Ertu hrædd við höggorma og úlfa?

spurði Manja vinkona mín glottandi.

Nei, það er ég ekki. Ég hélt að ég væri það en svo las ég að það væru margir höggormar á Suður-Sjálandi þar sem við vorum þar í sumarfríi en ég sá aldrei neinn og ég var ekkert smeyk að labba um, hvorki í skóginum, né í háa grasinu við strendurnar.

En það er nú ekki þægilegt að vera bitin af höggormi, þetta er ekki bara saklaus snákur eins og snákarnir í Sönderborg.  

Nei nei ég veit það alveg.

Ertu þá kannski ekkert hrædd við það sem er hættulegt, svo lengi sem þú sérð það ekki?

Kannski. 

Ætlarðu þá að sofa úti á heiði með mér og úlfunum í nótt?

Já auðvitað. Úlfarnir eru hræddari við mig en ég við þá. 

Ég var stödd í stuttri heimsókn hjá Manju þar sem hún býr á Vestur-Jótlandi Þetta var í byrjun september og vorum nýkomnar af heiðinni þar sem við höfðum borðað hádegismat og tínt bláber, krækiber og títtuber beint upp í okkur. 

Eftir að hafa lesið okkur til um hegðun úlfa, varð úr að við vinkonurnar til næstum 30 ára, fundum til svefnpoka, dýnur og lopapeysur. Laust fyrir miðnætti keyrðum við eftir vegarslóða í gegnum skóginn á leið út á heiðina. Manja þekkir þetta svæði eins og lófann á sér þar sem hún bjó einu sinnu á sveitabæ rétt hjá og vandi komur sínar þangað ríðandi á Atgeiri og Björg frá Tókastöðum.

Leiðin í gegnum skóginn lá á milli himinnhárra grenitrjáa sem endrum og eins hleyptu skininu frá fullu tunglinu á milli trjátoppanna. Við vorum þöglar en spenntar, það var eitthvað kyngimagnað við stemminguna. Kannski veðrið; blankalogn og fullt tungl? Eða tilhugsunin um að sofa uppi á grafhæð ofan á 3000 ára gömlum leyfum af bronzaldarhöfðingja? Já eða ekki minnst spennan við að sofa á svæði úlfanna. Og höggormanna?

Eftir um korters keyrslu hætti vegurinn að vera slóði og breyttist í ófæru. Manja drap á bílnum og við stigum nánast samtímis út í kolsvartan skóginn. Til eyrna okkar barst hávært úlfaspangól. Ekki bara frá einum úlfi, né tveimur eða þremur, heldur frá mörgum. 
Við stóðum kyrrar í stutta stund og hlustuðum. Þetta var ólýsanlegt. Við litum hvor á aðra; eigum við? Já, auðvitað. Úlfarnir eru hræddari við okkur en við við þá, töldum við okkur sjálfum trú um. Við tókum föggur okkar úr bílnum og héldum af stað fótgangandi. Úlfarnir héldu áfram að spangóla. Þeir voru væntanlega að peppa sig upp í veiðiferð. Eftir nokkrar mínútum hættu þeir. Annað hvort höfðu þeir heyrt í okkur eða fundið lyktina. Eða voru einfaldlega þagnaðir því að þeir voru lagðir af stað í veiðiferðina. 

En við vorum ekkert hræddar. Fullt tungl, spangólandi úlfar, höggormar … Það þarf nú meira til en það. 
Eftir um 10 mínútna gang upp á móti, vorum við komnar að rótum grafhæðarinnar sem við ætluðum að sofa á. 

Manja, finnurðu lyktina?

Já hún er sterk. 

Af hvaða dýri er hún? 

Ég veit það ekki, kannski lykt af bæli? 

Er dýrið í bælinu? 

Ég veit það ekki Dagný, kannski, kannski ekki. 

Kannski er þetta sjálft úlfabælið?

Uss.

Við stóðum krafkyrrar og hlustuðum. 

Manja, ég heyri í þriðja andardrættinum. 

Nei, þetta er þinn eigin andardráttur, þú ert svo móð að þú andar tvöfalt. 

Nei, þetta er andardráttur úr dýri. Ég heyri það greinilega. Þetta er mamman, hún ætlar að verja afkvæmin sín. Manja, hvað gerum við ef þeir ráðast á okkur? Við getum ekki bara forðað okkur inn í bíl, hann er of langt frá?

Slakaðu á, þeir ráðast ekkert á okkur. 

Hvað eru margir úlfar á þessari heiði? 

Það er ein fjölskylda. Parið eignaðist hvolpa í vor. Mig minnir að það séu um 8 úlfar í þessum flokki. 

Jáhá. En Manja, vorum við ekki að lesa í kvöld að ungir úlfar geta verið forvitnir? 

Jú en þeir ráðast ekkert á okkur. Og ef, þá skríðum við bara ofan í svefnpokann og hringjum 112 ef við komumst í hann krappann. Það tekur þá svolitla stund að rífa svefnpoka í sundur. Eigum við að halda áfram? 

Ég veit það ekki, það hefur eitthvað komið fyrir hnén á mér. Mér finnst eins og þau séu að liðast í sundur. 

Þarna stóð ég, úti á jóskri heiði í miðju tunglsljósi, við það að lamast af ótta. Hjartað í mér barðist þrefalt hraðar en það er vant að gera og andardrátturinn var orðinn skrikkjóttur. 
Manja var ekki eins hrædd, bara örlítið smeyk, hún vildi halda áfram og gefa þessu sjéns. Ég hugsaði mest um fyrirsagnirnar sem myndu fylla bæði danska og íslenska fréttamiðla: Tvær miðaldra konur létust á jóskri heiði í nótt eftir að úlfar rifu þær í sig. Lim fyrir lim. Innyfli fyrir innyfli. Hægt og rólega. 
Ég bara gat ekki gert fjölskyldunni minni það að færa úlfaflokk sjálfa mig á silfurfati. 

Manja, eigum við ekki bara að snúa við? Getum við ekki sofið á ströndinni í staðinn? 

Þú ert bara hrædd vegna þess að þú heyrðir í úlfunum. Ef þú hefðir ekki heyrt í þeim, þá hefðirðu ekki orðið hrædd. Sama og með höggormana á Sjálandi. 

Já ég veit, það er líka eins með krabbana í sjónum. Ég hef aldrei verið hrædd við þá, fyrr en um daginn þegar mér datt í hug að snorkla á ströndinni í Sönderborg og sá óteljandi stóra krabba út um allt. Nú þori ég varla að vera berfætt í sjónum.

Hefurðu verið bitin af krabba?

Nei aldrei. 

Mmm, og þú sem elskar sjóinn Dagný. 

Er þetta alltaf svona?  Ef hættan sést ekki, er hún þá of abstrakt og því ekki hættuleg? 

Allavega í þessu tilfelli. Þú hefðir ætt óhikað upp á grafhæðina ef að þú hefðir ekki heyrt í úlfunum.

Manja, ég get ekki haldið áfram. Ég er bókstaflega að deyja úr hræðslu.

Jæja þá, prófum annan stað. Aðra grafhæð þar sem hægt er að leggja bílnum alveg við.

Okei, ég er meira en til.

Ég var svo fegin þegar ég settist inn í bílinn og lokaði hurðinni.
Við vorum ekki lengi að næstu grafhæð og mikið rétt, við gátum lagt bílnum alveg við hólinn. Við stigum út og viti menn, úlfaspangólið ómaði aftur um skóginn. 

Við vorum sammála um að þetta væri mikið öruggari hóll vegna nálægðarinnar við bílinn en hvað ef við skyldum sofna og vakna með tennur úlfana á kafi í kjötinu á okkur? 

Manja, mér þykir það ótrúlega leitt en getum við plís bara sofið á ströndinni? 

Innan um höggorma og refi? 

Já takk. 

Úr varð að við fórum á Vesturhafsströndina sem var fallega upplýst af tunglinu og sofnuðum við ölduniðinn sem var með rólegasta móti miðað við hvernig öldurnar á Vestuhafinu geta verið.

Manja tók þessa mynd af mér kl. 05:56 mér óafvitandi. 

 

Ég tók þessa mynd af Manju kl. 06:01 henni óafvitandi. 

Þegar við vöknuðum í aftureldingunni, í skugganum fyrir sólinni sem reis upp í austri þennan morguninn, rifum við okkur úr lopanum og hlupum hamingjusamar út í hafið. Ég var að auki þakklát fyrir að eiga vinkonu eins og Manju sem lætur sér detta slíka hluti í hug og framkvæmir þá og Manja var þakklát fyrir mig sem segi alltaf já, ég er til og geri mitt besta til að taka þátt. 

Eftir sundsprett fórum við upp á klitterne til að sjá sólina baða byggðina geislum sínum. 

 

Manja flýtur svo vel að hún getur tekið mynd af fótunum sínum. 

Fleiri myndir má sjá hér á Facebook. 

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *