Byssa, baukur eða hommi?

Ég á vini sem sögðu mér að ég ætti að segjast vera að fara að hlaða byssurnar þegar ég færi í líkamsrækt til að rífa í járnin. Þau sögðu að allir segðu það. Engin segðist vera fara í ræktina nú til dags.

„Ég er farin að hlaða byssurnar, bæææ Fúsi“ 

Þannig að þetta hef ég alltaf sagt síðan og fundist eðlilegt. Síðan gerist það um daginn að mér er boðið í 25 ára starfsafmæli hjá fyrrum samstarfskonu minni á Gjörinu. Starfsafmælið byrjaði klukkan 8:30 um morguninn og ég átti að mæta í endurhæfingu klukkan tíu. Þegar ég hafði borðað seddu mína af morgunverði að hætti Gjörsins, stóð ég upp og bjóst til farar. Gömlu samstarfsfélagarnir spurðu hvað lægi á og hvert ég væri að fara? „Jeg skal hen og lade bøsserne’ svaraði ég og klæddi mig í leddarann. „Ha“ kváðu þau og báðu mig um að endurtaka það sem ég sagði. „Lade bøsserne … rive i jernen … kommon, skiljiði ekki baun?“ endurtók ég og spennti upphandleggsvöðvann á hægri handlegg til auka á skilning þeirra.

En það fór ekki betur en svo að þau sprungu úr hlátri, duttu niður af stólunum, veltust svo um og stundu: “þú getur ekkert sagt þetta … “ En ég hélt það nú, bøsse er ekki bara hommi og baukur heldur líka byssa og járn er ekki bara getnaðarlimur með standpínu heldur líka járn/ferrum eða Fe. En þau hristu bara hausinn, hlóu og sögðu: “nei þú getur EKKI sagt þetta.“ Ég er ekki viss um að þau hafi rétt fyrir sér þó að þau séu betri í dönsku en ég, því að það er mikið líklegra að rekast á gjörgæsluhjúkrunarfræðing á viðburði á bókasafninu heldur en í líkamsræktarsal sem þýðir að þau kunna ekki sígilt líkamsræktartungumál.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *