Frá Stokkhólmi og niður á Skán.

Var ég búin að minnast á í fyrri færslum um Svíþjóð, hvursu fallegt landið er að hausti til? Við lögðum af stað keyrandi frá Stokkhólmi í rigningu og súld í oktobermánuði en það gerði ekkert til, því að litadýrðin var jafn falleg fyrir því. Leiðinni var heitið til Linderöd á Skáni en þetta eru um sex klukkutímar í keyrslu. Í vegasjoppunum í Svíþjóð er sami hræðilegi draslmaturinn og í vegasjoppunum í Danmörku og á Íslandi og þar sem okkur lá ekkert á, flétti ég upp í ferðahandbókinni góðu sem leiðir fólk í allan sannleikann á ferðalögum um heiminn og leiðir fólk líka í átt að betri sjoppum. Ein slík var við bakka Vättern sem er næst stærsta vatn Svíþjóðar eða í litlum bæ sem heitir Gränna, skammt norðan við Jönköping. Vegurinn að þessum bæ, liggur meðfram hraðbrautinni þannig að stoppa þar, var lítill sem enginn útúrdúr.

 

Leiðin að Gränna er skemmtileg. Á hægri hönd er Vättern og á þá vinstri er skógi vaxin hlíðin og klettar. Beggja megin eru sveitabæir. Á myndinni sést Brahehus sem aðalsfjölskyldan Brahe, byggði um miðja 17. öld. Árið 1708 varð stórbruni í Uppgränna og breyddist eldurinn upp hlíðina og Brahehus brann til kaldra kola. Þessar rústir er  hægt að skoða ef að stoppað er í vegasjoppunni við hraðbrautina.

Gränna er lítill bær það sem aðeins búa um 2500 manns og þekktur fyrir polkagrísina sína. Polkagrís er rauður og hvítur piparmyntubrjóstsykur og eru óteljandi brjóstsykursverksmiðjur við aðalgötu bæjarins. Þessi bær er eins og margir aðrir smábæir, frekar daufur yfir vetrartímann en þó voru nokkur kaffihús og  veitingastaðir öppet  þegar við vorum á ferðinni á miðvikudegi. Mér kæmi ekki á óvart þótt hann sprelllifnaði við þegar fer að hlýna aftur og blómin að springa út. Og svo liggur hann við vatnið.

 

Það sem við gerðum í bænum var að sjálfsögðu að fá okkur að borða. Við fengum okkur mjög góða grænmetisböku og salat. Síðan kíktum við í „Rauða kross“ búð þar sem Svala fann sér gullfallegt hátískuveski fyrir 25 sænskar krónur.

 

Ef að ég keyri einhverntímann þessa leið aftur, þá kemur sterkt til greina að stoppa þarna, sérstaklega þegar hlýrra er í veðri og ég myndi hverfa inn í ferðamannamannþröngina. Og ykkur er algjörlega óhætt að fara að mínum ráðum og gera slíkt hið sama.

Við komum svo til Lillu frænku og Lars í Linderöd um kvöldmatarleytið og beint í risastóra rækju- og laxabrauðtertu að hætti Svía.

 

Daginn eftir barst mér kaffiboð á Instagram frá frænku minni ásamt mynd af litlu barni. Ég þáði það, enda ekki oft sem tækifærin gefast til að heimsækja ættingja og rækta fjölskyldutengslin. Ég brunaði því til Kristianstad, spennt að sjá lítið barn því það er heldur ekki neitt sem ég sé dagsdaglega vegna þess að nánast allir vinir mínir og ættingjar eru löngu komnir úr barneign, já og mennirnir líka!

Ég náði varla að fara úr skónum hjá Bóel frænku áður ég nánast hrifsaði litla frænda minn til mín en vitiði hvað? Ég missti hann næstum því þegar ég fékk að vita að hann var aðeins fimm daga gamall! Ég lá enn inni á fæðingardeild þegar mínar dætur voru fimm daga gamlar. En það var reyndar í gamla daga. Já og svo var ég fyrsti ættinginn til að sjá barnið, fyrir utan náttúrulega foreldra og systkini. 
Mér leið eins og lukkunar pamfíl að fá að halda á nýfæddu barni – það eru mörg ár síðan síðast.
Ef að ég gæti eignast börn, myndi ég reyna að eignast tvíbura sem fyrst, ósköp væra og góða. Fallega og fluglæsa. Kurteisa og bráðgáfaða, stillta og prúða.
Já og svo myndu þeir sofa frá 19:00 – 07:00 eins og öll veluppalin börn gera. Ég þyrfti minn svefn – komin á þennan aldur.

–Dagný

3 Responses to “Frá Stokkhólmi og niður á Skán.

  • Þú ert yndisleg elsku Dagný hlý og góð eins og amma þín og mamma ???
    Að ógleymdu frábær penni ??

  • Þú ert yndisleg elsku Dagný hlý og góð eins og amma þín og mamma
    Að ógleymdu frábær penni ??

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *