Óáþreifanlegi raunveruleikinn.

Allt er svo öðruvísi. 

Í dag var annar í páskum og það var nánast engin umferð framhjá lóðinni okkar sem alveg fullkomnlega eðilegt, enda rauður dagur. Málið er bara að það hefur ekki verið umferð framhjá lóðinni okkar síðan 12. mars eða í rúman mánuð. Ég fagna rólegheitunum þó að ég fagni ekki ástæðunni. 

Í dag hefðum við átt að fljúga frá Kastrup til Íslands og í þessum skrifuðum orðum, vera löngu lent í Keflavík. Fúsi, Aldís, Svala, Viktor og ég. Viktor frændi hefði átt að vera búinn að vera hjá okkur í viku og Aldís ætlaði að koma til okkar á skírdag. Síðan ætluðum við að hitta Svölu í Kaupmannahöfn og fljúga saman til Íslands. Við ætluðum að fara í bústað norður í landi og síðan í fermingu hjá Aroni systursyni mínum. 

Í staðinn sagði ég já við kvöldvöktum alla páskahelgina. Svala var líka að vinna alla helgina en hún vinnur sem afþreying á dvalarheimili á Nørrebro í Kaupmannahöfn. Dvalarheimilið heitir Aftensol eða Kvöldsól. Hafiði heyrt fegurra nafn á dvalarheimili? Ekki ég. Ef að ég verð svo óheppin að þurfa einhvern tímann að fara á dvalarheimili, vil ég fara á heimili sem heitir Kvöldsól eða Morgunsól. 

Páskahelgin var stórfín. Það var gott veður og að venju vörðum við mörgum klukkutímum úti í dönsku náttúrunni fyrri part dags. Mér finnst samt tilhugsunin um að mega ekki heimsækja fjölskylduna mína, hvorki til Svíþjóðar né Íslands, mjög skrýtin. Né heldur mega fá þau til mín. En á meðan allir eru við hestaheilsu, þá sætti ég mig við það. Það er bara svo skrýtið að vera ferðaheft. 

Vinnan var líka skemmtileg þó svo að það hafi verið óskaplega rólegt á gjörgæslunni undanfarið. Í Sønderborg höfum við enn ekki fengið Covid-19 sjúklinga þrátt fyrir að við höfum verið tilbúin í nokkrar vikur. Við stækkuðum deildina úr sex plássum í sextán með tilheyrandi tækjabúnaði og mannskap. Allar klær hafa verið úti hvað öndunarvélar varðar. Ég var á kvöldvakt fyrir nokkrum vikum síðan og deildarhjúkrunarfræðingurinn hringdi. Ég tók símann og heilsaði. Hún heilsaði líka og sagði að eftir nokkrar mínútur kæmi hermaður með öndunarvél, hvort ég gæti tekið á móti henni. Ha, hváði ég, ertu að meina þetta? Já, svaraði hún hlægjandi. Þeir eru að lána gjörgæsludeildunum öndunarvélarnar sínar og við fáum eina. Mér sveitastelpunni finnst þetta eitthvað svo klikkað. 
Systurgörgæsludeildin okkar í næsta bæ stækkaði sína deild úr sex plássum í 20. Í allt höfum við því stækkað þessar tvær deildir úr 12 plássum í 36 og keyrt 150 hjúkrunarfræðinga í gegnum örnámskeið í gjörgæsluhjúkrun.
Suður-Jótar smitast bara ekki svo glatt enda er hér hátt til lofts og vítt til veggja. En allur er varinn góður. 

Myndin er tekin 2014. Í dag eru hjúkkufötin dökkbláar buxur og dökkblár bómullarbolur. Eins er hafnarsvæðið í Sönderborg gjörbreytt. Þetta þýðir að ég þarf að næla mér í nýja hjúkkumynd … 

 

Stundum finnst mér eins og að ég sé með í dystópíusögu eða mynd því að allt er breytt og allt er svo undarlega óhugnalegt. 

Samt finn ég ekki beint fyrir því. Ég held áfram að fara í vinnuna þar sem allt er nokkurnveginn eðlilegt þessa dagana. Fúsi heldur áfram að vinna vinnuna sína. Við höldum áfram að fara í kaupfélagið og út með Vask. Allt gengur sinn vanagang, nema hvað við höfum hitt sárafáa vini, ekki farið á fyrirhugaða óperusýningu, ekki farið í bíó, erum ekki á Íslandi og erum ekki að fara á tónleika með Nýdönsk. Fermingar og stórafmæli eru líka strokuð út af listanum. 

Í fréttunum sjáum við óhugnaðinn í löndunum í kringum okkur  og í næstum mánuð höfum við verið viðbúin hinu versta á gjörinu. Við fáum súkkulaði, blóm, kökur og kaffi frá velunnurum úti í nærsamfélaginu því að samhugurinn, samkenndin og virðingin fyrir hlutverki heilbrigðisstarfsfólks er mikil. En við í Sønderborg höfum næstum aldrei haft það rólegra eftir að stóra Covid-19 undirbúningnum lauk. Það er næstum skömm að segja frá því þegar við vitum að aðrar gjörgæslur ná varla andanum. 

Við heyrum um vanlíðan fólks í fjölmiðlum, eða vegna þess að einhver þekkir einhvern. Við heyrum um fjárhagslegan ótta, missi og sorg. Stundum finnst mér ég vera inni í sápukúlu og bara áhorfandi að dystópíu sem er svo raunveruleg að það er óhugnalegt.

Þetta er allt saman raunveruleikinn. Ég er vakandi. Ég er ekki inni í sápukúlu. En tilveran er samt dystópía.
Mér finnst bara svo skrýtið að vera í vinnunni á nú, risastórri deild og virða fyrir mér og handfjatla nýju fjölnota andlitsgrímurnar sem minna óþægilega mikið á grímur sem eiga meira heima í Chernobyl og ímynda mér að kannski þurfum við að nota þær einn daginn. Þær eru svartar! Við þurftum að að skipta út gasfilternum á þeim og setja agnafilter á í staðinn. Mér finnst skrýtið að þiggja allar þessar gjafir, horfa á fréttir og ímynda mér framtíðina. Mér finnst allt óáþreifanlegt og óraunverulegt þessa dagana. Ég finn ekki beint fyrir neinu sjálf og ég sem hjúkka á gjörinu ætti að gera það. Það væri held ég auðveldara að tengjast raunveruleikanum ef að við stæðum á haus með svörtu andlitsgrímurnar spenntar fastar á andlitinu á okkur og fengum mar. 

Á hinn bóginn er ég dauðfegin því að allt sé svona óáþreifanlegt og óraunverulegt. Er á meðan það er. Við höldum að öllum líkindum okkar vinnum, erum við hestaheilsu, veðrið er gott og vorið hefur held ég bara aldrei verið fallegra. Sagði ég það kannski líka síðasta vor? 

Með ósk um að páskarnir hafi verið ykkur ánægjulegir þrátt fyrir allt. 

Ykkar einlæg 

 

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *