Bókagagnrýnistuð

Ég bað um ákveðna bók í jólagjöf og fékk hana. Ákvað að það væri komin tími til að gera aðra tilraun á Vigdísi Gríms, að ég hlyti að vera orðin nógu fullorðin til að lesa hana.

Ég opnaði hana spennt um miðjan janúar, eftir að hafa lesið íslenska dóma um hana. Bókin er lofsömuð í bak og fyrir og hreinlega hið besta konfekt fyrir lesandann. Engin segir neitt annað en gott. Ég var alveg að springa úr spenningi. Þetta yrði e-ð.

IMG_4137

Ég hóf lesturinn og heillaðist strax af tungumálinu! Vigdís er snillingur í íslensku, engin vafi. Hrein unun alveg hreint að lesa tungumálið svona fagurlega skreytt. En ég komst ekki lengra en á bls 101. Alveg frá bls 51 var ég í barningi við sjálfa mig… fannst það óskaplega lélegt að gefast upp og þá sérstaklega eftir að hafa lesið allan lofsöngin frá íslensku bókmenntagagnrýnendunum. Ýmsar hugsanir og spekulasjónir skutu upp kollinum. Var ég svona bókmenntalega vitlaus? Svona takmörkuð? Að þetta væri bara of „arty“ bók fyrir mig? Ég fór aðeins að spyrjast fyrir og fékk engin jákvæð svör… engan lofsöng.

Þórey vinkona mín hérna í Sönderborg sagði okkur í síðasta prjónaklúbbi að það góða við áhugamálin og afþreyinguna væri að það þyrfti aldrei að klára. Ef ég nenni ekki að prjóna þessa blessuðu ermi, þá er í lagi að hún liggi oní skúffu restina af lífi mínu. Ef ég missi áhugan á fjallstoppi í miðri fjallgöngu, þá er í lagi að snúa við. Eða ef bókin er ekki nógu skemmtileg, að hætta í miðju kafi. Það er víst nóg samt sem þarf að klára í hversdagsleikanum. T.d. vaktin, innkaupin, ritgerðin, matargerðin… það yrði upplit á heimilisfólkinu ef ég bæri fram hálfeldað lasagna og legði bara glös á borðið. Eða ef Fúsi skrúbbaði aðeins vinstra megin í klósettinu og færi svo og fengi sér kaffi. Þessari speki hennar Þóreyjar lifi ég mjög meðvitað eftir.

Ég hætti að lesa Vigdísi. Án nokkurs samviskubits. Því aðra eins lystilega vel skrifaða bók um ekki beint neitt hef ég aldrei áður lesið. Þessar 101 bls. eru bara fram og til baka, til baka og fram. Ég fékk ekkert útúr þessum bls., hvorki tilfinningar, fróðleik, skemmtun né spennu. Er þessi bók eins og nýju föt keisarans? Eru íslenskir bókmenntagagnrýnendur ágætis vinir rithöfundanna og því vissara að segja það rétta um listina í nánasta umhverfi…?

Þórey kom hinsvegar færandi hendi í dag.

IMG_4143

Önnur íslensk bók. Hallgrímur Helgason og Kolbrún Bergþórsdóttir rithöfundar, lofa hana bæði.  Ég ætla að reyna við hana og sjá til hvort ég klára.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *