Gefins bækur…

Fyrir ekki svo langa löngu játaði ég fyrir ykkur áráttuna mína… að telja hluti. Væntanlega er þetta vægt OCD en heiti sálfræðingurinn minn segir að þetta sé svo vægt að ég þurfi ekki greiningu. Á bara að koma reglulega í viðtal. Var hjá honum í gær og smellti einni mynd af honum í lok viðtalsins.

hot-man-hd

Hann vill að ég komi aftur á morgun… svona til að halda OCD-inu í lágmarki. Ég stalst til að telja smá í dag… ég taldi bækurnar okkar. Í stofunni voru 557 bækur. Við hugsuðum með okkur að það gengi ekki… það yrði að grisja. Þessvegna vill Sigfús leggja gott til málanna og gefa ykkur 2/3 af nördabókunum sínum. Ég ætla bara að vara ykkur við. Þetta eru EKKI skemmtibækur! T.d. gæti maður rekist á eftirfarandi setningu… „The modifiers – selection modifiers – spline select modifier lets you use of this modifier to hide modifier“ Ekki beint skemmtilesning… og minnir óneitanlega á ritstílinn í bókunum Fifty shades, þar sem endurtekningarnar ráða ríkjum.

IMG_4681

Ég ætla líka að leggja mitt af mörkum til samfélagsins og gefa 1/4 af hjúkkubókunum mínum, ásamt öðrum stórmerkilegum bókmenntum.

IMG_4706

Þessi grængula þykka þarna, Börn og familie i det postmoderne samfund er tilvalin ef fólk vill fræðast um nútíma fjölskylduna og eftilvill breyta einhverju. Ég get ekki notað hana því fjölskyldan mín er vita vonlaust tilfelli og ég breyti litlu héðan af… Ef mín nyti ekki við, þá myndi Fúsi borða dósafisk í öll mál, hlusta á slefandi dauðarokk og horfa á geimverumyndir kvöld eftir kvöld með Aldísi. Svala væri væntanlega bara á vergangi.

2014-02-15 11.17.28

Já, ég held að hann ætti að vera þakklátari fyrir mig. Og sýna það í verki. T.d. með að gefa mér iMac.

imac3

Þetta er einmitt það sem ég á skilið og það sem ég þarf NAUÐ-SYN-LEGA á að halda!

Því ég er að verða nörd-gúru eða e-ð þriðja… Nú á ég bæði utanáliggjandi harðan disk og búin að elska Lightroom (myndvinnsluforrit) útaf lífinu í dag! En það reynir aðeins á þolinmæðina að vera að vinna á tölvu sem er fyrsta talvan hennar Svölu, með handónýtu lyklaborði og alltof litlum skjá. Ég er svoddan fórnarlamb… týpísk vesalings húsmóðir sem hangi í restum heimilisfólksins.

Aftur að bókunum sem þið megið eiga… Við ætlum að gefa 44 bækur og nú þegar þær eru farnar úr hillunum, fluttum við bækurnar sem voru í gestaherberginu upp. Það voru 31 bók. Svo dæmið lítur svona út: 557-44+31=544 bækur í stofu. (Bækurnar í herbergjum stelpnanna voru ekki taldar).

Sáuð þið að Daniella Steel var staflanum??? Það verða allir að eiga Steel… játa að ég hef ekki lesið hana en hún hlýtur að vera stútfull af safaríku væli.

Síðan er þarna bók sem heitir Betra kynlíf. Algjörlega ómissandi ef e-ð bjátar á í svefnherberginu. T.d. er heill kafli um sáðlátstregðu (ekkert fyndið við það) og annar um sáðlát án stinningar. Algengasta orsökin fyrir því er áfengisneysla og reykingar. Svo er fjallað um heilalömun og þrælinn (?). Það eru 3 bls um leggangatind og 5 bls. um nautnasturtu. Hmm er eiginlega hætt við að gefa þessa bók. En þið meigið eiga allar hinar.

 

 

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *