Hjá og með Svölu í Kaupmannahöfn

 

 

Ég litaði hárið á mér bleikt og brá mér af bæ um daginn, ég tók lestina til Kaupmannahafnar því að Svala sagði að það væri kominn tími til. Hún er búin að búa þarna síðan í apríl og við höfum bara einu sinni komið við hjá henni á leið okkar til Svíþjóðar. Að hennar mati og að sjálfsögðu mínu líka, var það ekki nóg.

Við búum steinsnar frá höfuðborginni Kóngsins Köben eða um þrjá tíma í hreinum akstri en erum arfaslök að heimsækja hana. Gildasta skýringin er sú að við erum alltaf að „flýta“ okkur til útlanda (þ.á.m. Íslands) og notum Kastrup sem millilendingu. Flestir ættingjar eru líka fluttir frá Kaupmannahöfn og enginn til að bjóða upp á kaffi á Kagså eða flæskesteg á Frederiksberg.

Svala spurði hvað ég vildi gera í Kaupmannahöfn, hvað ég vildi sjá? Ég sagðist vilja sjá borgina með hennar augum. Og Kartoffelrækkene en það er sögulegt raðhúsahverfi í miðri borginni, svolítið eins og vin. Kartoffelrækkerne þýðir kartöflugarðarnir og fékk viðurnefnið vegna þess að hverfið var byggt á kartöflugörðum.
Svala tók á móti mér á Aðalbrautarstöðinni og í staðinn fyrir að fara beint heim, vildi hún fara með mig hring á Vesterbro því það eru orðin ansi mörg ár síðan ég skoðaði þann bæjarhluta.

Frá Aðalbrautarstöðinni fórum við yfir í Kødbyen, hverfi sem að ég var búin að gleyma að mig langaði til að skoða en samt langað lengi til þess, svipað og lengi og Kartoffelrækkerne. Svala hefur fundið það á sér. Við borðuðum á Mad og Drikke í bakandi sólinni og fylgdumst með laugardagsmarkaðnum Sønder Boulevard. Helgin byrjaði vel. Við fórum fram hjá vinnunni hennar Svölu á Studiestræde og komum við á Next Door Café  þar sem hún fær afslátt því að hún er orðin fastakúnni eftir örfáa mánuði í Kaupmannahöfn (?!?) Gaurinn á Next Door Café sagði: „Welcome to Copenhagen mom“ og ég þakkaði. Það var eitthvað svo æðislegt að rölta um Vesterbro og Indre by með Svölu, teymandi bláa hjólið hennar, svitastorknar og sælar. Svala kvartaði á köflum yfir að ég labbaði of hægt. Ég sagði henni að ég hefði ekki tíma til að labba hraðar, ég þurfti að sjá allar byggingar að neðan og upp úr, allar rósirnar út undir húsveggjunum, allar gardínurnar, allt fólk, allt. Ímynda mér hvernig Ditta Mannsbarn (í samnefndri bók eftir Martin Nexø)  hýrðist í litlu köldu kitrunni sinni í einni af þessum byggingum, sárafátæk og illa haldin um þar síðustu aldamót.

 

 

Við fórum síðan heim til Svölu á Sølvgade til að setja fæturna upp í loft og skipta um föt fyrir næstu atrennu. Ég, fótalausa frúin, nennti ómögulega að labba meira, ekki að ég sé í alvörunni fótalaus, þótt ég sé ekki 42 ára lengur, heldur fannst mér þetta bara hljóma skemmtilega, svo að úr varð að  Svala leigði hlaupahjól og ég hjólaði um á hjólinu hennar.

 

 

Við borðuðum fiskmeti á PS Bar&Grill og fengum okkur svo eftirrétt á Broens Gadekøkken. Veðrið lék við okkur og Kaupmannahöfn var  sallaróleg svona yfir hásumarið.
Á leiðinni heim löbbuðum við meðfram Søerne, einnig eitt af því sem mig hafði langað til að gera ásamt Kartoffelrækkunum: „Svala, en Kartoffelrækkerne? Förum við fljótlega þangað? spurði ég full eftirvæntingar en líka kvíða yfir að Svala myndi gleyma að sýna mér hverfið. Ég þekki engan þar og hef aldrei gert, ég hef bara svo oft heyrt þeirra getið í bókum. Svipað og þegar ég fer til Stokkhólms, þá verð ég að fara á Fiskargatan af því að sú gata er í bókum sem ég hef lesið.
Svala sýndi mér Kartoffelrækkerne og mér leið betur. Hér er hægt að lesa nánar um sögu þessa hverfis á dönsku, ensku og þýsku.

 

 

Daginn eftir rigndi eldi og brennisteini og Svala skellti í bollur til að hafa í morgunmat. Hún gerði líka shiagraut með tilheyrandi meðlæti, allt meinhollt og afar bragðgott. Þrátt fyrir ómældar vinsældir shia grauts, hef ég aldrei sjálf gert svoleiðis. Ekki vissi ég að Svala gerði svoleiðis. Og ekki vissi ég að hún kynni að baka bollur? Vissuð þið það? Ég hef sjálf alltaf verið afleitur bollubakari þrátt fyrir að rembst eins og rjúpa við staur í mörg ár. Danir eru snillingar í bollubakstri! Þeir gera deigið á kvöldin, kýla það svo saman, hnoða og búa til bollur við dagrenningu sem þeir láta hefast á meðan þeir fara í sturtu og snurfusa sig. Baka þær síðan á meðan þeir borða morgunmat, setja þær í fullkomnlega fléttaða körfu með óblettóttu viskustykki yfir (ég á ekki svoleiðis) og koma með í vinnuna handa öllum … VOLGAR klukkan 06:50. Ég kom nú bara við í Fötex þegar ég þurfti að koma með eitthvað í vinnuna útaf afmæli, fríi eða álíka tilliefni og keypti 10 rúnstykkjatilboðið með rúgbrauði og Dagmarstertu fyrir 50kall. Eða ég keypti þrjú tilboð. 30 rúnstykki, þrjú rúgbrauð og þrjá Dagmarstertur og borgaði 150kall. Það hefði kostað mig tvöfalt meira að reyna við volgar bollur í dagrenningu. Sálfræðitími kostar á milli þrjú og fögurhundruð danskar krónur ef maður er með beiðni frá heimilislækni og bollubakstur svona snemma dags hefði farið með andlegu heilsu mína.

 

Þarna býr Svala

Ég verð nú að segja að það er mjög gaman að heimsækja börnin sín þegar þau eru flutt að heiman og sjá þau í öðru ljósi, þar á meðal sem eðalbollubakara. Sjá hvernig þau halda heimili, hvað leynist í ísskápnum þeirra og hvort það sé ryk í hornunum. Og þvílíkar móttökur segi ég nú bara, ég var ofdekruð. Ég þurfti ekki að gera handtak.
(Aldís, ef þú lest þetta, þá veistu við hverju ég býst þegar ég kem til þín …)

Eftir að hafa borðað bollurnar og grautinn, skoðuðum við Kartoffelrækkerne aftur, gengum meðfram og fyrir Søerne og yfir á Nørrebro. Mig langaði líka til að skoða það hverfi; Blågårdsplads, Jægersborggade, Jagtvej og ekki síst Assistens kirkegaard.

 

 

Við gengum fram á grafir merks fólks án þess að þurfa að leyta að þeim og hefði ég viljað verja heilum degi þarna – ég með mína kirkjugarðaáráttu. Enda eru þessir garðar góðir staðir, í þeim munu flest okkar leggjast til hinstu hvílu í einhverskonar formi svo það er eins gott að venjast þeim og elska þá.

Við Svala þræddum líka veitingastaðina og kaffihúsin á Nørrebro, hvað annað?

Þegar ég fer í borgarferðir, les ég ferðahandbækurnar Turen går til … spjaldana á milli og fer að einhverju leyti eftir því sem mælt er með enda rík ástæða fyrir meðmælunum. Þannig að ég fer á söfn, í kirkjur, upp í turna og á aðra merka staði. En í þessari ferð gerði ég ekkert svoleiðis og ég saknaði ekki hafmeyjunnar, Tívolísins né að sitja með bjór við Nyhavn. Það var eitthvað svo gott að gera ekkert en samt margt. Enda bera myndirnar í þessari færslu þess merki, hvergi er merka byggingu að sjá, heldur bara við Svala að njóta lífsins í Kóngsins Köben.

 

 

Mér fannst Kaupmannahöfn skemmtileg borg fyrir en núna finnst mér hún æðisleg. Allsstaðar er góður matur, fallegar byggingar, fallegt fólk og endalaus saga sem er svo áþreifanlega nálæg okkur.
Ég er enn sáttari við að Svala sé þarna, því þá hef ég enn meiri ástæðu til að fara til Kaupmannahafnar.

 

 

Takk fyrir mig elsku litla Svalan mín.

 

 

3 Responses to “Hjá og með Svölu í Kaupmannahöfn

  • Yndislegt að lesa þetta elsku Dagný og þið hafið haft yndislegar mæðgna samverustundir.

  • Ágústa
    5 ár ago

    En þú heppin að fá að sjá borgina með svona flottum guide… Og sjá það sem túristinn missir af. Gaman að lesa og upplifa þetta í gegnum frásögnina ?

  • Ágústa
    5 ár ago

    En þú heppin að fá að sjá borgina með svona flottum guide… Og sjá það sem túristinn missir af. Gaman að lesa og upplifa þetta í gegnum frásögnina.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *