Dæmigert föstudagskvöld

Það hefur verið svo viðburðarríkt eftir vinnu í dag. Langþráð helgarfríið hófst með blundi út í garði í sólinni. Ég lýg því ekki. Það var svo heitt að ég reif mig úr buxunum og blasti þá við sorgleg sjón. Þið vitið hvernig það er með gamalt fólk og fólk sem á erfitt með hreyfingu, t.d. beygingar. Það vanrækir þá líkamshluta sem næst ekki til. T.d. tásurnar. Ég hef flýtt mér í sturtu síðasta mánuðinn og sköfunni hefur verið beitt álíka og ég myndi beita sverði í skylmingum, handahófskennt og fálgslega. Árangurinn er allstórt svæði aftan á báðum kálfum sem skafan hefur aldrei komist í nágrenni við. Ég ákvað að láta það ekki hafa áhrif á mig og féll því í þungan svefn til að geyma en ekki gleyma. Ég er nú búin að redda mér rúningaklippum fyrir aðgerð morgundagsins. Ekki fer ég að fara í afmæli með bút af skógarbjarnarfeld á kálfunum.

Ég vaknaði við að nágrannarnir voru farnir að rífast. Og það voru ekki neinar lítilsháttar þrætur. Nei nei, harðfullorðna fólkið skellti gluggum og hurðum. Mig langaði mest til að tylla mér á tær og hrópa yfir limgerðið: „Stoppen streiten. Das Leben ist zu kurz, können Sie schwer krank morgen werden können oder in einen Unfall verwickelt und buchstäblich gestorben und dann ist alles zu spät“ en ég gerði það ekki. Var ekki viss um að þau myndu skilja mig því ég kann ekki þýsku. Eftir að hafa elt hvort annað út á götu, sömdu þau frið, settust á veröndina, böðuðu sig í kvöldsólinni og drekktu rifrildinu í rauðvíni.

Ég fór í kaupfélagið til að redda kvöldmatnum og á leiðinni kynntist ég nýjastu nágrönnunum. Það er ungt par búið að kaupa stóra rúmlega 100 ára húsið á horninu á Möllegade og Smallegade og eru þau að taka það í nefið. Risa hús í miðbænum … á 500 þús. Það segir mikið um hversu ílla það var farið. En þau eru sýnist mér að gera kraftaverk. Ég var svo almennileg að bjóða/lána Fúsa minn til vinnu. Honum er mein ílla við að ég geri þetta. Bjóði hann bara í eitthvað. Stundum ókeypis, stundum gegn gjaldi. Einu sinni seldi ég hann fyrir 10 ára gamla uppþvottavél sem entist síðan bara í 3 mánuði. Það voru léleg kaup og hann er enn bitur út í mig. En núna í dag, hafði hann ekkert á móti því að ég hefði boðið hann ef þeim vantar hjálp. Hann hefur, upp á síðkastið gert sér óvenju margar ferðir framhjá, sérstaklega ef Charlotta er í hlýrabol og gallabuxum, með ljóst, sítt hárið í tagli, upp á þaki með hamar. Þá gengur Sigfús fram og til baka … mörgum sinnum. Og nú bíður hann spenntur eftir að hana vanti hjálp. Thomas er líka með í þessu húsi en hann velur Fúsi að hunsa. Hann er ekki til.

IMG_9427

Síðan gerði ég sveppa pizzu. Það fer einn heill pakki af sveppum á mína pizzu og mætti vera meira. Um daginn keypti ég pizzu með skinku og sveppum á Gardemoen flugvelli. Það var einn sveppur á pizzunni. Búið að skera hann í 4 sneiðar og setja eina sveppasneið á hverja pizzusneið. Hneyksli. Á meðan pizzan mín í kvöld bakaðist, fékk ég mér forrétt. Froska með lakkrískremi. IMG_9446IMG_9447IMG_9448

Var á tilboði í Kaupfélaginu og algjörlega 10kalls virði. Skolað niður með pissusullsbjór. IMG_9454

Of ljós fyrir mig en samt hvarf hann. Bless San Miguel og góða ferð ofan í maga. Samt var hann ágætur á bragðið þótt hann sé of ljós. Kannski hjálpar að hafa hann í rauðvínsglasi. Skapar betri stemmingu, sérstaklega þar sem ég var með hveiti á bumbunni (sem er ekki satt því ég keypti tilbúin heilhveitipizzabotn).

Á efri hæðinni dunaði dansinn, já aftur. Um síðustu helgi var líka partý (hér bloggaði ég um það). Nú var partý frá kl. 18.30-20:00. Ég held svei mér þá að það þetta verði fastur liður um helgar næstu þrjú árin. Svala býr nálægast skólanum, hinar búa fjær, Svala býr nálægast miðbænum, hinar búa fjær og Svala er meira en til í að bjóða heim. Og það er auðveldast ef Svala býður heim! Já, þetta verðum við gömlu væntanlega að lifa við næstu árin. Og eigum kannski eftir að sakna þessa þegar við verðum bara tvö eftir í kotinu. IMG_9468 IMG_9464

Í kvöld er Rave partý í allri Sönderborg.

Eftir sitjum við gömlu og horfum á Útsvar. Nýbúin að jafna okkur á hláturskastinu sem við fengum yfir fréttunum á RUV, þegar litli danski bóndinn fór inn í tölvuna … í bóndaleik! 🙂

Góða helgi!

P.s. á morgun kemur sölublogg með miklum gæðavarningi á gjafverði. Svo fylgist með til að missa ekki af símasölu ársins.

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *