Einn og hálfur sólarhringur í Kaupmannahöfn að hausti til.

Hvað er skemmtilegt að gera þegar stoppað er stutt í kóngsins Köben? Höfuðborg Íslendinga í aldir og nú höfuðborg margra Íslendinga sem hafa búsetu í Danmörku. Fallegu borginni við sundið með alla turnana sína, sem iðar alltaf af lífi.

Við komum við í Kaupmannahöfn á leið okkar frá Svíþjóð í haustfríinu og gistum í tvær nætur. Klukkan var orðin margt þann 17. oktober og við orðin skyndibitasvöng eftir allt hollustufæðið í Svíþjóð. Þess vegna völdum við að fara á Grillen Burgerbar á Nørrebrogade og fá okkur sveitta hamborgara.

Þeir voru stórgóðir og með miklum sultuðum rauðlauk. Við fengum okkur misjafnar tegundir af buffi og vorum öll ánægð, hvort sem um var að ræða kjöt- eða grænmetisbuff.

Daginn eftir hittum við Svölu í hádeginu í menningar og safnaðarheimilinu Folkehuset Absolon, sem áður var kirkja og borðuðum hádegismat þar. Á matseðlinum er almennur heimilismatur þar sem flestir ættu að finna eitthvað við sitt hæfi og sem kostar sama og ekki neitt. Þetta er skemmtilegt konsept þar sem allur aldur og allskonar fólk borðar saman við langborð.
Eftir matinn fundum við þörf fyrir láta ljós okkar skína í sköpunargleðinni …

 

… og leiruðum þessar stórglæsilegu andlitskrukkur. Takið vel eftir krukkunni hans Fúsa. Hún er því miður ekki til sölu, sem er ergilegt að mínu mati því að ég veit að ég gæti keypt mér ágætis Rolex úr fyrir andvirði þessa mikla listaverks.

Eftir að fingrafimi okkar og hæfileikar höfðu fengið að njóta sína á Absolon, var komið að hápunkti dagsins en það var að sjá skólann hennar Svölu sem er Kaupmannarhafnar háskóli (Søndre campus) og staðsettur á Íslands bryggju.

Svala sýndi okkur inni í skólann, bæði aðalbygginguna og þar sem kennslan hennar fer fram. Við löbbuðum á milli bygginga, yfir brýr og dáðumst að hjólageymslunum. Ef að þið eruð á röltinu um Íslands bryggju, þá er alveg tilvalið að leggja lykkju á leið sína og skoða þennan skóla því að arkitekturinn er mjög flottur að okkar mati.

Þegar skólaheimsókninni lauk, röltum við eftir Frederiksberg Allé og í áttina að Tívolí. Við höfum ekki farið í Tívolí í mjög mörg ár, ekki síðan stelpurnar voru krakkar. Veðrið var stillt og svalt. Ég hlakkaði til að fara í Tívólí og aðallega vegna þess að í nokkrar vikur á undan hafði ég fengið sykurhúðuð epli með kókos á heilann. Þau tilheyra jólunum og þegar stelpurnar voru yngri, báðu þær alltaf um slík epli þar sem þau voru seld í jólakofunum á göngugötum bæjanna. En eins og flestir sem hafa smakkað sykurhúðuð epli vita, þá festist sykurinn alveg svakalega í tönnunum og því varð ég oftast að draga stelpurnar að landi með þessi epli, því þær gáfust upp. Ég veit ekki hvers vegna ég fékk þessi epli á heilann í september en ég var síhugsandi um þau og hlakkaði mikið til að fara til Flensburgar fyrir jólin og fá mér, í fyrsta sinn síðan ég veit ekki hvenær. Í minningunni var bragðið himneskt. Fúsi og Svala sögðu að ég ætti eftir að verða fyrir vonbrigðum.

Nánast við innganginn í Tívólí var fyrsti kofinn staðsettur sem seldi sykurhúðuð epli og ég splæsti í eitt. Þegar ég loks kom tönnunum í gegnum sykurhúðina (sem er eiginlega alveg eins og brjóstsykur) og byrjaði að tyggja fyrsta bitann, brosti ég út að eyrum framan í Fúsa og Svölu sem horfðu á mig í forundran, vitandi hvað myndi gerast eftir augnablik. En ég lét ekki á neinu bera, vildi ekki að þau hefðu rétt fyrir sér. Eftir því sem ég beit oftar í eplið, talaði ég minna.

Eiginlega hætti ég alveg að tala þegar ég var tæplega hálfnuð með eplið þar sem myndast hafði feikistór brjóstsykurklessa á milli jaxlanna begga megin. Og eina leiðin til að losa slíka klísturklessu, er að stinga puttunum (mörgum) inn í munninn og alla leið aftur að jöxlunum og juðast og juggast í klessunni þangað til hún losnar. En það gerir maður ekki innan um fólk. Svo að það eina sem hægt er að gera, er að bíta í það súra að geta ekki talað og vera með brjóstsykursklessu á við mandarínu að stærð, upp í sér.

Já eða bara kaupa sér ís og vita hvort ísinn myndi ekki bræða brjóstsykurinn.

Ég hafði nefnilega hugsað um ís allan tímann í Stokkhólmi en það gafst aldrei tækifæri til að fá sér ís þar og því beið ég ekki boðanna þegar ég sá íssala í Tívólí og bað um tvær kúlur og slettu af jarðarberjafroðu ofan á. Þetta gekk allt saman ljómandi vel hjá mér, þ.e.a.s. að bræða brjóstsykurinn með ísnum …  Og ég steingleymdi alveg að ég var í sælgætishléi og búin að vera í mánuð þegar þetta átti sér stað. En við nánari umhugsun; síðan hvenær hefur ávöxtur og mjólk talist sælgæti?

Annars var mjög gaman í Tívólí og næst þegar ég fer þangað, ætla ég ekki að glepja sjálfa mig með sykurhúðuðum eplum og þessháttar sykursulli.

Um kvöldið fórum við á indverskan veitingarstað og eins og oftast á indverskum stöðum, er maturinn borinn fram á pönnunum, í skálum eða í pottunum. Þetta fyrirkomulag gerir það miklu auðveldara að smakka hvors annars mat. Og það á að gera; smakka hvors annars mat. Nema hvað, maturinn kom allur í einu og ég var eitthvað upptekin af mínum mat og gleymdi því að fylgjast með hinum og stjórnast. Áður en ég vissi af, var Fúsi búinn að hella og tæma úr öllum sínum pottum og skálum á diskinn sinn og byrjaður að stappa öllu saman. Svona eins og hann gerir þegar hann borðar bjúgu eða fisk, stappar öllu saman og býr til mauk eins og ungabörn eða tannlaust fólk verður að borða. Ég hrópaði upp yfir mig: „Hvað í ósköpunum ertu að gera maður!“ og greip með báðum höndum um höfuðið á mér. Þjónninn heyrði í mér ópin og kom aðvífandi og spurði hvað hefði komið fyrir. Ég var svo sjokkeruð að ég gat ekki stunið upp orði og benti bara á maukið á disknum hans Fúsa. Hann var búinn að eyðileggja allt smökkunarferlið fyrir mér. Þjóninn greip líka um höfuð sér og spurði Fúsa hvort hann væri tannlaus, hvort þeir ættu að setja matinn hans í blandarann fyrir hann.
Ég varð svo reið að það tók mig nokkrar mínútur að jafna mig.

Daginn eftir var okkur boðið í morgunmat á Sølvgade (Silfurgötu) hjá Svölu sem hafði gert sér lítið fyrir og bakað eplaköku í tilefni af að fá foreldra sína í heimsókn. Ég segi það enn og aftur. Það er þrælgaman að heimsækja börnin sín eftir að þau eru flutt að heiman.
Takk Svala, fyrir okkur í Kaupmannahöfn.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *