Mótorsög á móti menntun

Frídagurinn minn… dýrmæti frídagurinn! Vaknaði við sólina beint í augun úr tveimur áttum -bæði úr austri og suðri? Er það hægt kl 7.50? Fór á fætur og var rekin í kút við skerandi hljóð úr nágrannagarðinum. Hugsaði strax: „Ó NEIIII… ekki á frídeginum mínum!“. Það koma tvennskonar skerandi hljóð frá grannanum… annarsvegar frá garðvinnunni, hinsvegar frá árlega fjölsyldupartýinu í ágúst. Þá kemur öll fjölskyldan saman allsstaðar að úr Þýskalandi og allt springur í loft upp. Við skiljum ekki bofs en ég get svo sannarlega lofað ykkur að þau eru ekki vinir! Svei mér þá ef afinn á göngugrindinni og stelpukindin, sonardóttirin, slógust ekki með skóflum í hitteðfyrra. Engin slasaðist.

En í dag var það garðvinnan. Nágranninn er orðin heldur makindarlegur miðað við aldur og ræður fólk í vinnu til að klippa og snurfusa gróðurinn. Fólkið mætir kl. 7 og í dag er það „plumber maður“ á mínum aldri, en það er maður með buxurnar fyrir neðan rass. Ég vil ekki sjá það en þarf samt alltaf að vera að kíkja útum gluggann. Og það er ekki þannig að ég sjái skoruna beint útum eldhúsgluggann, heldur þarf ég að fara upp á efri hæð til að sjá oní garð nágrannans og að auki, oní buxur garðvinnumannsins…. og alla leið niður að pung.

Eftir því sem áleið á morgunkaffið og matinn minn, því meira skerandi varð garðvinnuhljóðið. Þetta er bara venjulegt limgerði en karlinn með buxurnar á hælunum notar mótorsög! Get alveg sagt ykkur að venjulegar limgerðisklippur eru yfirdrifið nóg. (Afhverju heitir annars limgerði LIMgerði?)

Þarna skarst mótorsögin inn að mergi og ég var farin að örvænta að ég héldi geðheilsunni fram að hádegi. En þá hringdi síminn!

Yfirmaður minn, deildarhjúkrunarfræðingurinn á gjörinu: „Æ fyrirgefðu að ég skuli trufla þig svona á frídeginum þínum en ég varð bara að hringja því ég er svö glöð…!“

Ég: „glöð?“

Hún: „já, þú varst að fá svar við umsókninni þinni um meira nám og fékkst já við „öllum pakkanum“… varð bara að hringja, gat ekki bara skrifað mail…“.

Auðvitað mátti hún trufla… svona í miðri mótorsöginni. Ég varð natürlich líka ósköp glöð! Sérstaklega í ljósi alls sparnaðar, allra þröskulda og hótanna um enn meiri niðurskurð frá yfirstjórninni á þessu annars ágæta sjúkrahúsi. Nú á aldeilis að punga í mig peningum! Þetta er ein stóra ástæðan fyrir viðvarandi veru okkur hérna í DK. Það er þessi blessaða indælis vinna og allir möguleikarnir sem koma eins og flóðbylgja beint í fangið á mér.

„Allur pakkinn“ þýðir námslok 2017. 2017! Finnst það vera langt fram í framtíðinni! Ég verð meira en fertug! Þetta verður samt tekið í skömmtum, u.þ.b. ein stíf lota á önn. Ætti að ráða við það ef ég tek einn dag í einu.

Svo það má segja að þessi morgun hafi verið svona „gott vont“ eða súrsætur… mótorsög á móti menntun.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *