engan endi að taka.
 6. Papmaché-reglen -og andre glimrende leveregler fra livets lovsamling eftir Hella Joof. Bókin er eins og titillinn gefur til kynna, á dönsku, en ég veit að margir af mínum lesendum eru fúllbífærir á því tungumáli. Þessi bók er stútfull af húmor og sannleik. Hún er nú þegar farin videre til að gera gagn annarsstaðar.
 7. Tunu eftir Kim Leine. Langar þig að vita hvernig lífið í þorpunum á Grænlandi gengur fyrir sig? Lestu þá þessa. Leine segir að þetta sé skáldsaga en þetta er ekki skáldsaga fyrir fimm aura, þó að hann breyti nöfnunum á sögupersónunum (þó ekki alveg öllum) og flytji tvö fjöll sunnar. Bókin er á margan hátt lýgileg, en er ekki  bara raunveruleikinn oft lýgilegur á svo margan hátt?

Síðan er ég að hlusta á Kapítólu eftir E.D.E.N. Southworth við hliðina á. Ég las hana fyrir rúmum tuttugu árum síðan og fannst hún æðisleg. Hún er æðisleg. En þvílíkar tilfinningar í einni bók. Þær bera sögupersónur ítrekað ofurliði svo að allt blóð hverfur úr æðum þeirra og þær fá hita. Eða þá að æðisköstin og hótanirnar eru svo svakalegar að meira að segja mér blöskrar orðbragðið.

Ég kláraði Tunu í morgun og hef eiginlega síðan þá verið að velta fyrir mér hver sé sú næsta. Ég var alveg með einhverjar í huga en hætti við allar því að næsta bók verður að vera léttmeti og ekki of þung í grömmum. Við Fúsi ætlum nefnilega að bregða okkur af bæ og ég fæ vöðvabólgu ef veskið mitt er of fullt af bókum. Eða ég hætti ekki við þær sem ég var með í huga vegna þess að þær voru of þungar, heldur var ég með eina ákveðna á heilanum vegna þess að Aldís sendi mér mynd og eftirfarandi skilaboð um daginn.

„Sjitt hvað þetta er bara eitt af uppáhalds scene ég hef lesið í bók. Bara sirka 3 blaðsíðum áður, þá er Lisbeth Salander nauðgað rosalega brutalt og það er eins og hjartað sé bara rifið úr manni. Svo kemur þetta bara rétt eftir og Lisbeth er svo klikkað kúl og hún hefnir sín svona rosalega og vá…“

Ohhh ég veit Aldís, ég veit. Ég elska líka þetta atriði út af lífinu. Aldís er að lesa Millenium þríleikinn í annað sinn og núna á sænsku af því að hún er að læra sænsku. Hún er pínu pirrandi því að hún hefur ekki svarað símanum í marga daga vegna þess að hún getur ekki slitið sig frá bókunum. Ó ég skil hana svo vel.
Ég tengi þessar bækur við tvennt. Annarsvegar við mín fyrstu skref sem hjúkrunarfræðingur. Þessar bækur lágu á hverju einasta náttborði á deildinni sem ég var á þá og ekki hægt að ná neinu sambandi við sjúklingana, þeir voru gjörsamlega niðurgrafnir ofan í bækurnar. En ég tengi þessar bækur líka við Kúltúrklúbbinn okkar en hann var stofnaður þegar myndirnar komu út.

Ég held að ég taki fyrstu bókina með mér; Mænd der hader kvinder, það er kominn tími á endurfundi enda orðin rúmlega tíu ár síðan síðast.

Endurtökum aðeins þessa snilld:
Fyrst á sænsku: JEG ÅR ETT SADISTISK SVIN, ETT KRÅK OG EN VÅLDTÅKTSMAND
Svo á dönsku: JEG ER ET SADISTISK SVIN, EN PERVERS STODDER OG EN VOLDTÆGTSFORBRYDER.
Ég er alveg sammála Aldísi, þetta er svo sterkt atriði og ég man eftir gleðitilfinningunni sem greip mig þegar ég las þennan kafla. Þetta er álíka kafli og kafli 42 í bókinni hans Hallgríms, þeir snúast við og enda ótrúlega vel.

Já ég held að ég taki þau Michael og Lisbeth með mér í veskið og rifji upp gömul kynni.

One Response to “Bara örlítið um bækur

 • Sesselja
  5 ár ago

  Mig langar að lesa eitt og tvö, við höfum nú oft talað um HG svo ég þarf klárlega að lesa þrjú, 60 kg vekur áhuga minn hef heyrt svo misjafnt um hana og ég þarf klárlega að lesa Tunu. Þessar fara á lestrar listann minn verst hvað hann er að verða langur ?

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *