Afmælið í ágúst (og kossinn í kartöflugufunni)

Maður er varla komin inn fyrir dyrnar á nýja árinu þá þarf að fara að skipuleggja frí fyrir ALLT næsta fríár. Þessir Danir sko! 5 vikur -dreifðar yfir árið, með tilheyrandi boðum og bönnum, sumarfríi barnanna, haustfríi húsbóndans, undirbúnings fæðingar frelsarans (sem er þó kannski löngu fæddur) og vetrarfríinu! Á að velja viku 7 árið 2016??? Og hvenær verður Þorrablótið árið 2016? Þetta allt og meira til þarf ég að taka ákvörðum um fyrir mánudaginn. Á mánudaginn set ég X-in fyrir næstu 60 vikurnar.

Þannig að ég kemst ekki hjá því að skipuleggja mig og alla fjölskylduna um helgina, mér er hvorki hlíft né vorkennt í vinnunni ef ég gleymi að setja X-in.

Það sem er efst í huga mér núna, vegna þessarar óskaplegur skipulagsáráttu Danana, er afmælið mitt. Þetta sem ég get ekki beðið eftir! Ég borgaði inn á skuldina mína í gjafakassanum í vinnunni á gamlárskvöld. 200 kall (4156,20 ISK) svo þetta mjatlast. Það var nefnilega í júní sem ég uppgötvaði að ég fæ gjöf af verðmæti 500kalls (10.390,50 ISK) þegar ég verð fertug. Auðvitað bloggaði ég um það. 

Eitthvað hefur afmælisundirbúningurinn farist fyrir undanfarna mánuði þrátt fyrir að ég hafi verið komin á ágætis skrið á haustmánuðunum. Þá var ég búin að ákveða að fá Johnny Depp og Eddie Vedder til að spila og syngja. En það eru að renna á mig tvær grímur, ég held að ég hafi hreinlega ekki efni á þeim, né að þeir komi nokkuð hvort eð er. Kannski verð ég bara að láta mér nægja plakat.

Enda hvað nennir maður að hlusta á einhverja útlendinga á meðan Helgi Björns er enn á lífi. Helgi minn. Kannski hann verði bara tilfallandi í sumarbústað við Flensburgarfjörðinn með strákunum úr Síðan skein sól  á sama tíma og ég held upp á afmælið og þá væri nú ekki langt fyrir þá að renna hingað í Myllugötuna og taka nokkur lög af gömlu plötunni Halló ég elska þig. 4779Hann gæti t.d. tekið Nóttin, hún er yndisleg, Úlfurinn, Þú og ég og Halló, ég elska þig… eða bara öll og fleiri. Jeminn hvað verður gaman. Ætla að hafa blöðrur, seríur og allt.

Annars valdi ég mér mynd á Vódinu þegar ég var í bænum síðast (Reykjavík). Hefði svosem getað sleppt því þar sem það var mynd með Jude Law í sjónvarpinu en ég hafði bara séð hana svo oft, og svo fer Cameron Diaz svo ógurlega í taugarnar á mér í þeirri mynd. Óþolandi vöxtur, örugglega ekki notað tannþráð í langan tíma, voðalega leiðinleg til augnanna auk þess sem hún klíndi sér alveg upp að Jude Law þarna í mörgum atriðum. Svei mér þá ef þau höfðu ekki samfarir. Þoli hana helst ekki. Þessvegna leigði ég mynd með Helga. Köld slóð frá 2006. Alveg snilldarmynd þar sem hann klæðist þröngum langerma nærbol sem gerir að brjóstvöðvarnir verða skemmtilega sýnilegir og geirvörturnar einnig því þær urðu svo stinnar þegar hann fór á kraftmikla snjósleðanum að athuga með hreindýraskrokkana í snjóhúsinu. Hann hafði allt sem þurfti til í þessari mynd.

Fyrst ég er komin í erótíska gírinn þá er best að draga eiginmanninn inn í færsluna, enda komin tími til. Eftir margra tuga ára sambúð erum við, hreinskilningslega sagt, orðin frekar léleg að kyssast ástríðufullt um hábjartan daginn í almenningsrýminu í húsinu. Þessu ætlaði ég að breyta í kvöld. Við vorum að sjóða kartöflur og ég ákvað að kyssa hann, þarna sem hann stóð nýrakaður (gerist mjööög sjaldan) í kartöflugufunni. Svo ég ræðst á hann með áfergju og geri mitt allra besta… nema hvað… hann ýtir mér frá sér. Afhverju? Jú, honum var eitthvað íllt í augunum. !!??!!. Bara til að koma í veg fyrir getgátur og misskilning, þá rak ég EKKI tunguna í augun á honum! Ég hefði nú bara notað höfuðverkjarafsökunina.

En þetta var smá útúrdúr, svona getur Helgi dregið mann á tálar.

Aftur að afmælinu; dagurinn sem ég er að hugsa um að setja X-ið við á mánudaginn, er 15. ágúst 2015! Þá eru allir eða flestir komnir heim úr sumarfríi hérna en sumarfrí ennþá á Íslandi. Ohhh hvað ég hlakka til. En ef einhver hugsar með sér að þetta sé alveg vitavonlaus dagur, þá er 2ja daga mótmælamöguleiki. Formlega boðið kemur síðar.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *