Svala í skóla

Í gær var fyrsti skóladagurinn hjá Svölu. Þessari fyndnu, krefjandi, fallegu, hreinskilnu og lífsreyndu stelpu. Litla kamelljónsins míns.

Hún ætlar að læra dönsku við Kaupmannahafnarháskóla (KU.)

Mig langar til að breyta mér í orm og skríða inn í eyrað á henni og hjúfra mig í heilanum hennar og vera með. Svona eftir að hafa skoðað um námið á heimasíðu KU. Ekki það að ég haldi að þetta sé létt og eintómt skemmtinámsefni, ég held einmitt að þetta geti verið þungt og þurrt – en samt skemmtilegt. Ég hefði alveg verið til í að læra dönsku, já eða íslensku – sama sama, er það ekki? Ef að ég gæti spólað til baka og valið upp á nýtt, tvítug og fersk, hefði ég kannski valið íslensku. Eða þjóðfræði. Eða mannfræði. Eða sálfræði (og væri núna búin að bæta við mig Jákvæðri sálfræði.) Eða félagsfræði. Eða fjölmiðlafræði. Eða. Eða.
Eða hjúkrunarfræði, eins og ég valdi. Ég veit það ekki. Ég veit ekki hvað ég myndi velja ef ég væri aftur tvítug í allt öðrum aðstæðum en ég var í. Enda skiptir það engu. Ég valdi hjúkrunina af mikilli skynsemi og áhuga á sínum tíma og mun aldrei sjá eftir því. Og áhugin (og skynsemin) er enn til staðar. Enda er eftirsjá tilfinningaleg óánægja vegna einhvers sem gerðist, já eða ekki gerðist í fortíðinni og slíkum tilfinningum nennum við ekki, er það það nokkuð? Þær eru svo tærandi.
Ég hitti mann í vor sem sagði mér að hann hefði verið að koma frá París. Borgin var æðisleg en hann sá mikið eftir því að hafa ekki farið upp í Eiffelturninn, en röðin var svo löng og heitt úti og bla bla bla og núna dauðsá hann eftir að hafa ekki látið sig hafa það. Ég sagði honum að hætta að kaupa sér garðvinnutæki (hann er garðvinnutækjasjúkur,) spara peninginn og kaupa sér tímavél í staðinn, fara í henni til Parísar, láta sig hafa röðina fyrir neðan Eiffel til að komast upp í turninn og berja París augum ofan frá. „Mundu líka að taka mynd, því annars hefurðu ekki verið þarna.“ Nei, ég sagði ekki neitt af þessu við hann, en ég hugsaði það.

Það er ekki hægt að breyta fortíðinni svo tilhvers að vera með eftirsjá?
Nema eftirsjáin sé af samskiptalegum toga og sé svo sterk að hún breytist í sektarkennd eða iðrun. Þá hjálpar stundum þeim sem þjást af þessum tilfinningum að biðjast fyrirgefningar eða útkljá málin, en það er ekki þar með sagt að það hjálpi hinum aðilanum. Enda er fyrirgefning oft aðferð til að fá frið í eigin sálartetri. Eða hvað? Það er líka hægt að tala við prest.

Stundum velti ég því fyrir mér viljandi að ef ég skyndilega fengi að vita að ég myndi deyja eftir mánuð, hvort það væri eitthvað sem ég myndi sjá eftir að hafa ekki gert eða sagt svona á meðan ég lægi banaleguna – þá hef ég nefnilega möguleika á að fyrirbyggja eftirsjá strax í dag. Ég er hjúkrunarfræðingur og alin upp við fyrirbyggjandi og heilsueflandi hugsun í gegnum minn starfsferil sjáiði til.

En ég er komin langt út fyrir efnið. Svala var að byrja í skólanum. Hún sótti um á síðustu stundu (hún er svo lík mömmu sííín …) og hefur verið að gera og græja á fullri ferð undanfarna daga, auk þess að vinna fulla vinnu og fara skottúr til Íslands og alla leið austur á heiðar. En þetta reddast allt saman bara ef andað er djúpt – inn út inn út – því að andardrátturinn er langbesta leiðin til að slaka á og tengjast sjálfum sér. Andadrátturinn er upphafið af lífinu og endalok. Ég elska andadrætti. Ég spurði Svölu hvort hún ætti skólatösku og jú, hún á upplitaðann og slitinn Fjällräven bakpoka úr menntaskólanum sem rúmar fínt tölvuna og nestisboxið. Campusinn (skólabyggingin) er úti á Amager sem er við hliðina á Kastrup og þangað hjólar hún á bláa hjólinu sínu um ókomna framtíð. Ég sé hana fyrir mér. Mig langar aftur í skóla. Ég er samt enn í veikindaleyfi en eftir það er ég atvinnulaus. Sveitafélögin borga oft nám fyrir atvinnulaust fólk. Ætli sveitafélagið vilji splæsa á mig master eða kandidat í einhverju? Það sakar ekki að spyrja.

 

 

2 Responses to “Svala í skóla

  • Asdis Johannsdottir
    5 ár ago

    Smelltu þér í eitthvað nám eða gerðu bara það sem þig langar að gera

  • Vonandi verður þetta æðislegt hjá henni! Mig hefur alltaf langað að búa í Jaupmannahöfn og vera ein af þessum sem hjóla um á „bláum“ hjólum

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *