Ertu að bíða?

Eftir að það lygni?

Á biðstofu?

Eftir að pakkinn skili sér?

Á meðan bíllinn er skoðaður?

Því að það er seinkun á fluginu?

Eftir að komast í vinnuna því að  þér er gert að vera heima í 14 daga vegna mögulegar veiru?

Oft á dag þurfum við að bíða stórt og smátt. Bíða í röð, bíða á ljósum, bíða eftir fólki, bíða í símanum, bíða eftir að kartöflurnar sjóði, bíða eftir að stytti upp, bíða eftir vorinu, bíða eftir að það hægist á hlýnun jarðar.

Ég til dæmis skrapp í vetrarfrí og vegna COVID 19, var mér gert að vera heima í um það bil 14 daga, vegna þess að á gjörgæslunni tökum við engar áhættur með sjúklingana okkar. Allra fyrsta hugsunin mín var eitthvað á þessa leið: Damn, þá get ég ekki farið á kaffihús, ekki fengið fólk í heimsókn, ekki verslað í matinn … En um leið og ég áttaði mig á því síðast nefnda: Ekki verslað í matinn … áttaði ég mig á hversu heppin ég er. Að meiga ekki fara út í búð í fjórtán daga er á meiriháttar!

Við erum alltaf bíðandi og hugsið ykkar hvað það er frábært. Hvað hægt er að nýta tímann í margt skemmtilegt og uppbyggilegt á meðan. Við eigum það mörg til að á meðan beðið er, að taka upp símann og láta hann fóðra okkur með afþreyingu. Sálfræðingurinn minn, eða nú get ég að sagt mínir, því að nú finnst mér ég eiga tvo eftir þetta vetrarfrí sem ég skrapp í, segja að tíminn sé einstakur og einnota. Akkúrat þetta augnablik er bara núna og kemur aldrei aftur og mun aldrei endurtaka sig. Því er svolítil synd að njóta þess ekki sem skyldi. Tökum t.d. biðina á ljósunum sem dæmi. Er ekki geggjað að geta notað skynfærin til að virða fyrir sér umhverfið? Horft á bílana í kring, hlustað eftir hljóðum, strokið stýrið, anda að sér lyktinni í bílnum. Eða horfst í augu við sjálfa okkur í baksýnisspeglinum og talað fallega við okkur: Hey þú æðislega kona, hvernig líður þér? Hvernig viltu að restin af deginum verði?

Ég tók þá ákvörðun strax á miðvikudaginn (sem var fyrsti dagur af þessum 14) að nýta tímann í eitthvað skemmtilegt, uppbyggilegt og nýtilegt. Ég lakkaði á mér neglurnar, bakaði dýrindis brauð, er búin að fara með Vask í langa góða göngutúra og borða hádegismatinn úti í náttúrunni, faðma nokkur tré, prjóna tusku, á morgun verður eldaður matur til að frysta og þar með einfalda mér lífið þegar ég fer aftur í vinnuna, ég hef verið að gera yoga á morgnana, ég hef getað sinnt nýjasta áhugamálinu mínu með því að glugga í bók um næringu, ég stefni á að taka svolítið til, bæði í húsinu og í lífinu mínu. Þrífa, henda, bæta við, raða upp á nýtt.

Þarna er Vaskur í feluleik og bíður eftir að verða fundinn. 

Munið þið eftir því í gamla daga þegar við þurftum að nettengjast með því að hringja út með módeminu? Munið þið eftir hljóðinu? Munið þið hvað það tók langan tíma? Ég var ein af þeim sem bilaðist reglulega og langaði til að lemja tölvuna með sleggju því ég þoldi ekki biðina. Hugsið ykkur ef að við þyrftum aldrei að bíða. Ef að ljósið væri alltaf grænt, ef að við kæmumst alltaf strax að hjá lækninum, ef að það væri aldrei biðröð í búðinni. Líklega værum við alltaf á útopnuðu, enn meira en við erum fyrir. Biðin gerir okkur kleift að stansa, slaka á, draga andann og hvíla okkur í nokkur augnablik. Þess vegna er biðin frábær. 

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *