Ég er vegan.

Kópernikus, Darwin og Freud. 
Kopernikus (1473-1543) sagði að við værum ekki miðja alheimsins eins og áður var haldið. Síðan kom Darwin (1809-1882) sem sagði að við værum ekki nein sérstök dýrategund, að við værum bara ein af mörgum tegundum og að lokum kom Freud (1856-1939) sem sagði að við hefðum litla stjórn á sjálfum okkur sem skynsemisverur, sem einstaklingar.

Í dag virðumst við telja okkur í miðju alheimsins, vera einstök og framar öðrum tegundum og reynum af öllum mætti að stjórna. Og með hvaða árangri? Bráðnum jökla, súrnun sjávar og alheimsfaraldri sem mun að öllum líkindum skjóta upp kollinum aftur og aftur og aftur … Við viljum ná hjarðónæmi með því að bólusetja alla þjóðina. Alla! Líka fílhraust fólk og líka fólkið sem er með annan fótinn í gröfinni. Af því að þjóðin hefur efni á því. En hvað gerist þegar bara örfáar þjóðir heims eru bólusettar og heimurinn er áfram opinn með hefðbundinni flug-, skipa- og bílaumferð? Hvað gerist þegar óbólusetta fólkið frá fátæku löndunum heldur áfram að koma inn í bólusettu velferðarlöndin okkar með stökkbreyttar veirur?

Það var reyndar ekki þetta sem þessi færsla átti að snúast um, stundum á ég það til að fara út af sporinu.

Ha, ertu vegan?
Ég ætla að segja ykkur frá hvers vegna ég tók þá ákvörðun um að borða eingöngu mat úr plönturíkinu eða það sem í daglegu máli kallast Vegan/Grænkeri – heiti sem allir vita hvað þýðir. Persónulega hentar skilgreiningin „plöntumiðuð næring“ mér betur. Híun veitir mér ákveðið frelsi sem ég ræð svo hvort ég nýti mér eða ekki.
Leiðin mín að plöntumiðuðu næringunni liggur frekar langt aftur í tímann og því getur þessi frásögn orðið í lengri kantinum.

Ég er fædd og uppalin í sveit – innan um sauðfé sem var slátrað á haustin og borðað allt árið um kring. Við vorum nátengd Seyðisfirði og þaðan kom fiskurinn. Við vorum með marga hesta, sumum var slátrað og þeir borðaðir, aðrir grafnir við andlát.

Lífrænt, hvað er það nú?
Árið 2001 fluttum við til Danmerkur og um haustið fórum við í fyrstu heimsóknina til vinkonu minnar sem ég hafði kynnst á Íslandi nokkrum árum áður. Þau voru fjögur í heimili og neyttu nánast eingöngu lífræns matar; kjöt, mjólkurvörur, ávextir, grænmeti, kornvörur – næstum allt í skápunum var merkt „lífrænt“. Þá hafði ég bara heyrt um hugtakið „lífrænt“ í sambandi við Eymund og Kristbjörgu á Vallanesi. Ég man ekki til þess að lífrænar vörur hafi verið í boði í KHB. Vinkona mín sagðist velja þetta vegna dýranna og heilsunnar. Á þessum tíma voru lífrænar vörur fokdýrar og ég tímdi ekki að splæsa. Ég spáði heldur ekki mikið í dýravernd þá, né afleiðingu kemísks áburðar á tún. Kindurnar í sveitinni minni höfðu haft það fínt og allir í kringum mig þá nokkuð hraustir.

Það liðu þó ekki mörg ár þangað til ég fór að kaupa lífræn egg. Það hafði síast inn hjá mér hvernig aðbúnaðurinn í hefðbundinni stóriðnaðar eggjaframleiðslu var og mér bauð við honum. Síðan fór ég að skipta fleiri vörum út fyrir lífrænar; mjólkurvörum, kjúklingi, grænmeti, ávöxtum … Þetta kom koll af kolli eftir því sem ég fræddist meira. Ég taldi mig vera gera frábæra hluti fyrir dýrin. Á lífrænum búum höfðu þau meira pláss og fengu að fara út. Sem þýddi að þau voru hamingjusöm og brosandi – alveg eins og bústna hænan utan á eggjabakkanum og litli sæti grísinn utan á grísaflutningabílnum. Hafiði einhvern tímann upplifað með eigin augum, oltinn grísaflutningabíl á hraðbraut með fleiri hundruð ef ekki þúsund grísum um borð?

Vegan samstarfskonan. 
Á Gjörinu árið 2015 vann ungur og klár hjúkrunarfræðingur sem gerðist vegan á einni nóttu. Það var 5. nóvember 2015. Hún hafði horft á fræðsluþætti um kjötiðnaðinn og blöskrað svo mikið að hún gat ekki tekið þátt í þessum óhugnaði stundinni lengur. Ég dáðist að henni því mig langaði innst inni líka en afsakaði mig með því að ég borðaði eingöngu lífrænt – það væri í góðu lagi því þar væru dýrin hamingjusöm þangað til þau fengju skot í hausinn – bang – og dyttu niður dauð. Samstarfskona mín horfði á mig og sagði að ég ætti eftir margt ólært í sambandi við veruleikann um kjöt, fisk og mjólkurstóriðnaðinum.

Áfram bara með kjörheyrn og -sjón. 
Þar sem ég hafði aldrei neitt sérstaklega gaman að því að elda og nánast engan áhuga á næringu, var það mér ofviða að breyta svo róttækt um mataræði þótt mig innst inni langaði til. Ég valdi því að loka augum og eyrum um ókominn tíma. Ég forðaðist að horfa á fræðsluþætti um ofangreindan stóriðnað, ég las heldur ekki greinar um hann né opnaði linka sem innihéldu myndbönd sem ég vissi hvað innihéldu. Ég lifði bara í mínum fallega lífræna heimi – samt alltaf með bullandi samviskubit undir niðri gagnvart dýrunum í dýraiðnaðinum. Ég borðaði hefðbundinn og hollan heimilismat og taldi hann hollann. Ég borðaði til að verða södd og gerði mitt besta til að bragðið væri gott. Ég hugsaði ekki út í það hvort ég væri raunverulega að næra mig. 

Raunveruleikinn.
Smám saman fór ég að læka við trúverðugar síður á Facebook sem snérust um dýravernd. Ég fór að kíkja með öðru auganu á myndbönd sem sýndu aðbúnað iðnaðardýra úti um allan heim, líka í hinum vestræna heimi. Yfirleitt eru þetta svo ljót myndbönd að það er mér ómögulegt að hafa bæði augun opin. En þetta er sannleikurinn og hann er sár. Hann svíður ólýsanlega. Það er svo klikkað að hugsa til þess að ein tegund (manneskjan) getur fyrir sneið af Tulip beikoni, sætt sig við að hryssa í Suður-Ameríku sætir hrottalegri meðferð (það er linkur á bak við), að gyllta sé búruð inni og spennt niður í tvo mánuði á ári með tilheyrandi legusári því hún getur hvorki snúið sér við né fært sig úr stað og að grís sé fluttur í yfirfullum flutningabíl án loftkælingar og án hvíldar fleiri þúsund kílómetra til t.d. Ítalíu til þess að verða feitur. Bara fyrir beikon, já eða skinku, hamborgarhrygg, purusteik, pulsu, kótilettu og margt annað. Meðferðin á svínunum er ólýsanlega ljót. Þessi ofanverðu dæmi eru bara brotabrot. Þarna erum við sem tegund komin svo óralangt frá hringrás lífsins sem er, eins og Múfasa kenndi Simba litla allt um í Konungi ljónanna; fæðing, lifun og dauði. Allir þrír þættirnir í nútímasamfélagi eru brenglaðir. Allar fæðingar afkvæma í stóriðnaðinum eru sorglegar. Líf dýra í stóriðnaðinum er sorglegt. Dauðinn er líka sorglegur en ekki afþví að dauðinn sjálfur er sorglegur, heldur hvernig að honum er staðið.
Ég gæti lengt færsluna talsvert ef ég týndi til staðreyndir um umhverfisafleiðingar eða staðreyndir um villtu dýrin. Þau eiga alvarlega undir högg að sækja vegna nútíma dýraiðnaðar. 

Lífið fer kollhnís.
Þegar ég veiktist (eggjastokkakrabbamein) fyrir þremur árum síðan, fór ég strax að kynna mér hvað Krabbameinsfélagið (líka AICR=American Institute of Cancer Reshearch), danska matvælastofnunin og Alþjóðlega heilbrigðisstofnunin segðu um hvað best væri að borða og hverju bæri að sleppa, til að skapa líkamanum ákjósaleg skilyrði til að lifa þetta nú af (þótt ekkert sé öruggt). Læknarnir báru ábyrgð á að greina mig og velja meðferð og lyf handa mér, ég hef alltaf borið ábyrgð á rest.
Ég fór að sleppa öllum unnum mat og minnka neysluna á rauðu kjöti verulega mikið. Fljótlega stóð eftir svolítið lambakjöt, fiskur og mjólkurvörur.

Haustið 2019 fór ég í endurhæfingardvöl á vegum OUH (Háskólasjúkrahúsið í Óðinsvéum), SDU (Suður danski háskólinn) og Krabbameinsfélagsins. Þar var einungis boðið upp á grænmetisfæði og margir af þátttakendunum voru vegan. Ég varð fyrir miklum áhrifum enda löngu komin alla leið í huganum. Málið var bara að framkvæma. En eins og ég nefndi áður; mér hefur aldrei þótt gaman að elda og aldrei haft áhuga á næringu. Þá eru forsendurnar áskorun. En hvað var það sem ég vildi? Eða vildi ekki? Ég vildi alls ekki lengur vera þátttakandi í dýraníð í matvælaiðnaðinum. Ég vildi fyrir alla muni leggja mitt af mörkum til að halda heilsunni – annað væri glapræði. Og umhverfismálin voru að síast inn af fullum krafti. Þeim gat ég heldur ekki horft framhjá og allra síst vegna komandi kynslóða.

Stóra skrefið.
Eftir áramótin 2019-2020 hætti ég að kaupa dýraafurðir. Ég keypti mér bók (Den plantebaserede kost)sem hefur hjálpað mér rosalega mikið af stað og leiðbeint mér og viti menn, ég fór að hafa áhuga á næringu! Mér fór að þykja gaman að elda og næra mig. Viðhorfið breyttist úr: Æ, hvað eigum við að hafa í matinn í kvöld? Í: hvernig eigum við að næra okkur í kvöld? Samviskubitið yfir að finnast ég vera að gera rangt, hvarf. Það færðist ákveðin friður yfir mig. Ég var allt í einu komin á þann stað sem mig í mörg ár, er búið að langa til að vera á.

Brot af spurningunum.
Ég er oft spurð allskonar af fjölskyldu, vinum, samstarfsfólki og kunningjum. Eftirfarandi spurningar eru algengastar. 

  • Ertu enn vegan? Já, þetta er ekki nein della, megrunarkúr, tískufyrirbrigði né eitthvað sem fólk bara prófar. Þetta er lífsstíll til að bæta heilsuna og heiminn.
  • Hvað með Fúsa? Eldarðu sér fyrir hann? Nei, við borðum nánast það sama, bara svona eins og flest hjón gera.
  • Hva´! Er Fúsi bara til í þetta? Vill hann alveg sleppa kjötinu? Afhverju ætti hann ekki að vilja sleppa kjötinu alveg eins og ég? Hann er hvorki heila- né viljalaus. Hann er hugsandi nútímamaður sem lætur sér annt um komandi kynslóðir, dýrin og náttúruna okkar. (Hann spáir reyndar minna í heilsunni en ég).
  • Ef ég kem í heimsókn til ykkar, þarf ég þá líka að borða vegan? Nei, þú mátt alveg elda sér fyrir þig, en mér þætti vænt um að fá að gefa þér að borða, vegan er bara ósköp venjulegur matur, stútfullur af næringu, ég lofa. En ef þú kemur með dýraafurðir inn í eldhúsið mitt, plís neyttu þeirra og ef þær klárast ekki, taktu þær þá með þér. Ég get ekki hugsað mér að þú hendir þeim. Það væri siðferðislega sorglegt.
  • Ef þið komið í heimsókn til mín, hvað á ég þá að gefa ykkur að borða? Hafðu ekki áhyggjur, við getum tekið eitthvað með. Ef þér finnst það óþægilegt, þá get ég hjálpað þér að finna uppskrift eða leiðbeint þér. Þetta er mikið auðveldara en þú heldur.  
  • Bíddu, ekkert kjöt? Hvað með prótín, hvaðan færðu það? Það er prótín í svo ótal mörgu í plönturíkinu, kynntu þér það og þú munt verða fyrir opinberun. Eitt sterkasta dýrið í heiminum borðar bara plöntur. 
  • Ertu ekki örugglega að taka B12 vítamín? Þú getur orðið fyrir skorti og dáið. Jú, ég tek B12 vítamín, en þú? Það eru nefnilega ekki bara veganar sem eiga á hættu að skorta B12 vítamín.
  • Dagný, fáðu þér kjöt, svona fáðu þér bita … Koma svo. ??? Mér finnst þetta skrítið og óþægilegt. Aldrei hefur neinn otað að mér sígarettu eftir að ég hætti að reykja. Eða otað að Fúsa áfengi eftir að hann hætti að drekka fyrir 21 ári síðan. Flest okkar höfum við einhverjar skoðanir á vali annarra. Hvort fólk reykir, hvað það borðar, hvort það hreyfir sig eða ekki. Stundum þurfum við ekki að básúna skoðunum okkar persónulega auglitis til auglitis, stundum kemur val annarra okkur ekki við. Sérstaklega ekki þegar það skaðar engan og í raun og veru gerir meira gott en vont. 
  • Gerirðu þér grein fyrir að þú ert að borða matinn frá dýrunum? (þessari spurningu fylgir alltaf svolítið heimskulegt glott, sorrý). Það soja sem fólk borðar, sem er 25% af allri sojaframleiðslu, er að langmestu leyti ræktað í Evrópu. 75% af allri sojaframleiðslu fer í dýrafóður. Nánast allt soja sem er notað í dýrafóður er ræktað í trópískum skógum (t.d. í Suður-Ameríku) þar sem skógar eru ruddir, brenndir og villtu dýrin leggjast á flótta. Þetta er gríðarstórt vandamál. Eitt kíló af nautakjöti krefst sjö kílóa af plöntuuppskeru. Hvað er eitt naut þungt? Ef allt soja sem nú er notað í dýrafóður væri notað beint í manneskjufóður, væri hægt að útrýma hungri og hungursneið margfalt. 
  • Máttu borða lakkrís, ost, hlaupbangsa, hreindýr, rækjur ofrv.? Já, ég má borða allt sem mig langar í. Ekkert er bannað. Allt snýst um val. Ég má líka reykja Camel, drekka heila flösku af rommi á dag, borða tíu kíló af nammi á viku. Af væntanlega augljósum ástæðum vel ég hvorki að reykja né borða slíkt magn af nammi. Það val sem ég tek varðandi næringu er líka augljóst fyrir mér.
  • Afhverju geturðu ekki bara borðað venjulegan mat? Afhverju þarftu að vera með þetta vesen? Afhverju getur ÞÚ ekki borðað venjulegan mat? Hvað er annars venjulegur matur? Ég hef alltaf haft ríka tilhneigingu til að halla mér upp að vísindunum og hlusta á og fara eftir því sem þeir mér fróðari segja og mæla með. Í dag, árið 2021, er plöntumiðuð næring meira venjulegur matur en dýraafurðir. 

Danska Fødevarestyrrelsen / Matvælastofnun (?) kom með ný næringarmeðmæli í janúar 2021. Eins og sjá má á myndinni er lítið um mjólkuvörur, ekkert rautt né unnið kjöt og lítið af ljósu kjöti og fiski. 

Þetta er síðasti hluti færslunnar.
Að vera vegan eða grænkeri er ekki nýtt af nálinni. Fyrsta veganska uppskriftarbókin kom út árið 1946. Og hvað þýðir það svo að vera grænkeri? Þau sem aðhyllast grænkera lífsstíl líta svo á að það sé siðferðislega óréttlætanlegt að nýta dýr og dýraafurðir til matar, afþreyingar, þæginda eða einfaldlega af vana. Grænkerar reyna því eftir fremsta megni að forðast að valda óþarfa þjáningu. 

Ég upplifi oft (já oft) að fólk prjónar eins og fældur hestur bara við að heyra hugtakið vegan. „Já nei, það þýðir sko ekki að bjóða mér eitthvað vegan …“ Ég held að margir haldi að vegan sé óæti, jafnvel bara grænt gras með sojasósu. Og brauð. Eða jafnvel sina með sojasósu. Og brauð. Ég skil það alveg. Áður en ég varð sjálf vegan, var vegan matur framandi og ókunnugur fyrir mér. Ég kunni t.d. EKKERT á baunir. Það eina sem ég þekkti voru bakaðar baunir á laugardagsbrauðinu á Eiðum og saltkjöt og baunir. Ég var fáfróð um krydd og hafði aldrei smakkað tófú því ég hafði aldrei komið til Kína. Eða hvar nú tófú var selt. Ég vissi það held ég ekki, tengdi það bara útlöndum langt í burtu. Ég vissi ekki að það fengist úti í næstu búð.
Ég hélt líka að eina leiðin til að fá prótín væri úr blóðugri steik. Og ég varð oft kjötsvöng ef ég borðaði ekki kjöt í nokkra daga í röð.
Ég vissi heldur ekki að það væri margfalt ódýrara að vera vegan heldur en kjötæta út úr búð. Að plastnotkun myndi minnka um 1/3. Og að matarsóun myndi minnka um … tja meira en helming? 3/4? Ég vissi ekki að það væru til svona margar bragðtegundir og mismunandi samsetningar í plönturíkinu. Ímyndaðu þér að hafa farið í sólarlandarferð á sama hótelið á Ibiza síðustu fjörutíu árin en svo ákveðurðu að breyta útaf vananum og fara eitthvað allt annað og heimurinn opnast. Það var það sem gerðist þegar við breyttum útaf vananum; matarheimurinn opnaðist.

Heimurinn er samt ekki okkar, ekki heldur matarheimurinn, við erum ekki miðja alheimsins. Manneskjan er ekki æðri öðrum dýrategundum.  

Þetta er mín vegansaga, mín veganvegferð. 

Ykkar einlæg 

 

 

 

 

6 Responses to “Ég er vegan.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *