Uppskrift af hollu salati og matarumræða í framhaldinu

Uppskrift af uppáhaldssalatinu mínu sem ég kalla Toppkálssalat með eplum og möndlum

1 lítið toppkál (sem svipar til hvítkáls) – í þetta sinn notaði ég rautt toppkál.
2 epli
100g möndlur
1/2 dl sesamfræ
2 msk góð og kaldpressuð olía
1 msk síróp
3 msk eplaedik eða eplasídersedik
salt og pipar

Þetta er nóg sem meðlæti fyrir 3-4 manneskjur.

Skerið kálið í fína strimla og eplin í litla bita. Ristið möndlurnar á þurri pönnu og sömuleiðis sesamfræin en fylgist vel með þeim því á örstuttum tíma fara þau að hoppa og skoppa og brenna í kjölfarið. Blandið öllum blautefnunum saman í skál og smakkið til með salti og pipari. Síðan er bara öllu blandað saman.
Þetta salat passar vel með fiski, fuglakjöti, kjöti af ferfætlingum, eggjakökum eða bara eitt og sér. Salatið getur líka komið í stað kartaflna, hrísgjóna og þessháttar matvæla. Toppkál er meinhollt og inniheldur þrisvar sinnum meira C-vítamín en kartöflur.

C-vítamín hefur í tugi ára verið nefnt í sambandi við krabbamein og þá til þess að fyrirbyggja krabbamein og eða bakslög. Pabbi fékk lungnakrabbamein árið 2014 og las þetta með C-vítamínið einhversstaðar. Greiningin og lyfjameðferðin fóru afar illa í hann og í örvæntingu sinni og örvinglun keypti hann sér djúsvél og djúsaði bókstaflega allar C-vítamínríku sítrónurnar sem komu til Egilsstaða. Það fékk enginn annar sítrónur á Fljótsdalshéraðinu í þessa mánuði nema fara niður á firði og kaupa þær þar. Pabbi sat fyrir þeim, sko sítrónunum. Hann barðist nefnilega með kjafti og klóm við sjúkdóminn og notaði C-vítamínið sem vopn. En það dugði ekki til og hann dó um það bil átta mánuðum eftir greiningu.

C-vítamín er frábært fyrir varnarkerfi líkamans almennt en það finnast engar rannsóknir sem sýna fram á að það fyrirbyggi krabbamein né dragi úr líkum á að krabbamein komi aftur. Hvað þá lækni krabbamein.

C-vítamínið er ekki það eina sem hefur þennan orðróm á sér um að draga úr líkum á- eða að koma í veg fyrir krabbamein.
Tökum örfá dæmi: Ekki borða sykur, því að krabbamein lifir á sykri. Borðaðu minnst sex hráa hvítlauksgeira á dag, þeir steindrepa allt. Reyktu hass eða taktu í það minnsta CBS olíu. Alls ekki borða mjólkurvörur. Borðaðu basískt, ekki súrt, krabbameinsfrumur elska nefnilega súrt…

Samkvæmt heimasíðu danska krabbameinsfélagsins, sem að ég tek þó nokkuð mikið mark á, hafa verið gerðar rannsóknir á öllu ofangreindu og engin rannsókn sýnir að þetta sé rétt. Eftir að ég greindist hefur mér verið ráðlagt og leiðbeint af vinum og vandamönnum og á ég þeim bestu þakkir því að meiningin er ávallt góð og af þeirra innilegustu sannfæringu. Það er mitt að vera gagnrýnin og sortera í öllum þeim velmeintu ráðum. En svo einfalt er það samt ekki þegar fólk upplifir sig skyndilega dauðlegt. Í alvörunni dauðlegt. Öll erum við dauðleg og flest spáum við í því endrum og eins, en þegar endurskoða þarf allt í snarhasti vegna þess að tölfræðilega er dauðinn eins og óveðurský í fjarska, þá horfir það öðruvísi við. Þá láta örvæntingin og örvinglunin á sér kræla.
Hvað get ég gert, hvað get ég gert??? Ég verð að gera eitthvað! 

Ég held að margir sem lenda í krítískum aðstæðum hugsi svona; Hvað get ÉG gert?  Ég hugsaði svona og geri stundum ennþá. Þó í minna mæli því ég held að ég sé að verða búin að finna ágætis jafnvægi í mataræðinu en það er einn aðal þátturinn þegar kemur að umræðu um heilsu.

Ég persónulega hef stutt mig við leiðbeiningar Krabbameinsfélagsins sem mér finnst meika mikinn sens og ekki bara gilda fyrir fólk sem er með eða hefur verið með krabbamein, heldur fyrir alla, konur og kalla. Krabbameinsfélagið mælir með að gæta hófsemi í öllu og þá sérstaklega í áfengisneyslu, öllum unnum kjötvörum, brenndum mat og kjöti af ferfætlingum en þar er talað um hámark 500 grömm af rauðu kjöti á viku. Krabbameinsfélagið sér helst að jafnvægis sé gætt á milli próteins, fitu og kolvetna. Velja gróft í staðinn fyrir fínt, hreint í staðinn fyrir unnið, huga að hollri fitu og slökkva þorsta með vatni.
Og ávallt að ráðfæra sig við lækni varðandi fæðubótaefni og náttúrulyf því að þesskonar efni fara ekki alltaf vel saman við krabbameinslyf. Stundum auka þau á virkni lyfjanna og stundum draga þau úr þeim.

Ég persónulega vel að sleppa nánast öllum unnum kjöt- og fiskvörum og passa að brenna ekki matinn minn. Trú mín á hreinni fæðu er sterkari en á Guð almáttugan. Amen.
Ég hef líka valið að leyfa mér án samviskubits, þannig að ef að mig langar í kók, fæ ég mér kók og nýt þess.
Ég trúi að vellíðan og jákvæðar tilfinningar næri álíka mikið og hrein fæða. Samviskubit er neikvæð og tærandi tilfinning og því er svo mikilvægt að láta ekki rugla í sér á ögurstundum með hvað er rétt og rangt, hvað drepur og hvað bjargar, heldur taka sínar eigin meðvitaðar ákvarðanir og láta sér líða vel með þær.

Um helgina held ég að ég baki  gulrótarköku þó að hvítt hveiti og sykur sé ekki það hollasta sem látið er í sig. Mér finnst gulrótarkaka bara svo góð á bragðið og mér líður mjög vel þegar ég borða hana. Þess vegna ætla ég að baka hana.

Góða helgi kæru vinir.

 

 

 

 

One Response to “Uppskrift af hollu salati og matarumræða í framhaldinu

  • Margret
    5 ár ago

    Takk fyrir þetta. Svipað og ég reyni að gera, en ég á svolítið bágt þetta með sykurinn ! En salatið þitt verður hér á borðum um helgina. Spennandi að prófa nýtt. Gangi þér vel áfram . Kær kveðja.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *